Sjón barna þroskast á fyrstu 8 til 10 árum ævinnar. Á þessum árum myndast taugabrautir í miðtaugakerfinu. Til þess að sjónþroskinn sé eðlilegur þarf skýr mynd að koma inn á sjónhimnuna í gegnum hornhimnuna (glæruna), augastein og glerhlaup. Eftir þessi ár er erfitt að leiðrétta sjónþroska vegna letiauga.
Letiauga er langalgengasta orsök sjónskerðingar á öðru eða báðum augum hjá börnum. Í Norður Ameríku hefur tíðnin mælst 2-4 %.
1. Sjónlagsgallar eins og t.d. fjarsýni (hyperopia ) og sjónskekkja (astigmatism), þar sem sú mynd er nemur sjónhimnuna er óskýr . Heilinn hefur þá ekki möguleika á að þroska eðlilegar taugarbrautir .
2. Skjálgi (strabismus), þar sem barnið beitir því auga, sem liggur betur í sjónlínu.
3. Augnsjúkdómar, sem hindra eðlilegan sjónþroska, eins og t.d. ský á augasteini.
Með sjónmælingu á heilsugæslu er reynt að finna þau börn sem sjá annað hvort illa á öðru eða báðum augum og fer hún fram við 3-5 ára aldur. Letiauga er einnig oft uppgötvað fyrr ef um skjálga er að ræða eða ef óbein mæling er framkvæmd t.d. með plusOptix S04 Photoscreener.
Fyrir 9 ára aldur er hægt að leiðrétta sjónlagsgalla með gleraugum til að fá skýra mynd inn á sjónhimnuna og oft leiðrétta gleraugu einnig skjálga. Ef um mikinn mun á sjónskerpu á milli augna er að ræða þarf einnig að beita lepp tímabundið til þess að þvinga barnið til þess að nota verra augað.
Heimildir: sjonlag.is