Guðmundur segir frá.
Sund hefur verið sú íþrótt sem hefur staðið mér næst alla ævi. Allt frá því að ég fæddist þá hefur maður verið nálægt sundlaugarbakkanum. Til að byrja með fékk maður að flakka með pabba á æfingar og vera nálægt þjálfuninni svo fór maður að æfa og keppa og að lokum beint í það að þjálfa aðra. Þegar ég menntaði mig svo sem íþróttafræðing þá lagði ég mestu áhersluna á sund og tók þá nokkra aukaáfanga í kringum það. Þar lærði maður að það er hægt að gera svo miklu meira í vatni heldur en bara að synda og þannig spratt hugmyndin sem ég er að henda í gang núna.
Ég lendi svo í því að slasast mjög alvarlega í byrjun árs 2011 og í kjölfarið tók við löng endurhæfing sem fólst í styrktarþjálfun ásamt því að nota það sem ég kunni hvað best að synda. Ári síðar þá var ég kominn á nokkuð gott ról og þakka að miklu leiti þjálfuninni í vatninu.
Í janúar 2015 fer Vatnsþjálfun.is á flot. Markmið Vatnsþjálfunar er að bjóða upp á heilsurækt fyrir fólk á öllum aldri. Fyrstu skrefin verða að bjóða upp á nokkur námskeið Skriðsundsnámskeið fyrir byrjendur, lengra komna og svo fólk sem vill fá alvöru sundæfingar. Einnig verður boðið upp á Herþjálfun í vatni en það er þjálfun þar sem unnið er að hárri ákefð og unnið með allan líkamann.
Guðmundur Hafþórsson sundkappi ákvað í kjölfar þess að jafna sig af alvarlegu slysi og synda svo í samfleytt í sólarhring fyrstur íslendinga að bjóða upp á heilsurækt sem virkar. Að æfa í vatni er fyrst og fremst mjúk hreyfing þar sem lítið álag er á bein og liði og því mjög góð fyrir líkamann. Í vatnsþjálfun þá er fólk í raun statt í stórri líkamsræktarstöð og ræður álaginu. Það er markmið mitt að fólk læri að njóta þess að vera í vatninu og finna hvað þetta er góð hreyfing fyrir allan líkamann.
Ég mun einnig bjóða upp á einkatíma fyrir fólk bæði eins og námskeiðin þar sem fólk getur lært að synda sem og taka góða æfingu en einnig er í boði kennsla til að yfirstíga vatnshræðslu og endurhæfing í vatni eftir slys eða sjúkdóma.
Að yfirstíga vatnshræðslu getur verið gríðarlega erfitt og er stærra vandamál en margur grunar. Markmið kennslunar er að einstaklingur finni fyrir öryggi í vatninu og svo í kjölfarið er hægt að læra að synda.
Endurhæfing í vatni getur verið virkilega hjálpleg og oft á tíðum mikilvæg til að mynda fyrir íþróttamenn sem meiðast og vilja reyna að halda líkamlegu ástandi góðu á meðan ekki er hægt að hlaupa vegna álags á bein og liði. Það er hægt að viðhalda og jafnvel hægt að koma til baka í betra standi en áður með því að æfa í vatni 2 – 3x í viku og myndi svona kennsla því vera gríðarlega mikilvæg fyrir íþróttamann.
Eins og áður segir fer allt á fullt í janúar og því er um að gera að bóka sig á námskeiðin sem fyrst en skráning er hafin nú þegar og er hægt að sjá allt um námskeiðin inn á heimasíðunni www.vatnsþjálfun.is