Rætt var við Kára í Morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun.
Íslensk erfðagreining birti niðurstöður erfðarannsóknar sinnar í vísindatímaritinu Science í dag. Þar kemur fram að uppeldi og aðhlynning barna í æsku geti haft áhrif á gáfur. Í rannsókninni var stuðst við erfðamengi þúsunda Íslendinga sem fæddir eru á árunum 1940 til 1983.
Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, segir að leitast hafi verið við að búa til aðferðir til að meta hlutfallslegt framlag annars vegar beinna erfða frá foreldrum til barna og hinsvegar þann hluta sem á rætur sínar í foreldrunum sjálfum í uppeldinu. „Vegna þess að við byggjum þetta með því að líta á erfðamörk í þeim hluta erfðamengis foreldra sem fer ekki yfir til barnanna þá köllum við þetta erfðauppeldi eða genetic nurture."
Kári segir það nýtt að hægt sé að mæla framlag hvors fyrir sig. „Við eigum eftir að nota þetta á ýmislegt annað heldur en bara menntun sem var stærsti hluti í því sem var lýst í þessari grein.“
Kári segir að greinin sýni að hægt sé að hafa áhrif á greind fólks. „Greindarvísitala er einn mælikvarði á starf heilans. Heilinn er bara líffæri og eins og flest önnur líffæri þá má þjálfa heilann og þjálfunin skilar sér, það er augljóst.“
Þetta sýni fram á að umhverfið frá fyrstu tíð skipti máli. Því skipti máli að hlúa að börnum og sjá til þess að umhverfi þeirra sé gott. „Ekki bara á heimili þeirra í kringum foreldra, heldur líka í skólum, leikskólum, barnaskólum og svo framvegis. Það er að segja börn fæðast ekki bara góð eða vond, eða skýr, gáfuð, greind með mikla getu. Þau fæðast full af vilja til þess að taka við góðu úr sínu umhverfi. Við höfum skyldur sem foreldrar, afar og ömmur og samfélag til þess að hlúa að börnum eins vel og hægt er og sjá til þess að þegar þau komast á legg að þá verði þetta samfélag miklu betra.“
Kári segir að um leið og hægt er að mæla hversu mikil áhrif aðhlynning foreldra hefur á menntun og gáfur sé hægt að leita að því sem hefur jákvæð áhrif. „Og ég held að í sjálfu sér þurfi ekki að leita mikið út fyrir venjulega heilbrigða skynsemi góðs fólks til þess að sjá hvað það er sem er gott fyrir blessuð börnin þegar verið er að ala þau upp.“
Sjá nánar á vef ruv.is