Beinin byrja að myndast strax á fósturskeiði en ná fullum vexti um 25 ára aldur. Beinin endurnýjast þriðja hvert ár í börnum og á 7-10 ára fresti í fullorðinni manneskju.
Við beinþynningu verður rýrnun á beinvef og styrkur beina minnkar, beinin verða stökk og hætta á brotum við minnsta átak eykst. Beinþynning er algengust í hryggjarliðum, mjaðmarbeini, lærlegg og beinum í framhandlegg og upphandlegg.
Beinþynning er alvarlegt heilsufarsvandamál hér á landi eins og víða annars staðar og fer vaxandi með auknum fjölda aldraðra. Talið er að í það minnsta þriðja hver kona hljóti beinbrot vegna beinþynningar einhvern tíma á ævinni en beinþynning er mun algengari meðal kvenna en karla.
Á ári hverju má líklega rekja fleiri en 1000 beinbrot til beinþynningar hér á landi.
Allir, bæði konur og karlar, eiga á hættu að verða fyrir afleiðingum beinþynningar síðar á ævinni svo að hver og einn þarf að huga að vernd beina sinna allt frá barnæsku.
Reglubundin líkamsáreynsla, nægilegt kalk, sem helst er að finna í mjólkurmat, og D-vítamín í fæðu eða frá sólarljósi skipta máli á öllum aldri.
Fróðleikur frá Heilsutorg.is