Töfraformúlan er til
Ef þér byðist „töfralyf” sem myndi stórlega auka líkurnar á lengra lífi og betri lífsgæðum og um leið draga úr líkum á hjartasjúkdómum, sykursýki og ristilkrabbameini um nær helming, drægi úr einkennum kvíða og depurðar og lækkaði blóðþrýsting svo eitthvað sé nefnt…myndir þú ekki kaupa það? Þessi blanda er til en tvær hindranir verða til þess að mörgum finnst regluleg hreyfing erfiður þröskuldur að klífa „tími og fyrirhöfn”. Margir bera fyrir sig tímaskorti þegar hreyfing berst í tal, „ég er alveg fullbókuð/aður“. Hvað með 30 mínútur daglega, áttu þær aflögu? Er það ekki? Þá spyrja eflaust margir, er það fyrirhafnarinnar virði að fara út og t.d. ganga, hlaupa eða hjóla þennan tíma? Svarið er einfalt, já það er þess virði. Og það besta er að það þarf ekkert að kosta þig nema átakið að koma þér af stað upp úr sófanum og út um dyrnar.
Þegar fólk ætlar að hefja átak í hreyfingu eru algengustu mistökin ÓÞOLINMÆÐI, það er farið allt of harkalega af stað. Það á að nást sýnilegur árangur strax og helst í gær. Það eina sem fólk fær út úr þessu eru vonbrigði, aumur líkami og á endanum gefst það upp. Svona getur þetta gengið ítrekað aftur og aftur ef skynsemi og þolinmæði eru ekki höfð að leiðarljósi. Grundvallaratriði er að fara rólega af stað og auka álag smám saman eftir því sem geta eykst. Markmiðið á ekki að vera kröftugt átak heldur mun fremur að breyta smám saman um lífsstíl.
Byrjaðu á að meta ástandið og taktu fullt tillit til aldurs og líkamsástands eins og það er í dag. Leitaðu til læknis og fáðu álit og ráðleggingar hjá honum ef ástæða er til.
Það er vel þekkt orðið að þeir sem eru grannholda og í lélegu formi (unfit) eru líklegri til að deyja fyrr en þeir sem eru of feitir en hreyfa sig reglulega. Þó svo að offitan sé hættuleg þarf grannt kyrrsetufólk einnig að hugsa sinn gang og gera eitthvað í málinu. Það er ekki síður mikilvægt að auka hluta hreyfingar í daglega lífinu en að stunda reglulegar æfingar.
Rannsóknir hafa leitt í ljós að Íslendingar eru að fitna og offita og hreyfingarleysi eru vaxandi vandamál hjá þjóðinni. Þekking fólks á úrlausnum og aðstæður til hreyfingar ættu ekki að vera hamlandi þáttur hér á Íslandi eins og í mörgum öðrum löndum. Vandamálið væri að fá hegðunina fram, að fá kyrrsetufólkið til að rísa upp úr sófanum og hreyfa sig. Það er því mikilvægt að standa saman, ná slagkrafti í hvatninguna, auka hlut hreyfingar í daglegu lífi og koma sem flestum af stað í reglulega hreyfingu.
Fjárfesting í heilsunni með reglulegri hreyfingu og heilbrigðu líferni er sú skynsamlegasta sem þú getur gert og það besta er…hún þarf ekki að kosta krónu. Flestir eru svo lánsamir að hafa aðgang að tveimur læknum allan sólarhringinn, vinstri fótlegg og hægri fótlegg, notum þá!
Heimild: doktor.is