Það hefur verið mikið að gera hjá mér svo grein sem ég hef verið að dunda við undanfarið er ekki enn tilbúin. Það verður verulega spennandi þegar hún kemur út því efnið byggir á svo ævintýralegu kjaftæði að annað eins hefur ekki sést síðan "Waves International" svikamyllan rann sitt skeið á Íslandi fyrir fimmtán árum.
Venjulega legg ég mikla vinnu í svona skrif og kem til með að halda því áfram en í þetta skipti ætla ég að skella hér inn hraðsoðinni samdægurs-athugasemd.
Tilefnið er auglýsing í gerfi "kynningargreinar" sem er að finna í Fréttablaði dagsins. Auðvitað er þetta í blaðhlutanum "Fólk "þar sem fæðubótarfullyrðingaflóðið fær að vanda mikið rými.
Ástæðan fyrir þessari skyndigrein er sú að ég rak augun í fullyrðingu í auglýsingunni sem vakti forvitni mína. Auglýsingin fjallar um hylki sem eiga að innihalda skrýtinn ávöxt alla leið frá Kyrrahafseyjunum sem kallast Noni. Latneska heitið er morinda citrifolia.
Í íslensku auglýsingunni er gefið í skyn í umfangsmiklum vaðli að við munum sennilega sleppa við allar pestir bara ef við kaupum og étum púlverhylkin frá Balsam sem innihalda þessa furðuplöntu. Ýmislegt er við þann texta og fullyrðingar í honum að athuga en ég ætla að láta mér nægja að agnúast hér út í eina fullyrðingu sem er óvenju auðvelt að hrekja. Þeir gefa meira að segja sjálfir upp hvar á að leita upplysinganna. Það var bara að slá inn orðið "noni" í leitarglugga þeirrar stofnunar sem nefnd er og upp kom ein síða um efnið.
Fullyrðingin í auglýsingunni í Fréttablaðinu hljóðar svo:
Vissir þú?
að American Cancer Society mælir með noni á www.cancer.org?
Þetta reynist vera ósatt. Ég fletti upp umfjöllun Bandaríska Krabbameinsfélagsins (American Cancer Society) um noni ávöxtinn. Þeir mæla ekki með neyslu hans heldur vara í raun við því.
Hver sem er getur lesið umfjöllun bandaríska Krabbameinsfélagsins um þessa plöntu á vef þeirra.
Þar stendur í samantekt:
There is no reliable clinical evidence that noni juice is effective in preventing or treating cancer or any other disease in humans. Although animal and laboratory studies have shown some positive effects, human studies are just beginning. Research is under way to isolate various compounds in the noni plant so that further testing can be done to learn whether they may be useful in humans.
Ég þýði þetta svo:
"Það eru ekki til neinar áreiðanlegar, klínískar vísbendingar um að noni safi sé virkur í að koma í veg fyrir eða meðhöndla krabbamein eða aðra sjúkdóma í mönnum. Þó dýra- og tilraunastofurannsóknir hafi sýnt nokkur jákvæð áhrif, þá eru rannsóknir á mönnum nýhafnar. Rannsóknir eru í gangi til þess að einangra ýmis efnasambönd í noni plöntunni svo fleiri prófanir sé hægt að gera til þess að komast að því hvort þau megi vera til gagns í mönnum."
Það er nefnilega langur vegur frá því að vísbendingar komi fram í tilraunaglösum og dýratilraunum og að því að finna út hvort efni sé gagnlegt eða jafnvel hættulegt í mönnum. Fæðubótarfúskarar nota sér gjarnan fréttir af frumu- og dýratilraunum til þess að selja einhverja skrýtna vöru, gjarnan úr óvenjulegum og spennandi hitabeltisávöxtum.
Oftast kemur nefnilega í ljós að efni sem bældi eða drap krabbameinsfrumur í glasi og gerði eitthvað gott við rottur er vita gagnslaust eða jafnvel eitrað í mannfólki. Svona til þess að hjálpa ykkur að trúa því að dýratilraunir er ekki alltaf hægt að yfirfæra á menn og öfugt skulum við taka dæmið um Panódíl. Það efni (paracetamol) virkar mjög vel og örugglega í mönnum en ef þú gefur ketti það þá steindrepst hann. Svoleiðis er það með mörg efni að það sem gengur vel í eina dýrategund drepur jafnvel aðra.
En mælir bandaríska Krabbameinsfélagið með neyslu noni plöntu eins og auglýsingin fullyrðir? Nei, þeir vara á varkáran hátt við notkun þess og sérstaklega því að reiða sig á það sem heilsubót eða lækningu.
Hefur mér kannski brugðist bogalistin í upplýsingaleit minni í þetta sinn? Finn ég bara ekki síðuna þar sem meðmælin eru? Nei ég held alveg örugglega ekki. Það er ekkert í þeirri umfangsmiklu grein sem ég fann sem bendir til þess að bandaríska Krabbameinsfélagið mæli með plöntunni, þvert á móti.
Meðal allmargra varnaðarorða er þetta:
The safety and long-term effects of noni juice and other noni products are not well known. A few cases of liver problems have been reported in people taking noni in European countries. One of these patients had previous liver damage and required a liver transplant, but the others recovered when noni was stopped.