Því er oft haldið fram að þetta sé kvennasjúkdómur, en það er ekki rétt. Einn af hverjum fimm karlmönnum í heiminum beinbrotnar vegna þess að hann er með beinþynningu. Staðreyndin er sú, að um þriðjungur allra mjaðmabrota í heiminum verður meðal karla og það eru tvisvar sinnum meiri líkur á að þeir deyji af þeim en konur.
Karlmenn sem líta út fyrir að vera sterkir, geta haft léleg bein án þess að gera sér grein fyrir því. Beinþynning er sjúkdómur sem sem veikir beinin þannig að þau springa eða brotna. Það er mjög sársaukafullt. Það þarf ekki mikið til að beinin brotni ef menn eru komnir með beinþynningu. Kannski bara að fólk detti úr lítilli hæð, hrasi, hnerri eða beygi sig niður til að hnýta skóreimarnar. Hryggbrot og mjaðmabrot eru alvarlegustu brotin.
Það kemur fram hjá Alþjóða beinverndarsjóðnum að það séu meiri líkur á að karlar fái beinþynningu einhvern tíma á ævinni, en krabbamein í blöðruhálskirtil. Helstu áhættuþættir eru: Aldurinn, saga um beinþynningu í fjölskyldunni, beinbrot eftir fimmtugt, Langvarandi notkun „glucocorticosteroids“ lyfja sem eru notuð meðal annars við astma og gigt og lítill styrkur testósterón hormóns í blóðinu. Einnig geta ýmsir sjúkdómar aukið líkur á beinþynningu, svo sem gigt og sykursýki. Þeir sem þessir áhættuþættir eiga við um, ættu að fara til læknis séu þeir orðnir sjötugir og láta skoða hvort þeir séu með beinþynningu.
En lífssstíll karlmanna skiptir líka máli í þessu sambandi. Það að reykja, neyta áfengis meira en góðu hófi gegnir og borða óhollan mat er meðal þess sem eykur líkur á beinþynningu. Vítamínsskortur eykur líkurnar einnig og það er mjög slæmt að hreyfa sig ekki reglulega. Styrkur beina ræðst mikið af því hvernig menn hafa farið með sig um ævina. Það þarf að huga að beinheilsunni snemma á ævinni, vilji menn komast hjá beinþynningu. En nægt calcium, D-vítamín og prótein eru grundvallaratriði til að halda beinunum heilbrigðum.
Heimild: lifdununa.is