Óhollt mataræði, reykingar, ofnotkun á áfengi og hreyfingarleysi eru taldir vera helstu áhættuþættirnir fyrir ósmitbæra sjúkdóma (noncommunicable diseases) og hver og einn af þessum áhættuþáttum hafa áhrif á háan blóðþrýsting og offitu sem einnig lenda ofarlega á listanum yfir áhættuþætti.1 Ef litið er til hreyfingarleysis eingöngu hefur þróunin verið hröð. Frá því að vera ekki á lista yfir 20 algengustu áhættuþætti árið 1990, er hreyfingarleysi orðið fimmti mikilvægasti áhættuþátturinn í Vestur-Evrópu og talinn valda um 3,2 milljónum ótímabærra dauðsfalla ár hvert.1 Það er ekki lengur spurning um hvort heldur hvernig við eigum að vinna að þessum málum.
Staða mála hvað varðar mikilvægi hreyfingar er í raun og veru „einföld“ en á svo margan hátt erfið viðfangs. Einföld því að við þurfum ekki meiri rannsóknir til að staðfesta að hreyfing er mikilvæg fyrir heilsuna.2 Við vitum nú að ákveðið magn af hreyfingu er nauðsynlegt til að viðhalda eðlilegri starfsemi flestra líffærakerfa líkamans, svo ekki sé talað um stoðkerfi líkamans.3 Sú minnkun á daglegri hreyfingu sem átt hefur sér stað síðustu áratugi er þannig farin að hafa áhrif á eðlilega starfsemi líkamans.
Það eru allir sammála um að heilsuefling og forvörn sé mikilvæg. Það sem tekið hefur lengri tíma að gera sér grein fyrir er mikilvægi hreyfingar sem meðferðarúrræðis í heilbrigðiskerfinu og það er hér sem sameiginlegir kraftar eru nauðsynlegir.
Læknar og aðrar heilbrigðisstéttir hafa alla tíð vitað að hreyfing er góð fyrir heilsuna og gefið almenn ráð um hreyfingu og hollustu. En núna er öldin önnur. Einstaklingum með sjúkdóma þar sem hreyfingarleysið er hluti af vandamálinu hefur fjölgað verulega. Hreyfing ein og sér eða sem hluti af meðferð hefur í þessum tilvikum bein áhrif á bæði einkenni og þróun sjúkdómsins. Þetta á fyrst og fremst við svokallaða lýðsjúkdóma: hjarta- og æðasjúkdóma, sykursýki, verki og vefjagigt, offitu og vægt þunglyndi. Ávísun á ákveðið magn af hreyfingu getur líka skipt sköpum fyrir aðra sjúklingahópa eins og til dæmis krabbameinssjúklinga en þá af öðrum ástæðum, til dæmis vegna áhrifa á lífsgæði, minni þreytu samhliða krabbameinsmeðferð og/eða sem annars stigs forvörn.
Hér kemur aðferðafræðin inn sem mikilvægur þáttur eins og með öll önnur meðferðarúrræði innan heilbrigðiskerfisins. Það er stór munur á almennu ráði og ávísun á hreyfingu eða hreyfi-seðli. Um er að ræða ávísun á það magn og tegund hreyfingar sem vísindalega hefur verið sýnt fram á að hafi áhrif á þau einkenni og/eða þróun sjúkdómsins í hverju tilfelli. Í þessu sambandi getur íslenska heilbrigðiskerfið notað þá gífurlegu vinnu sem unnin hefur verið af sérfræðingum í Svíþjóð og Noregi, sem sameiginlega hafa gefið út handbókina Fysisk aktivitet i sjukdomsprevention och sjukdomsbehandling (FYSS). Handbókin er bæði notuð í Svíþjóð og Noregi og er ætluð sem stuðningur við heilbrigðiskerfið, að ávísa réttri tegund og magni af hreyfingu. FYSS 2015 kom nýlega út og fleiri kaflar bætast við árið 2016 (fyss.se). Það er einnig stór munur á ávísun á hreyfingu og almennu ráði um hreyfingu hvað varðar meðferðarfylgni. Fylgni þess að sjúklingar fylgi almennu eða einföldu ráði um hreyfingu er lág, um 10-15%.
Ávísun á hreyfingu (Fysisk aktivitet på recept (FaR)) sýnir fram á góða meðferðarfylgni (60-70%) og sú aðferð sem nú hefur verið innleidd í íslensku heilbrigðiskerfi er þróuð út frá þessari aðferð.
Við stöndum á tímamótum í þessum málum. Stöndum saman í að vinna að því verkefni sem nú er fyrir höndum, áframhaldandi þróun og innleiðingu á hreyfingu sem meðferðarúrræði í íslensku heilbrigðiskerfi. Við megum í raun engan tíma missa þar sem tíðni sjúkdóma þar sem hreyfingin gæti skipt sköpum eykst hratt. Ávísun á hreyfingu innan heilbrigðiskerfisins hér í Svíþjóð er úrræði sem tekið hefur langan tíma að byggja upp og hefur tekist misvel eftir svæðum. Ég tel að minna samfélag eins og Ísland hafi alla möguleika á að byggja markvisst upp gott ferli hvað varðar ávísun á hreyfingu innan heilbrigðiskerfisins.
Þetta meðferðarúrræði krefst þess að sjúklingarnir fái góðar upplýsingar um áhrifin. Með aukinni kunnáttu og „markaðsetningu“ gæti sá dagur komið að sjúklingarnir krefjist þess að fá ávísun á hreyfingu, einfaldlega vegna þessa að úrræðið hefur áhrif á einkenni og líðan sjúklingsins.
Ingibjörg H. Jónsdóttir prófessor í hreyfingu og heilsu við Gautaborgarháskóla og forstöðumaður „Institutet för Stressmedicin" í Gautaborg
Grein af vef laeknabladid.is