Venjulegur matur, fjölbreyttur og hollur, fullnægir bæði þörfum barnsins og móðurinnar með fáeinum undantekningum.
Barnshafandi konum er til dæmis ráðlagt að taka
B-vítamínið fólat í töfluformi og gæta þess sérstaklega að borða fólatríkar matvörur þar sem fólat minnkar líkur á fósturskaða.
Eins þurfa flestar konur að taka D-vítamín aukalega. Ráðlagður dagskammtur fyrir D-vítamín fyrir barnshafandi konur er 10 míkrógrömm (400 alþjóðaeiningar). D-vítamín má fá með því að taka þorskalýsi, lýsisperlur, D-vítamín eða fjölvítamín.
Á seinni hluta meðgöngu geta þær einnig þurft að taka járn.
Leiki hins vegar grunur á að mataræðið sé ekki nógu fjölbreytt og vel samsett er sjálfsagt að taka til dæmis eina venjulega fjölvítamíntöflu á dag eða vítamíntöflur sem sérstaklega eru ætlaðar konum á meðgöngu.
Ekki á að taka meira en ráðlagðan dagskammt og þær konur sem taka lýsi þurfa að muna að velja fjölvítamín án A-vítamíns. Ástæðan er sú að A-vítamín getur hugsanlega skaðað fóstur sé þess neytt í miklu magni. Ráðlagður dagskammtur fyrir A-vítamín fyrir konur á meðgöngu er 800 míkrógrömm (2664 alþjóðaeiningar). Ufsalýsi ætti ekki að taka á meðgöngu þar sem það inniheldur of mikið af A-vítamíni.
Af vef landlæknis.