Sjúkdómurinn einkennist af minnkuðum beinmassa og röskun á eðlilegri uppbyggingu beina. Beinbrot verða þá við lítið álag og af völdum áverka sem ekki myndu nægja til að brjóta heilbrigð bein.
Beinbrot af völdum beinþynningar eru algeng, en ætla má að önnur hver kona um fimmtugt og fimmti hver karl, megi eiga von á broti síðar á lífsleiðinni.
Áætlað er að rekja megi 1600–1800 beinbrot á Íslandi á ári til beinþynningar. Úlnliðsbrot, upphandleggsbrot og samfallsbrot í hrygg eru algengust. Mjaðmarbrot, sem eru alvarlegust, eru um 200 árlega. Færni og lífsgæði margra minnka verulega í kjölfar beinbrota með verri heilsu, verkjum og aukinni þörf á aðstoð.
Þáttur erfða í beinþynningu er stór en reiknað er með að um 60%-70% af beinþéttni ráðist af erfðaþáttum (1). Einkum er þáttur erfða mikill í hámarksbeinþéttninni á yngri árum, en hugsanlega stjórna erfðir líka beintapi á efri árum.
Beinþynning hefst oft hjá konum við tíðahvörf. Hversu þétt beinin eru á yngri árum ræður líka miklu um hvenær þau ná brotastigi.
Vannæring, of lítil líkamsþyngd, hreyfingarleysi og óhollir lífshættir stuðla að beinþynningu.
Greining á beinþynningu er einföld myndgreining með beinþéttnimæli (DEXA-tæki) sem mælir þéttni beina.
Mælingar með slíku tæki eru nákvæmar og auðvelda að fylgjast með breytingum á beinþéttni, t.d. þegar verið er að meta árangur lyfjameðferðar.
Hreyfing og gott mataræði (nægt D vítamín og kalk) minnka hættu á beinþynningu. Sjúkdómurinn er einkennalaus þangað til bein brotnar. Þess vegna er mikilvægt að finna þá einstaklinga sem eru í mestri áhættu svo hægt sé að beita forvörnum og meðferð. Hætta á brotum er mest hjá þeim sem hafa hlotið eitt eða fleiri brot við lítinn áverka. Þá er hægt að grípa til lyfjameðferðar við beinþynningu.
Íslensk erfðagreining (ÍE) hefur unnið að rannsóknum á erfðum beinþynningar frá árinu 1997 í samstarfi við Gunnar Sigurðsson, yfirlækni, og Þorvald Ingvarsson, bæklunarlækni.
Um 28.000 manns hafa tekið þátt í beinþynningarrannsókn ÍE. Þetta eru einstaklingar sem hafa farið í beinþéttnimælingu, hafa beinbrotnað eða greinst með beinþynningu og ættingjar þeirra.
Í rannsóknum sínum hefur Íslensk erfðagreining fundið marga erfðabreytinga sem tengjast beinþéttni og beinþynningu (2-5). Einnig hefur ÍE veitt forystu stórum alþjóðlegum samstarfsverkefnum sem leitað hafa erfðabreytinga sem tengjast beinþynningu (6-8). Í þessum rannsóknum hafa uppgötvast tugir nýrra erfðabreytinga sem hafa áhrif á sjúkdóminn. Þessar uppgötvanir hafa verulega aukið skilning á eðli hans og áhættuþáttum.
Nýjasta rannsókn Íslenskrar erfðagreiningar á beinþynningu birtist í maí 2013 í vísindatímaritinu Nature (5). Þar var sagt frá stökkbreytingu í LGR4 geninu sem eykur áhættu á beinþynningu töluvert. Stökkbreytingin er sjaldgæf, en þrír af hverjum 1000 íslendingum eru með breytinguna sem eyðileggur virkni gensins.
Grein fengin af vef decode.is