Þann 16. október ár hvert er Alþjóðlegur dagur fæðunnar haldinn víðsvegar um heiminn fyrir tilstilli Matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna (FAO). Markmiðið með deginum er að vekja athygli umheimsins á hungri í heiminum og landbúnaðarframleiðslu, og að auka samvinnu og tækniþróun í vanþróuðum löndum og samfélögum. Dagurinn hefur verið haldinn á hverju ári síðastliðin 68 ár og hvert ár er valið sérstakt þema. Í ár er það „Sjálfbær fæðukerfi fyrir fæðuöryggi og næringu“.
Sjálfbær fæðukerfi fyrir fæðuöryggi og næringu
Það ekki skrítið að þetta þema verði fyrir valinu því mikil og alvarleg umræða er um það hvernig brauðfæða eigi í framtíðinni allan þann fjölda fólks sem byggir jörðina okkar. Sér í lagi þegar litið er til þess hversu gríðarlegur fjöldi jarðarbúa er nú þegar vannærður en talið er að um 2 milljarða manns skorti þau fjörefni sem nauðsynleg eru fyrir heilsu og heilbrigði og um 170 milljónir barna yngri en 5 ára nái aldrei fullum andlegum og líkamlegum þroska vegna skorts á næringu. Þau byrja nú reyndar flest lífshlaup sitt undir eðlilegri fæðingarþyngd og undirnærð þar sem mæður þeirra fengu ekki fullnægjandi næringu á meðgöngunni. Við tekur svo brjóstagjöfin þar sem lítil næring er afgangs fyrir móðurina sem leitt getur af sér veikindi og jafnvel dauða hennar sem þýðir fleiri munaðarlaus börn. Þetta er því mikill vítahringur sem erfitt er að brjóta og snúa til betri vegar.
Snúa þarf þróuninni við
Kostnaður heimsins vegna vannæringar og afleiðinga hennar er gríðarlegur og skilar sér illa. Hugsa sér ef að hægt væri að nota þann kostnað á öfugan máta ef svo má segja, það er að fyrirbyggja vannæringu með uppbyggingu á sjálfbærum landbúnaði í vanþróuðum löndum. Til að mynda eins og gert er í einhverju mæli nú með því að leggja til bústofn og hráefni til kornræktar og ræktunar á matjurtum í stað þess að senda þeim kornið, mjölið og maísinn. Sem betur fer er þessi leið farin á einhverjum stöðum til að mynda í gegnum Hjálparstofnun kirkjunnar undir heitinu Gjöf sem gefur. Við eigum þó langt í land þar.
Fæðukerfi !
Þegar talað er um fæðukerfi er átt við þá heild sem er sköpuð úr umhverfinu og náttúrulegum auðlindum þess, fólkinu og metnaði þess og stofnunum og heiðarleika þeirra. Einnig ferlunum öllum sem koma að því að framleiða, uppskera, flytja og selja matvælin eða vöruna og koma henni á markað og í hendur neytenda. Það segir sig sjálft að til þess að varan, í þessu tilfelli matvælið, sé sem næringarríkast og af sem mestum gæðum þegar það kemur til neytandans þarf hver liður í fæðukerfinu að vera sterkur og heill.
Umhverfismál
Umhverfismál og áhrif iðnaðar og landbúnaðar eru ofarlega á baugi og hafa verið um árabil þar sem bæði hafa ýmiskonar áhrif á jörðina og vistkerfi hennar. Landbúnaður eykur til að mynda landskort, niðurbrot og skort á ferskvatni. Hefur áhrif á líffræðilegan fjölbreytileika, ýtir undir eyðingu skóga og mengun tengda eitri og áburði svo ekki sé minnst á hnattræna hlýnun. Landbúnaður hefur einnig áhrif á fiskistofna og vistkerfi hafsins á ýmsan hátt.
Sjálfbærni – tískuorð ?
Orðið sjálfbærni er það orð sem við erum farin að heyra oftar og oftar. Sjálfsagt hefðum við mátt finna upp og tileinka okkur þetta orð mun fyrr og farið að vinna eftir boðskap þess miklu fyrr, en lítið stoðar að fást um það sem liðið er. Þó má nefna að um 60% af vistkerfum heimsins eru í dag nýtt á ósjálfbæran máta sem er háalvarlegt mál og betur má ef duga skal ef við ætlum að trygga afkomendum okkar það sem forfeður okkar forfeðra lögðu upp í hendurnar á þeim fyrir nokkrum áratugum síðan. Vistkerfi sem við höfum í höndunum í dag, í mjög breyttri mynd. Málið snýst um það að fá sem mest af næringarríkri fæðu út úr hverju grammi af mold, vatni og áburði, hverju handtaki og hverri vinnustund. Þetta þurfum við að hugsa fyrir komandi kynslóðir og okkar afkomendur.
„Fókus“ neytenda – okkar allra
Neytendur þurfa einnig að verða hagsýnni og nýta fæðuna betur, fæða er auðlind sem við megum ekki kasta á glæ. Það er sorglegt að hugsa til alls þess matar sem áætlað er að hent sé dagsdaglega vitandi það hversu margir fá ekki nóg til að draga fram lífið og næra börnin sín og koma þeim til manns. Þetta snýst mikið um skipulag og að áætla hvað þarf að elda mikið fyrir heimilið eða vinnustaðinn.
Hverjar verða kröfur til vísindamanna framtíðarinnar
Í framtíðinni verður örugglega gerð sú krafa til þeirra vísindamanna sem setja fram mataræðis- og næringarráðleggingar að þeir hafi í huga úr hvaða næringartengdu auðlindum við höfum úr að velja. Getum við ávalt leyft okkur þann lúxus, að geta ráðlagt neyslu á sjávarfangi að minnsta kosti 2-3 sinnum í viku fyrir alla svo eitt augljóst dæmi sé tekið.
Frábrugðið, en samt ekki. Ýmiskonar lífstíls mataræði til að mynda Paleó fæðið eða Steinaldarmataræðið. Það byggir á töluvert dýru hráefni sem er líklega nokkuð „krefjandi“ fyrir jörðin að framleiða í miklum mæli, ólíklegt er að allir jarðarbúar gætu verið á þessu fæði. Líklega er það þó það eina neikvæða við þetta mataræði.
Til umhugsunar
Ættum við Íslendingar sem þjóð ekki að taka okkur tak við að hugsa meira um sjálfbærni. Væri ekki jákvætt að setja upp fleiri gróðurhús þar sem rækta mætti grænmeti allan ársins hring. Það yrði einnig hagstætt fyrir efnahaginn. Væri ekki betra að nýta okkar ódýru raforku í að lýsa upp vingjarnleg gróðurhús þar sem grænmeti og kornmeti, jafnvel ávextir og ber er ræktað árið um kring.
Gull á silfurfati
Þær náttúrutengdu auðlindir sem okkur hafa verið færðar á silfurfati eru dýrmætar. Við verðum að vera fljót að hugsa upp leiðir til að nýta þessar auðlindir betur og framkvæma hugmyndir okkar og leiðir hratt og örugglega. Við verðum að bera meiri virðingu fyrir auðlindunum okkar og ganga betur um þær en verið hefur því við erum öll meðvituð um að engin auðlind er eilíf af sjálfu sér.
Fríða Rún Þórðardóttir, Næringarfræðingur, næringarráðgjafi, íþróttanæringarfræðingur