Síðastliðið ár hef ég verið búsett í fámennu bæjarfélagi þar sem ég hef aðgang að tveimur matvöruverslunum í nærumhverfinu. Þær eru ekki mjög frábrugðnar öðrum matvöruverslunum, nema kannski helst að því leyti að úrval af ferskvöru er heldur lítið.
Eins get ég ómögulega lagt á minnið ferðaáætlun vörubíla sem flytja ferskvörur í búðirnar. Mér skilst þó að þeir sem hafa verið búsettir hér lengi séu með það alveg á hreinu á hvaða dögum eigi að versla og hvenær megi búast við því að vöruúrvalið sé takmarkað.
Ég hef oft velt fyrir mér vöruúrvali í íslenskum matvöruverslunum. Heilt á litið er mjög mikið ójafnvægi milli þeirra vara sem við þurfum á að halda og þeirra vara sem gott er að geta gengið að í búðinni þegar við viljum gera okkur glaðan dag. Til að útskýra betur hvað ég á við með vörum sem við þurfum á að halda er þar um að ræða fjölbreytt úrval fæðutegunda úr öllum fæðuflokkum sem nauðsynlegt er að neyta reglulega til að fullnægja þörfum líkamans fyrir ýmis næringarefni.
Mig langar að lýsa upplifun minni af verslunarferð í aðra af þeim búðum sem ég hef aðgang að í nærumhverfi mínu. Ég tek það fram að lýsingin getur átt við flestar matvöruverslanir á Íslandi og staðan í þeirri búð sem lýsingin á við er hvorki betri né verri en í öðrum sambærilegum verslunum.
Eftir að hafa gripið innkaupavagninn geng ég inn í búðina. Yfirleitt ríkir þar mjög afslappað, vinalegt og rólegt andrúmsloft. Mig vantar bara það helsta. Engar veislur framundan, bara venjuleg hversdagsleg vinnuvika. Þess ber að geta áður en haldið er áfram að mælieiningar sem gefnar eru upp hér á eftir eru ekki byggðar á vísindalegum mælingum heldur er í öllum tilvikum stuðst við sjónminni höfundar.
Ég stilli mér upp fyrir framan brauðhillurnar. Markmiðið er að finna trefjaríkt heilkornabrauð fyrir fjölskylduna. Eftir að hafa skimað yfir hillurnar kem ég auga á örfá brauð sem fullnægja þeim kröfum sem lagt var upp með, innan um kökur og fín brauð sem taka um það bil 80% af hilluplássinu. Markmiðinu er náð með að grípa skráargatsmerkt brauð og rúgbrauð, og svo fylgir eitt venjulegt heilhveitibrauð með í körfuna til að styðja við atvinnulíf í heimahéraði. Áfram heldur ferðalagið, inn gang þar sem hillupláss á hægri hönd er undirlagt af kexi. Ef vel er að gáð má sjá einstaka hrökkbrauðspakka leynast inn á milli kexpakkanna. Ég á hins vegar hrökkbrauð heima þannig að ég held áfram.
Innan um fjölbreytt úrval af sykruðu morgunkorni finn ég þokkalega hollt morgunkorn og hafragrjón sem enda í innkaupakerrunni. Á um það bil 10 metrum á vinstri hönd má finna allar mögulegar gerðir af gosi og svaladrykkjum, sykruðum og með sætuefnum. Mig langar í sódavatn, en það er volgt og ég ákveð að láta íslenska kranavatnið duga. Nú vantar eitthvað í matinn.
Ég kann ekki við að kvarta yfir úrvali af ferskum fiski og kjöti í búðinni, enda skilst mér að þeir sem búsettir hafa verið hér lengi séu margir duglegir við að nota frystikistu. Ég á mjög erfitt með að tileinka mér þann góða sið að safna í kistuna og ennþá erfiðara á ég með að muna að taka upp úr henni. Ég finn bæði fisk og kjöt fyrir máltíðir næstu daga og álegg ofan á brauðið. Eftir snarpa hægribeygju innst í búðinni er komið að ávaxta- og grænmetisskotinu. Já, það er óhætt að kalla plássið sem þessir mikilvægu fæðuflokkar fá í búðinni „skot“.
Á um það bil fimm fermetrum, þar sem varla er hægt að snúa sér við, hvað þá koma innkaupavagninum almennilega fyrir, má finna nokkrar tegundir af ávöxtum og nokkrar tegundir af grænmeti. Úrvalið er ekkert sérstakt, gæðin mjög misjöfn og þarna hef ég oftar en ekki orðið fyrir miklum vonbrigðum í fyrri innkaupaferðum. Kosturinn er hins vegar sá að ég get alltaf gengið að dýrindis tómötum og gúrkum, enda eru þær vörur framleiddar í nærumhverfinu. Tómatarnir hafa bjargað mörgum annars mjög tilbreytingarsnauðum máltíðum og eru auk þess vinsælt snakk á heimilinu. Ég reyni mitt besta að velja það sem mér líst á, enda þarf fjölskyldan mín rúmlega kíló af þessum mikilvægu vörum á degi hverjum. Eftir að hafa athafnað mig í ávaxta- og grænmetisskotinu gríp ég mjólkurvörur á mjög þröngum gangi og þakka fyrir að ekki sé meiri umferð í búðinni, enda ekki hægt að koma annarri innkaupakerru framhjá meðan ég sæki mjólkurvörur í kælinn.
Ég á ennþá eftir nokkurn spöl að afgreiðslukassanum. Við endann á þrönga mjólkurvöruganginum geng ég inn í stórt rými. Varlega áætlað er þetta rými að minnsta kosti þrisvar sinnum stærra en ávaxta- og grænmetisskotið.
Nammibarinn þekur einn vegg og á um það bil fimm metra löngum vegg má finna allar þær tegundir af súkkulaði og sælgæti sem hugurinn gæti girnst. Búið er að þrengja aðeins að nammirýminu með því að koma fyrir tveggja metra háum stafla af kartöfluflögum í kössum á miðju gólfinu. Á þessum stað í búðinni leyfi ég mér reglulega að hneykslast á því hversu miklu plássi í þessari annars ágætu búð er sóað í vörur sem við þurfum ekki á að halda meðan varla er hægt að snúa sér við á öðrum stöðum.
Hvað ætli hillupláss undir allar þessar vörur kosti? Ég endurraða vörunum í búðinni eldsnöggt í huganum og ímynda mér að ég sé stödd í rúmgóðu og fallegu ávaxta- og grænmetisrými með hnetu- og baunabar í stað sælgætisbarsins. Ég vakna þó upp af draumum mínum við afgreiðslukassann og verð fyrir vonbrigðum þegar afgreiðslustúlkan tilkynnir mér hvað ég eigi að borga mikið. Reyni samt að brosa og vona að einhvern tímann eigi ég kost á því að versla í búð þar sem fæst „bara það sem ég þarf“.
Ingibjörg Gunnarsdóttir
Eiginkona, þriggja barna móðir og næringarfræðingur
Grein þessi byrtist fyrst í blaði Neytendasamtakana. www.ns.is