Í upphafi er mikilvægt að gera sér grein fyrir af hverju maður vill hætta að reykja eða nota tóbak. Hver er ávinningurinn? Hverjir eru kostirnir við að hætta að reykja og svo hverjir eru kostirnir við að reykja! Þetta hjálpar þér að gera þér grein fyrir hversu mikið þú vilt hætta. Því það sem skiptir mestu máli í þessu sambandi er trúin á eigin getu. Þú þarft að trúa því að þér takist að hætta! Og trúðu því, þér tekst þetta að lokum.
Og ávinningurinn er FRELSI… minni hætta á að fá fjölda sjúkdóma… betra heilsufar… betri líðan og að sjálfsögðu tækifæri til að gera eitthvað annað við peningana þína!
Þegar fólk hættir að reykja eða nota tóbak er það að takast á við tvennt, annars vegar vanann og hins vegar líkamlegan ávana. Hugurinn tengir ákveðnar athafnir eða aðstæður við reykingar og þessar tengingar þarf að rjúfa. Og það getur þú gert, ef þú ert meðvitaður um það.
Ýmis konar einkenni geta gert vart við sig þegar líkaminn hættir að fá nikótínið sitt. Það er mjög einstaklingsbundið hversu mikil einkenni koma fram í reykbindindi.
Það er kannski svolítið ógnvekjandi að lesa langa upptalningu fráhvarfseinkenna og óþæginda sem fólk getur vænst þegar það hættir að reykja. Því er rétt að taka fram að margir þeirra sem hætta að reykja finna fyrir litlum sem engum fráhvarfseinkennum, en það hjálpar að vita á hverju þú getur átt von og ekki síst að þekkja úrræði við þeim óþægindum sem geta komið.
Fólk getur fengið löngunarkviður lengi eftir að reykingum er hætt, en fráhvarfseinkenni ganga oftast yfir á um mánuði.
Algengt er að þeir sem hætta að reykja finna fyrir kvíða, eirðarleysi og pirringi. Skapsveiflur, skortur á einbeitingu og svefnerfiðleikar eru líka algeng. Vegna breytinga á vökvabúskap og hægari þarmahreyfinga eftir að reykingum er hætt gerir hægðatregða oft vart við sig. Þreyta, syfja og depurð eru líka vel þekkt fráhvarfseinkenni. Einstaka fá svitaköst og svima. Að lokum er rétt að nefna það sem veldur mörgum áhyggjum og það er þyngdaraukning.
Rétt er að ítreka að sumir sleppa við öll óþægindi, en fyrir þá sem fá einhver þessara einkenna er gott að þekkja úrræði við þeim. Þau eru flest einföld, almenn og auðframkvæmanleg. Efst á blaði er aukin hreyfing, t.d hafa gönguferð, sund eða önnur líkamrækt mjög góð áhrif. Fólk þarf að læra að takast á við tilfinningar sínar og streitu án þess að reykja. Með hreyfingu vinnum við á streitunni, aukum brennslu og bætum líkamlega og andlega líðan. Hreyfingin bætir bæði lundina, einbeitinguna og svefninn, einnig örvar hún þarmahreyfingar sem verða hægari þegar hætt er að reykja. Annað afar mikilvægt atriði er að drekka vel af vatni og borða reglulega hollan og góðan mat. Með því að borða reglulega forðumst við mikla lækkun blóðsykurs sem getur aukið á löngun í nikótín. Það minnkar líka líkurnar á narti sem fólk sækir í þegar það hefur ekki lengur sígarettuna til að stinga upp í sig. Það getur verið gott að eiga niðurbrytjað grænmeti sem millibita, en forðast sælgæti.
Á fyrstu vikum og mánuðum reybindindis er rétt að fara varlega í neyslu áfengis og helst að sleppa því alveg. Það er ekki óalgengt að fólk falli á reykbindindi þegar það fær sér í glas. Þar kemur tvennt til, dómgreindin slæfist og neysla áfengis og tóbaks er mjög tengd hjá mörgum.
Að lokum er rétt að benda á að gott er að viða að sér fróðleik um það að hætta að reykja. Það getur líka verið gott að fá ráð hjá þeim sem eru hættir að reykja og geta miðlað af eigin reynslu.
Mundu bara eftir því að þetta MUN allt ganga yfir. Það er staðreynd! Líkaminn þarf bara að venjast því að vera án tóbaksins.
Ef einhverjar spurningar vakna eða ef þú vilt fá frekari stuðning og ráðgjöf þá er þér velkomið að hafa samband við okkur í simaþjónustunni Ráðgjöf í reykbindindi – 8006030. Gangi þér vel!
Dagbjört Bjarnadóttir
Guðrún Árný Guðmundsdóttir
Hjúkrunarfræðingar og ráðgjafar i reykbindindi
Af vef doktor.is