Svefn er öllum manneskjum mikilvægur. Svefninn veitir hvíld og endurnýjaða orku fyrir nýjan dag. En svefninn hefur meiri þýðingu. Með draumum vinnur manneskjan úr þeim áreitum og áhrifum sem hún verður fyrir í lífinu.
Eftir svefnlausa nótt er fólk þreytt, úrvinda og ergilegt en eftir góðan nætursvefn er manneskjan úthvíld og full orku. Því er ekki að undra að foreldrar leggi áherslui á svefnvenjur barna sinna. Þær hafa áhrif á alla fjölskylduna og vellíðan hennar.
Nýburar geta sofið allt í að 16 klukkustundir á sólarhring. Í byrjun vakna þau yfirleitt á 2-3 tíma fresti til að borða, en frá 4 mánaða aldri fara kornabörnin oft að sofa lengur í senn og frá 6 mánaða til eins árs eru þau yfirleitt farin að sofa 5-6 klukkustundir í einu.
Börn frá 1-5 ára aldri geta sofið í 12 tíma á sólarhring.
Fram undir skólaaldur getur barnið ennþá þurft 10-12 tíma svefn á sólarhring.
Skólabarnið getur sofið u.þ.b. 10 tíma á sólarhring.
Mikilvægt er að gera sér grein fyrir að svefnvenjur og svefnþörf eru í hæsta máta einstaklingsbundnar. Ef barnið þitt sefur 10 tíma á sólarhring milli eins og tveggja ára, er frískt og heilbrigt og virðist vera úthvílt er það alveg innan eðlilegra marka. Áður en maður fer að örvænta um lítinn svefn barnsins er óvitlaust að gefa gaum að svefnvenjum annarra í fjölskyldunni og kanna hvort þar er nokkuð kunnuglegt.
Ef barnið er nýfætt er ekkert við því að gera. Nýburinn getur verið svangur á tveggja til þriggja klukkustunda fresti. Yfirleitt fer kornabarnið smátt og smátt að sofa lengur og frá 4 mánaða aldri er engin ástæða til að gefa því næturmáltíðir.
Ef venja skal ungbarnið á að sofa um nætur frá 4 mánaða aldri er reynandi að koma því í skilning um að það er ekkert skemmtilegt að vakna um nætur. Ef barnið vaknar, kveiktu þá ekki ljósið og ekki byrja að leika við barnið. Ef bleian er blaut er skipt á barninu með eins litlum tilþrifum og þú getur. Ef barnið er þyrst er því boðið vatn. Það er ágætt að venja barnið strax á að það þarf ekki að drekka mjólk til að geta sofnað og ekki venja það á að drekka mjólk á næturnar. Þetta hljómar ef til vill nokkuð hryssingslega en það sem verið er að gera er að kenna barninu að NÓTTIN ER TIL AÐ SOFA! Þetta er að sjálfsögðu ekki hægt nema taka þetta föstum tökum. Því lengur sem dregið er að hætta næturgjöfum, því erfiðara verður það.
Nei. Grátandi barn þarf alltaf á foreldrum sínum að halda. Bara það að komið sé inn til þess veitir því öryggistilfinningu. Strjúka má því blíðlega um höfuðið og bakið, eða breiða sængina yfir það og þjappa henni að svo að barnið finni fyrir öryggi og róist. Barn sem grætur þarf að finna að það sé ekki eitt í heiminum, en það þýðir ekki endilega að leikið sé við það eða því sé gefið að borða. Einnig skal ganga úr skugga um að barnið sé ekki veikt.
Fyrst þurfa foreldrar að gera upp við sig hvort þeir eru reiðubúnir til þess. Ef svo er þá er tekin ákvörðun um það hvenær hafist verði handa.
Ef barnið er 4 til 6 mánaða gamalt ætti þetta ekki að taka meira en 3-4 nætur. Ef barnið er eldra en 6 mánaða getur það tekið eina til tvær vikur. Foreldrar verða að búa sig undir að gefast ekki upp eftir eina nótt. Þeir geta undirbúið sig saman, svo að þeir séuð sammála og geti stutt hvort annað. Þeir geta líka komist að samkomulagi um aðferð og hvernig þeir deila með sér nóttinni. Skynsamlegt er að fara að sofa um leið og barnið til að fá hvíld áður en kemur að átökum næturinnar.
Þegar barnið vaknar er best að fara sér hægt til dæmis að strjúka barninu blíðlega um höfuðið og bakið og þjappa sænginni að því. Noti barnið snuð, er því rétt það. Þetta dugar hugsanlega í klukkustund, þangað til barnið vaknar á ný. Reyna aftur það sama. Ef barnið róast ekki skal skipta á því. Forðist þó að kveikja ljósið, tala eða leika við barnið. Nú getur verið að barnið sofi í klukkustund til viðbótar. Alltaf skal reyna að gera ekki meira en þarf, ef það er ekki nóg, má reyna að bjóða barninu vatn að drekka. Vatnið hefur tvíþættan tilgang. Það gefur barninu til kynna að nóttin er ekki matmálstími, en það fái vatn sé það þyrst. Hins vegar er foreldrið öruggt um að barnið er ekki þyrst. Ef barnið vaknar aftur og lætur sér ekki nægja að sér sé strokið og að sængin sé breidd yfir það, mætti reyna að hafa barnavagninn við rúmið og keyra það fram og til baka. Þessi ráð má nota til skiptis þar til nóttin er á enda.
Börn vilja yfirleitt sofa í rúmi foreldranna ef þau hafa verið vanin á það. Þar er hlýtt, notalegt og góður félagsskapur.
Það er algerlega undir foreldrunum komið hvort barnið fær að sofa í rúminu hjá ykkur.
Þeir þurfa bara að vera undir það búin, að barnið lætur ekki vísa sér burt baráttulaust ef einu sinni búið að venjast því að sofa í rúmi foreldra sinna. Því er áríðandi að átta sig á afleiðingunum. Hversu lengi sætta foreldrarnir sig við þetta ástand? Getur það haft áhrif á kynlíf foreldranna? Er nóg pláss í rúminu til þess að allir nái að hvílast nægilega? Hvað gerist þegar næsta barn fæðist o.s.frv.
Sum börn fara ekki að sofa alla nóttina fyrr en upp úr eins og hálfs árs aldri. Flest börn gera það þó tiltölulega fljótt. Spyrja hjúkrunarfræðinginn á heilsugæslustöðinni ráða um vafaatriði.
Ef ástæða er til að hafa áhyggjur af svefnvenjum barnsins eða grunur leikur á að eitthvað sé að því skal leitað til heimilislæknis. Sum börn eru óróleg vegna t.d. blöðrubólgu, eyrnabólgu, magakrampa, kvefs og hósta eða annarra kvilla. Að sjálfsögðu verður að ganga úr skugga um að ekkert ami að barninu áður en farið er að venja það á nýjar svefnvenjur.