Áreynsluastma þekkja flestir astmasjúklingar. Astmaeinkenni koma oft í ljós innan nokkurra mínútna eftir að þú reynir á þig líkamlega. Slík einkenni geta verið býsna kröftug.
Ekki er vitað nákvæmlega hvað veldur áreynsluastma. Vitað er að áreynsla í köldu lofti veldur oft meiri einkennum en áreynsla í hlýju og röku lofti. Sund er t.d. góð hreyfing fyrir flesta astmasjúklinga og veldur sjaldan áreynsluastma. Nokkrir astmasjúklingar með ofnæmi eiga þó erfitt með að þola klórinn í sundlaugum.
Með hjálp þeirra astmalyfja sem nú bjóðast geta langflestir astmasjúklingar tekið þátt í íþróttum og öðrum líkamlega krefjandi störfum rétt eins og annað fólk. Áríðandi er að taka berkjuvíkkandi, innönduð lyf nokkrum mínútum áður en áreynsla hefst og þá geta lyfin verndað gegn áreynsluastma í nokkrar klukkustundir. Núorðið fást lyf sem geta veitt vernd gegn áreynsluastma í allt að 12 klst.
Margir astmasjúklingar stunda íþróttir af kappi, jafnvel sem keppnisíþróttir. Það á að heyra sögunni til að astmaveik börn geti ekki tekið þátt í leikjum annarra barna eða megi ekki vera í leikfimi eða íþróttum. Nokkrar grunnreglur þarf þó að hafa í huga varðandi áreynslu, einkum hvað varðar astmaveikt fólk:
Hæg og róleg upphitun í a.m.k. 10-15 mínútur skiptir meginmáli fyrir fólk með áreynsluastma. Snögg áreynsla er óheppileg. Ef byrjað er með of miklum látum er mjög hætt við einkennum.
Stuttar skorpur með hvíld á milli.
Íþróttir sem ekki krefjast langvarandi áreynslu eru heppilegastar. Áreynsla, jafnvel mikil áreynsla í stuttan tíma og síðan rólegri tímabil inn á milli er heppilegra form. Þannig má forðast að einkennin komi fram. Ekki keyra sig alveg út. Góð þumalfingursregla er að við áreynslu fari púlsinn ekki yfir 180 slög mínus aldur viðkomandi. Þrítug manneskja með áreynsluastma ætti því að forðast að fara yfir 150 í púls við áreynslu. 10 ára barn má fara uppí 170 slög. Fari fólk yfir þessi mörk er hættara við einkennum.
Ræddu við lækninn þinn um hvaða lyf kunni að koma að bestu gagni stundir þú mikla hreyfingu eða íþróttir. Flest algengustu, innönduðu astmalyfin sem eru á markaði hér á landi eru leyfileg til notkunar í keppnisíþróttum. Keppir þú í íþróttum og notir astmalyf, getur þú þurft að framvísa læknisvottorði um að þú þurfir að nota viðkomandi innöndunarlyf, og tilkynna mótshaldara um lyfjanotkunina.
Frekari upplýsingar um hvaða lyf er óleyfilegt að nota í tengslum við æfingar eða keppni í íþróttum og reglur um lyfjaeftirlit í íþróttum er að finna á vefsíðum Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands.
Birt með góðfúslegu leyfi Astma- og ofnæmisfélag Íslands