Ekki er vitað með fullri vissu hvað veldur æðasliti og æðahnútum en ýmsir áhrifaþættir eru þekktir. Æðaslit er algengara hjá fólki sem komið er yfir miðjan aldur og einnig hafa erfðir sitt að segja. Meðganga og annað sem breytir hormónajafnvægi líkamans eru algengir orsakaþættir, svo og ofþyngd og störf sem krefjast mikillar kyrrstöðu eða kyrrsetu. Enn fremur er vitað að notkun sumra lyfja, til dæmis getnaðarvarnarlyfja, getur aukið líkur á æðasliti. Það er lítið sem hægt er að gera í sambandi við aldur og erfðir en ef hægt er að fjarlægja eða forðast aðra þætti sem gætu verið orsök hverfa æðaslit oft af sjálfu sér. Til dæmis hverfur æðaslit sem kemur á meðgöngu oft á nokkrum mánuðum eftir fæðingu, enda stafar það af auknu blóðmagni á meðgöngu sem jafnar sig aftur að henni lokinni. Sumt fólk með ljósa húð fær æðaslit á nefi eða kinnum ef það er úti í sól.
Æðaslit er yfirleitt ekki alvarlegt heilsuvandamál, það er helst að það geti valdið óþægindum ef staðið er lengi í sömu sporum og blætt getur úr því. Æðaslit getur þó gefið til kynna kvilla í bláæðakerfi líkamans, sem er þá ekki að sinna starfi sínu sem skyldi og gæti það til dæmis leitt til myndunar blóðtappa. Æðaslit þarf yfirleitt ekki að meðhöndla vegna líkamlegrar heilsu heldur er meðferð frekar fagurfræðilegs eðlis. Helstu meðferðarúrræði eru leysigeislun og innspýting hersluefna í æðarnar (e. sclerotherapy). Seinni aðferðin felur í sér að efni er sprautað í æðarnar, veggir þeirra límast saman og blóðið í þeim storknar. Æðarnar verða að lokum að örvef sem hverfur smám saman.
Þessi grein er eftir Þuríði Þorbjarnardóttur, líffræðing og birtist á vísindavef Háskóla Íslands.
Grein birt með leyfi af vef doktor.is