Þeir sem þjást af áráttu- og þráhyggjuröskun eru hins vegar helteknir af slíkum ótta og hann hefur stöðugt áhrif á líf þeirra. Þeir þurfa að kanna hvort ljósin séu slökkt mörgum sinnum á kvöldi eða þvo sér um hendur 100 sinnum á dag, eftir hverja snertingu við fólk eða hluti. Þráhyggjan veldur því að sömu hugsanir leita aftur og aftur upp í hugann, valda óþægindum, kvíða, sektarkennd eða jafnvel skömm. Áráttan er svo þörf til að gera eitthvað aftur og aftur, stundum til að létta á þráhyggjutilfinningunni.
Ástæður þess að menn veikjast eru ekki kunnar þó að tilhneiging til erfðafylgni hafi komið í ljós. Áráttu- og þráhyggjuröskun kann m.a. að stafa af skorti á boðefnum í heilanum, aðallega serótóníni. Hins vegar skipta umhverfisþættir líka miklu máli.
Um tvenns konar meðferð er að ræða, lyfjameðferð og samtalsmeðferð.
Meðal lyfja sem gefið hafa góða raun gegn þessari röskun er ákveðin gerð þunglyndislyfja.
Hugræn atferlismeðferð hefur gefið góða raun gegn áráttu- og þráhyggjuröskun. Þetta er ekki sálgreining þar sem orsaka er leitað í fortíð heldur reyna menn að skilja hegðun sína með því að kanna hugsanir, viðbrögð og atferli. Þetta er t.d. gert með því að skrifa þessar ósjálfráðu hugsanir niður og átta sig á þeim.
Heimild: doktor.is