Vísindahópur við Tsukuba háskólann í Japan vildi skilgreina betur hvernig öldrun og hvatberar tengjast. Þau skoðuðu hvatbera úr fíbróblöstum úr ungum einstaklingum (0-12 ára) og bára saman við fíbróblasta úr gömlum einstaklingum (80-97 ára). Þegar öndunarkeðjur hvatberanna voru bornar saman milli hópanna kom í ljós að þær voru ekki eins skilvirkar í eldri hvatberum miðað við þá yngri, eins og búast mátti við. Hins vegar voru skemmdir/stökkbreytingar á DNA-inu ekki fleiri í gömlum hvatberum í samanburði við þá yngri, sem er ekki í samræmi við öldrunarkenninguna.
Hópurinn fór þá að skoða annars konar breytingar sem geta orðið á DNA, það eru utangena erfðir (epigenetics) en það á við um breytingar sem verða á byggingu erfðaefnisins sem leiða til breyttrar tjáningar. Utangenaerfðir hafa ekki áhrif á DNA-röðina og þar af leiðandi valda þær ekki óafturkræfum breytingum. Þegar utangenaerfðir voru skoðaðar á hvatbera DNA-inu kom í ljós að þar höfðu orðið breytingar með aldrinum sem leiddu til þess að öndunarkeðjan var óskilvirkari hjá eldri hópnum en þeim yngri.
Tvö gen höfðu breytta tjáningu sem höfðu afgerandi áhrif á öldrun hvatberanna. Bæði genin GCAT og SHMT2 eru tengd glýsín framleiðslu í frumunum, glýsín er ein af amínósýrunum sem líkaminn notar til að byggja úr prótín. Með því að kveikja aftur á tjáningu þessara gena var hægt að snúa öldrunareinkennum við og það sem meira er þá var nóg að gefa frumunum aukalega glýsín í ætið til að koma snúa öldrunareinkennum við.
Ef sambærilegar niðurstöður fengjust í víðtækari tilraun, þar sem fleiri frumugerðir eru skoðaðar eða jafnvel lifandi einstaklingar gæti niðurstaðan orðið sú að glýsín verði notað sem lyf gegn öldrun.
Er eilífðarelexírinn þá ekki flóknari en amínósýran glýsín?
Heimild:Hvatin
Tengt efni: