Þessi immúnóglóbúlín E hafa þann sérstaka eiginleika að festa sig við frumur sem heita mastfrumur og er að finna víðs vegar rétt undir slímhúðum líkamans. Mastfrumurnar eru nokkurs konar forðabúr þeirra efna sem beinlínis valda ofnæmiseinkennum, svo sem nefrennsli, þrengingu loftvega (til dæmis í asma), útbrotum og fleira. Þegar sá sem hefur ofnæmi til dæmis fyrir frjókornum andar þeim að sér losna efni úr þeim og síast mjög fljótt að mastfrumunum þar sem immúnóglóbúlín E situr í viðbragðsstöðu og skilar þeim boðum til mastfrumunnar að losa innihald sitt. Þetta tekur um það bil 20 mínútur.
Oftast eru viðbrögðin fremur hvimleið en beinlínis hættuleg en þó getur hættuástand komið upp, til dæmis við ofnæmi fyrir býflugnastungum eða lyfjum. Þá getur orðið mjög víðtæk svörun sem lýsir sér með skyndilegri víkkun æða og lífshættulegu blóðþrýstingsfalli. Þess má geta að immúnóglóbúlín E gegnir reyndar mikilvægu og gagnlegu hlutverki í ónæmi gegn sníkjudýrum.
Í langdregnu ofnæmi er oftast um að ræða svörun annars hluta ónæmiskerfisins, svokallaðra T-eitilfrumna. Þær gefa ekki frá sér mótefni en framleiða ýmis efni sem valda bólgueinkennum. Þess háttar ofnæmi er algengt til dæmis gegn málmum, þegar fólk fær bólguskellur og útbrot undan skartgripum og þess háttar. Aftur þarf undanfarinn að vera næming, það er að segja að fólk hefur aldrei ofnæmi fyrir einhverju sem það hefur aldrei komist í snertingu við. Þarna gildir það sem almennt á við um sérhæfa ónæmiskerfið að fyrst verður næming en síðan hefur kerfið minni sem getur enst ævilangt.
Það er nokkuð ljóst að tilhneigingin til að fá ofnæmi getur verið ættlæg. Greinilega er um að ræða einhvers konar stillingu eða uppeldi á ónæmiskerfinu. Sumt fólk hefur meiri tilhneigingu til að ræsa þær frumur sem framleiða mótefni, hjá öðrum ræsast frekar T-eitilfrumur sem valda bólgueinkennum. Þessi munur getur til dæmis komið fram í mismunandi sjúkdómsmynd þótt sýkillinn sé sá sami og má þar nefna ólík birtingarform holdsveiki. Loks er töluvert talað um að umhverfið geti haft áhrif á ofnæmistilhneigingu. Ungbörnum er hollast að fá móðurmjólk, eins og allir vita, og ofnæmisviðbrögð eru tíðari hjá börnum sem fá snemma kúamjólkurafurðir.
Því hefur nokkuð verið haldið fram að ofnæmissjúkdómar séu að verða æ algengari á Vesturlöndum. Þetta er alls ekki fullkannað, en gæti tengst auknu hreinlæti og sýklalyfjanotkun, þannig að ónæmiskerfið fái ekki þá örvun til margs konar viðbragða í bernsku sem nauðsynleg eru til að koma upp fjölbreyttu og góðu minni fyrir framleiðslu á öðrum immúnóglóbúlínum en E-flokki.
Ég mæli með að þið kíkið á Vísindavefinn, HÉR og lesið ykkur til um ofnæmi.