Tilgangurinn með þessari grein er sá að vekja athygli þína á meðferðaráætlun sem getur hjálpað þér til að breyta lífsstíl þínum. Í bæklingnum færðu yfirlit yfir efni hennar.
Til þess að geta breytt daglegum venjum þínum verðurðu að kanna þær nákvæmlega. Þá gengur þér betur að finna hvernig hægt er að breyta þeim. Settu þér minni háttar markmið – gjarnan hlutamarkmið – hvernig þú ætlar að breyta venjum þínum. Markmiðið verður að vera raunhæft og mikilvægt fyrir þig. Þú verður að leggja þig fram til að ná því. Leiðin að markmiðinu er mikilvægari en markmiðið sjálft. Þú ákveður sjálf/ur hvernig þú vilt haga framtíð þinni og stjórna líkamsþyngdinni. Oft er auðveldara að breyta venjum sínum með hópi af fólki sem á við sama vanda að stríða. Mestu máli skiptir sem sagt ÁHUGAHVATI þinn:
1. Hvaða kosti/ávinning telur þú að breyttar venjur geti fært þér?
2. Hvaða óþægindi hefur það í för með sér/hverju verðurðu að fórna?
3. Hvaða möguleika áttu/hvað getur komið í veg fyrir að þetta takist hjá þér?
4. Hefurðu nægan áhuga til að gera alvarlega tilraun?
Venjur þínar tengjast saman í atferliskeðju. Ef þú breytir einni venju leiðir það samtímis til þess að aðrar venjur breytast. Ein aðgerð leiðir til annarrar. Þegar þú rýfur mynstrið breytast aðstæður þínar og atferli – þú hugsar og hegðar þér með öðrum hætti.
Því er mikilvægt að þú gerir þér grein fyrir því sem þú gerir og hverjar venjur þínar verða. Þegar þú hefur breytt gamalli venju hefst vinna við að æfa og þjálfa nýja venju. Dæmi:
Við hvaða aðstæður er hætta á að þú hrasir þannig að þú borðir eitthvað annað en þú hafðir ráðgert? Mikilvægt er að vita hvar gildrurnar eru og hvernig þú getur forðast að falla í þær.
Hugsaðu um þau skipti þegar þú tókst ekki áhættu og hvað þú gerðir til að lenda ekki í gildrunni. Með því að skipuleggja það sem þú vilt gera geturðu ráðið við slíkar aðstæður í framtíðinni! Hvað ætlarðu að gera þegar:
Beint samband er á milli heilsunnar og þess matar sem þú neytir. Ef þú hugsar og hegðar þér með öðrum hætti varðandi hvers konar máltíðir geturðu breytt matarvenjum þínum. Þegar þú hefur náð stjórn á aðstæðunum nýturðu matarins betur.
Málið snýst um skipulagningu – hvað þú kýst að borða, hvar þú borðar (heima eða að heiman), hvenær þú borðar og hvernig þú dreifir máltíðum yfir daginn. Mikilvæg atriði eru svengd og löngun í það sem er bragðgott. Gerirðu þér grein fyrir tengslum hjá þér milli þessarar löngunar og margra aukahitaeininga? Hvernig ræðurðu fram úr slíkum aðstæðum?
Ef þú dreifir matnum og orkunni jafnt yfir daginn geturðu haft betri stjórn á því hvað, hvar, hvenær og hvernig þú borðar. Þegar þú borðar með reglulegu millibili eykst úthaldið og þér líður betur. Auk þess dregur þetta úr hættunni á skyndilegri svengdartilfinningu eða þörf fyrir eitthvað bragðgott sem ógnar áætluðu þyngdartapi og nýjum og betri venjum.
Áætlaðu það sem þú ætlar að borða og hugsaðu um hvað getur komið í veg fyrir að þú borðir morgunmat, hádegismat, kvöldmat og millimáltíðir. Láttu mataráætlunina taka til nokkurra daga og svo meturðu hvernig gengið hefur. Hvers vegna gekk þetta vel? Hvað fór úrskeiðis? Settu markmiðin hæfilega hátt!
Einfaldar aðferðir við gerð mataráætlunar hafa reynst gagnlegar og góðar til að stjórna magni og samsetningu matarins, svo og orkuinnihaldi hans. Á „matardiskinum“ sést hve mikinn hluta af diskinum hinar ýmsu tegundir eiga að fylla til þess að tryggja gott jafnvægi í matnum. Notaðu „matardiskinn“ til viðmiðunar þegar þú útbýrð matinn. Það hefur reynst vel! Aðferðin hæfir auðveldlega hvers konar máltíðum, t.d. máltíð með súpu:
Að þótt þú borðir samkvæmt því sem sýnt er á „matardiskinum “tryggir það ekki að maturinn sé fitusnauður. Þar er mælt með tilteknu hlutfalli ýmissa matartegunda en þú verður svo sjálf/ur að fylgjast með hve margar hitaeiningar eru í matnum sem þú setur á diskinn.
Matur er eitt af því sem gefur lífinu gildi og við eigum að njóta hans. Og við njótum hans betur ef við prófum nýja rétti og nýjar matreiðsluaðferðir. Prófaðu nýjar uppskriftir og gerðu hlutina með öðrum hætti en venjulega. Finndu uppskrift í matreiðslubók og áætlaðu innkaup í nýjan rétt. Hugsaðu jafnframt um það hvernig þú getur gert réttinn orkuminni en ráðlagt er í matreiðslubókinni.
Þegar þú síðan kemur fjölskyldu og vinum á óvart með nýja réttinum skaltu fylgjast með því hvernig fólk tekur honum. Hugleiddu hvernig áætluninni var hagað, hvað þú keyptir inn og hvað þú borðaðir. Var um góða hugmynd að ræða?
Það er dásamlegt að finna að líkaminn vinnur eins og hann á að gera. Mannslíkamanum er ætlað að vera á hreyfingu – hreyfðu þig meira og finndu hvaða vellíðan það veitir.
Góð aðferð til að nýta fleiri hitaeiningar er að hreyfa sig. Þá stækka vöðvarnir og fitan minnkar. Hitaeiningarnar brenna í vöðvunum.
Regluleg hreyfing dregur úr spennu, lækkar blóðþrýstinginn og stuðlar að slökun. Þér líður betur og sjálfstraustið eykst. Hve mikið hreyfir þú þig á hverjum sólarhring? Geturðu hreyft þig meira?
Settu þér ákveðið markmið sem mögulegt er að ná og sést á líkamanum. Hreyfing getur verið fólgin í heimilisstörfum, garðvinnu, hjólreiðum, sundi, leikfimi, þrekþjálfun, golfi eða hópíþróttum.
Jákvæðar og bjartar væntingar til framtíðar verða oft til þess að hlutirnir gerast með þeim hætti. Hugsaðu nokkur ár fram í tímann. Gerðu þér í hugarlund að þú hafir leyst vandamál þitt. Hvernig gerðist það? Hvaða breytingar voru mikilvægar? Hver eða hverjir hjálpuðu þér af stað og fyrir hvað ætlarðu að þakka þeim?
Mikilvægt er að líta bæði til fortíðar og framtíðar. Hvaða áætlanir hefurðu um framtíðina?
Það sem er þess virði að hugsa um daglega:
Hve mörgum klukkustundum verðu til að:
Hugleiddu það og skrifaðu svörin þín niður á blað!
Þessi grein er unnin upp úr bæklingnum ,,Að breyta venjum sínum”, sem unnin var af Pharmanor hf. í samvinnu við Abbott Laboratories.
Jórunn Frímannsdóttir, hjúkrunarfræðingur
Af vef doktor.is