D-vítamín er fituleysið vítamín sem er að finna í feitum fisk eins og laxi, síld, makríl og túnfisk, og einnig í lýsi og öðrum fiskolíum. Eggjarauður, smjör og lifur gefa talsvert magn af D-vítamíni líka en það veltur á magni D-vítamíns fæðunnar sem dýrið borðaði sem gefur afurðina. Fæðutegundir sem hafa viðbætt D-vítamín á Íslandi eru aðallega D-vítamín bætt léttmjólk, fjörmjólk, nýmjólk og D-vítamín bætt smjörlíki.
Ráðleggingar
D-vítamín er eitt af þeim fáu vítamínum sem Íslendingar neyta að meðaltali ekki nóg af en nýlega hækkuðu ráðlagðir dagsskammtar fyrir vítamínið. Í síðustu Landskönnun á mataræði Íslendinga kom í ljós að meðalneysla D-vítamíns er 8,1 µg/dag en ráðlagður dagsskammtur er nú 15 µg/dag fyrir fólk sem er á aldrinum 10-70 ára og 20 µg/dag fyrir einstaklinga sem eru 71 árs eða eldri. Fyrir börn yngri en 10 ára og ungabörn er ráðlagður dagsskammtur 10 µg/dag. Það kom líka í ljós í Landskönnuninni að einstaklingar sem taka aldrei lýsi ná ekki ráðlögðum dagsskammti fyrir D-vítamín.
Það getur verið erfitt að fá nægjanlegt D-vítamín úr matnum og því er nauðsynlegt að taka það sem fæðubót, sérstaklega fyrir okkur á Íslandi. Það kemur til vegna þess að sólin skín lítið á okkur yfir vetrartímann, en þegar sólin skín á húðina, þá hjálpar hún líkamanum að búa til D-vítamín. D-vítamín er því í raun eina bætiefnið sem heilbrigt fólk þarf að taka fyrir utan fólat fyrir konur á barneignaaldri. Til að uppfylla þessar ráðleggingar er nauðsynlegt að taka annaðhvort eina og hálfa teskeið af lýsi á dag, lýsisperlur eða eina töflu af D-vítamíni og passa þá að taflan og perlurnar uppfylli dagsskammtinn.
Áhrif á heilsuna
Fullnægjandi D-vítamín gildi í líkamanum er mikilvægt fyrir heilsuna, vegna þess að það getur hjálpað við að minnka líkur á beinbrotum. Þegar D-vítamín gildi er mjög lágt, þá getur það valdið beinkröm hjá börnum og beinmeyra hjá fullorðnum. D-vítamín skortur hefur einnig verið tengdur við beinþynningu, meiri líkur á ristilkrabbameini og hærri líkur á offitu. Vegna þess hversu mikilvægt D-vítamín er til að koma í veg fyrir beinþynningu hjá eldra fólki, þá hækkar ráðlagði dagsskammturinn með aldrinum, en D-vítamín ásamt kalki er stór hluti þess sem hjálpar til með það vegna þess að D-vítamín örvar frásog kalks í meltingarvegi. En D-vítamín er nauðsynlegt fyrir fólk á öllum aldri, því beinheilsa skiptir okkur öll máli og það er líklegt að fleiri mikilvæg hlutverk D-vítamíns eigi eftir að koma betur í ljós í framtíðinni.
Heimildir
Höfundur: Hrund Valgeirsdóttir, næringarfræðingur http://naering.com