Meðferð krabbameins ræðst af því hverrar tegundar það er og á hvaða stigi það greinist. Að jafnaði eru batahorfur eða lífslíkur sjúklings bestar ef meinið finnst snemma, annað hvort sem setkrabbamein (í brjósti einungis inni í mjólkurgangi) eða á fyrsta stigi með staðbundinn vöxt í aðlæga vefi. Hafi meinið hins vegar náð að dreifa sér til annarra líffæra eru horfurnar ekki eins góðar. Einmitt þetta er meginforsenda almennrar hópleitar, að brjóstakrabbameini hjá einkennalausum konum. Leit að brjóstakrabbameini beinist fyrst og fremst að því að greina sjúkdóminn meðan hann er enn staðbundinn og viðráðanlegur, hvort sem meinið er áþreifanlegt eða ekki (á hulinstigi).
Forstig að krabbameini eru frumubreytingar sem teljast ekki illkynja en benda til að mikil hætta sé á að það myndist ef ekkert er að gert. Ekki er enn til nein einföld og örugg aðferð til að finna forstig að öðru krabbameini en í leghálsi. Forstig brjóstakrabbameins greinast þó einstaka sinnum við röntgenmyndatöku af brjóstum.
Oft er unnt að finna brjóstakrabbamein á fyrsta stigi með því að skoða brjóstin. Það geta konur gert sjálfar. Reglubundin og vandleg skoðun ætti að minnka hættu á að greining brjóstakrabbameins dragist uns í óefni er komið, þótt hún geti engan veginn komið í stað leitar með brjóstamyndatöku. Mælt er með að allar konur læri sjálfskoðun brjósta og stundi hana reglulega frá 25 ára aldri. Best er að þreifa brjóstin einu sinni í mánuði, um viku til tíu dögum eftir að tíðablæðingar hefjast. Eftir tíðahvörf er best að þreifa brjóstin á svipuðum tíma í hverjum mánuði. Í tengslum við hópleitina er konum nú boðið að sjá íslenskt myndband um sjálfskoðun brjósta. Finni kona einhverja breytingu í brjóstum er mikilvægt að leita læknis. Sé konan á frjósemisskeiði og breytingin óljós má þó bíða fram yfir næstu blæðingar, til þess að athuga hvort einkennin hverfi.
Skipuleg leit að brjóstakrabbameini fer fram með röntgenmyndatöku hjá konum 40-69 ára. Hjá konum á öllum aldri eru brjóstin þreifuð hafi þær sjálfar fundið eitthvað óeðlilegt við þau.
Mjög oft er unnt að sjá brjóstakrabbamein á röntgenmyndum áður en það verður áþreifanlegt. Erlendis hefur verið sýnt fram á að við hópleit með myndatöku fækkar dauðsföllum meðal kvenna sem greinast með sjúkdóminn eftir tíðahvörf. Með tilliti til þessa var í nóvember 1987 farið að bjóða 40-69 ára konum á Íslandi brjóstamyndatöku á tveggja ára fresti. Almenn læknisskoðun brjósta (aðallega þreifing) hjá einkennalausum konum hefur jafnframt verið felld niður. Í staðinn er lögð meiri áhersla á að hvetja konur til sjálfskoðunar, og að biðja um læknisskoðun hafi þær fundið einhverja breytingu í brjósti.
Brjóstamyndir eru teknar með þeim hætti að hægt er að greina minnstu atriði eða breytingar, allt niður í brot úr millimetra. Plastplata með ávölum brúnum heldur brjóstinu föstu meðan mynd er tekin, en myndgæði og greiningaröryggi eru mjög háð því að unnt sé að þrýsta brjóstinu vel saman. Veldur það yfirleitt litlum óþægindum nema brjóst séu þrútin eða aum fyrir, en þá er pressan höfð minni en ella. Konur á frjósemisskeiði með eymsli í brjóstum ættu að reyna að koma í myndatöku viku til tíu dögum eftir að tíðablæðingar hófust, en þá eru brjóstin yfirleitt mýkst.
Við hópleit eru oftast teknar tvær myndir af hvoru brjósti. Geislaskammtur er svo lítill að krabbameinshætta vegna geislunar er talin hverfandi. Þó þykir almennt rétt að beita myndatöku af meiri varkárni við konur innan við þrítugt, enda er rannsóknin ekki eins næm hjá ungum konum og hinum eldri. Af þeirri ástæðu, og með tilliti til þess að sjúkdómurinn er sjaldgæfur hjá konum undir fertugu, eru þær ekki boðaðar til hópleitar með brjóstamyndatöku.
Sjáist atriði á hópleitarmyndum sem krefjast athugunar er konan endurkölluð til frekari myndatöku og læknisskoðunar. Stundum reynist aðeins um eins konar sjónhverfingar að ræða, sem hverfa á viðbótarmyndum. Að öðrum kosti þarf fleiri rannsóknir, ómskoðun eða fínnálarástungu, sem eru þá yfirleitt gerðar strax. Einstaka sinnum verður að lokum að grípa til skurðsýnistöku til a&e th; fá örugga greiningu. Stundum er eftirlitsmyndataka eftir nokkra mánuði látin nægja, ef grunur um krabbamein er hverfandi lítill.
Brjóstamyndataka gerð að beiðni læknis, vegna einkenna sem hann hefur fundið við skoðun, er kölluð „klínísk“ brjóstamyndataka til aðgreiningar frá myndatöku hjá einkennalausum konum við hópleit. Þá eru teknar tvær eða þrjár myndir af hvoru brjósti, og viðbótarmyndir er þörf krefur. Rannsóknin leiðir oft í ljós hvort breytingar þær sem læknirinn fann eru góðkynja eða illkynja. Oftast er unnt að meta betur stærð og útbreiðslu illkynja hnúts, og stundum sjást einnig aðrir litlir hnútar eða atriði sem hafa ekki fundist við þreifingu. Brjóstamyndataka er þó ekki alveg örugg fremur en aðrar rannsóknaraðferðir, t.d. kemur fyrir að áþreifanlegt krabbamein sjáist illa eða alls ekki í þéttum kirtilvef. Þá er greiningu haldið áfram með öðrum aðferðum, oftast í beinu framhaldi af myndatöku.
Á undanförnum árum hefur rannsókn brjósta með ómskoðun, rutt sér til rúms, ekki sem hópleitaraðferð heldur einkum sem viðbótarrannsókn við læknisskoðun og röntgenmyndatöku, og í stað slíkrar myndatöku hjá ungum konum. Rannsóknin, sem er óþæginda- og hættulaus, greinir oftast saklaus belgmein (vökvablöðrur) frá vefjahnútum, þannig að fínnálarástungum vegna belgmeina fækkar verulega. Ómskoðun leiðir stundum í ljós hnúta sem hafa ekki sést í þéttum vef á röntgenmyndum. Einnig er oftast unnt að stinga á óáþreifanlegum hnútum með hjálp ómskoðunar, sem er fljótlegra en í röntgentæki. Síðarnefnda aðferðin er þó nauðsynleg ef hnúturinn sést ekki við ómskoðun, svo og við önnur atriði sem sést hafa á myndum.
Við greiningu brjóstakrabbameins er iðulega stuðst við töku stungusýnis, fínnálarástungu. Sogaður er út vökvi með frumum og þær skoðaðar í smásjá. Ef hnútur finnst vel er ástungan oftast gerð með þreifingu, en að öðrum kosti er ómsjá eða röntgentæki notað til hjálpar. Ekki er deyft, enda er sársauki sjaldan meiri en við venjulega blóðsýnistöku.
Með því að mynda brjóstin, ómskoða og taka stungusýni er oftast hægt að greina góðkynja breytingu frá krabbameini. Fáist ekki óyggjandi svar með þessum aðferðum er oftast gripið til lítillar skurðaðgerðar, skurðsýnistöku, til vefjagreiningar. Slíkar aðgerðir eru í höndum skurðlækna á sjúkrahúsum eða læknastofum.
Í brjóstakrabbameinsleit með röntgenmyndatöku hérlendis finnst um helmingur illkynja æxla á hulinstigi, þ.e.a.s. þau eru ekki áþreifanleg, og um fimmtungur allra eru setkrabbamein. Telst það allgott miðað við hve margar konur fara óreglulega í myndatöku (með of löngu millibili) og lofar góðu um að takast megi að lækka dánartíðni af völdum sjúkdómsins. Til að ná fullum árangri þurfa þó allar konur að sinna brjóstakrabbameinsleit reglulega og stunda sjálfskoðun brjósta þess á milli. En þótt myndataka af brjóstum sé næm rannsóknaraðferð greinast ekki öll krabbamein með henni. Finni kona sjálf grunsamlega breytingu í brjósti, sem hverfur ekki eftir blæðingar, ætti hún því að leita læknis, hversu stutt sem um er liðið frá síðustu myndatöku.
Unnið upp úr fræðsluriti Krabbameinsfélagsins. Krabb.is
Grein af vef doktor.is