Því eðlilegt að foreldrar velji skoði hvað er best fyrir barnið en um leið gott val fyrir umhverfið og fjárhaginn. Notkun á bæði einnota pappírsbleyjum og margnota taubleyjum hefur í för með sér neikvæð umhverfisáhrif. Hvort sem valin er tau- eða pappírsbleyja má benda á að ef valin er umhverfisvottaðar bleyjur með t.d. Svaninum eða Evrópublóminu þá hefur verið leitast við að draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum við framleiðslu vörunnar og lágmarka varasöm innihaldsefni.
Ef umhverfisáhrif pappírs- og taubleyja eru borin saman kemur í ljós að umhverfisáhrif pappírsbleyja má rekja til notkunar auðlinda við framleiðslu þeirra og þess úrgangs sem fellur til við notkun þeirra. Pappírsbleyjur eru samsettar úr rakadrægu efni að innan og þunnu, vatnsheldu ytra lagi úr plasti. Mörg efni eru notuð við framleiðslu þeirra eins og t.d. sellulósakvoða, bómull, plastefni, lím, ilm- og litarefni. Sumar pappírsbleyjur innihalda krem og ilmefni og eiga upplýsingar um krem að koma fram á innihaldslista umbúðanna. Slíkt þarf ekki að gera með ilmefnin sem þó geta valdið ofnæmi.
Umhverfisáhrif taubleyja eru hins vegar einkum að finna í vatns- og rafmagnsnotkun og losun mengandi efna í vatn. Í erlendum rannsóknum er yfirleitt miðað við að notað sé rafmagn sem framleitt er með mengandi orkugjöfum en hér á landi á slíkt ekki við því við erum svo lánsöm að búa við grænu raforku. Því má segja að umhverfisáhrifin af þeirri rafmagnsnotkun sem fer í að knýja þvottavélar hér á landi séu mun minni en í þeim rannsóknum sem vitnað er í erlendis. Ef taubleyjur eru þvegnar á réttan hátt og umhverfisvottað þvottaefni notað þá er auk þess hægt að minnka umhverfisáhrif taubleyja umtalsvert.
Af framansögðu bendir flest til þess að notkun taubleyja sé umhverfisvænni en notkun einnota pappírsbleyja. Hér er vert að benda á að hægt er að nota báðar tegundir því vissulega fylgja því þægindi að geta gripið í einnota bleiu þegar aðstæður kalla á slíkt.
Upplýsingar um blautklúta frá Klima- og forureiningsdirektoratet í Noregi