Þetta er stærsti ebólu-faraldurinn síðan veiran fannst 1976 og hafa yfir 1500 manns látist (samkvæmt Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni (WHO) 28. ágúst 2014). Margir sérfræðingar telja þó að dauðsföllin séu mun fleiri vegna vangreininga. Nokkrir faraldrar hafa átt sér stað síðan 1976, allir í Afríku, og fjöldi látinna í núverandi faraldri er orðinn svipaður og samtals í öllum fyrri faröldrum.
Löndin þar sem faraldurinn geisar eru fátæk og hann er þegar farinn að hafa alvarleg áhrif á efnahag þessara landa. Landamærum hefur verið lokað, flug stöðvað og mörgum framleiðslufyrirtækjum hefur verið lokað eða dregið hefur verið úr starfsemi þeirra. Sums staðar hefur skólum verið lokað. Farið er að bera á vöruskorti og þetta gerir baráttuna við sjúkdóminn og útbreiðslu hans enn erfiðari.
Hvað er ebóla?
Ebóla er svokölluð þráðveira og dregur nafn sitt af Ebólafljótinu í Austur-Kongó en veiran fannst fyrst í nágrenni árinnar. Af henni eru þekkt 5 afbrigði og það sem hefur valdið flestum faröldrum og er skæðast er kennt við Zaire.
Smitleiðir
Talið er að náttúrulegur hýsill veirunnar sé ávaxtaleðurblaka en veiran hefur einnig fundist í nokkrum öðrum dýrategundum. Hægt er að sýkjast með snertingu við blóð, aðra vessa eða vefi úr sýktum dýrum eða mönnum en snertingin þarf að verða við rofna húð (sár) eða slímhúð. Sjúkdómurinn smitast hins vegar ekki með loftbornum dropum eins og við hósta og hnerra og þess vegna er hann ekki sérlega smitandi. Þeir sem lifa sjúkdóminn af geta verið smitberar í a.m.k. 7 vikur. Greftrunarathafnir þar sem syrgjendur snerta hinn látna geta valdið hraðfara útbreiðslu veirunnar.
Til að hindra smit er reynt að einangra sjúklingana en engin aðstaða er til slíks víða þar sem faraldurinn geisar. Einnig er oft skortur á vatni og sápu til handþvotta og enginn eða ófullkominn hlífðarfatnaður er til staðar. Hiti drepur veiruna (30-60 mín. við 60°C eða suða í 5 mín.) og sömuleiðis venjuleg sótthreinsunarefni.
Hver eru einkennin?
Veiran ræðst á flesta vefi líkamans og það einkenni sem er mest áberandi á síðari stigum veikinnar eru blæðingar. Í fyrstu koma flensulík einkenni eins og þreyta, sótthiti, höfuðverkur, verkir frá liðum og vöðvum og kviðverkir. Tíminn sem líður frá smiti til fyrstu einkenna er oftast 8-10 dagar en getur einstaka sinnum verið mun breytilegri eða 2-21 dagur. Í um helmingi tilfella fer að bera á blæðingum 5-7 dögum eftir að fyrstu einkenni komu fram og eru horfur þeirra sjúklinga mun verri. Um er að ræða húðblæðingar og blæðingar frá meltingarfærum, lungum, nýrum, legi, munni, augum og víðar. Þeir sem ekki ná sér deyja vegna víðtækra líffæraskemmda, oftast 7-16 dögum eftir að fyrstu einkenni komu fram.
Meðferð og horfur
Engin viðurkennd, sértæk meðferð er til enn sem komið er. Venjuleg veirulyf hjálpa ekki og ekki er enn hægt að bólusetja fyrir sjúkdómnum. Sýnt hefur verið fram á að góð hjúkrun ásamt nægum vökva og næringu hefur talsverð áhrif og lyf sem hafa áhrif á blóðstorku hjálpa einnig. Í þeim faröldrum sem áður hafa geisað hefur dánartíðni verið á bilinu 50-90%, að meðaltali um 70%. Þetta gerir ebólu að einni skæðustu sýkingu sem þekkist.
Ekki er enn hægt að bólusetja fyrir ebólu en nokkur mismunandi bóluefni eru í þróun og sum hafa verið prófuð á mönnum. Nothæft og öruggt bóluefni verður vonandi komið á markað innan fárra ára en bóluefni gagnast lítið í baráttunni við skæðan faraldur.
Verið er að gera tilraunir með tvö lyf sem beinast beint gegn ebólu-veirunni. Þetta eru lyfin ZMapp og TKM-Ebola. Þessi lyf hafa lítið verið prófuð á mönnum en hafa verið gefin nokkrum sjúklingum smituðum af ebólu. Þetta hefur verið leyft af yfirvöldum vegna hinar háu dánartíðni sem fylgir sjúkdómnum, dýratilraunir lofa góðu og engin önnur sértæk meðferð er til. Sumum þeirra sjúklinga sem hafa fengið tilraunalyfin hefur batnað en allt of snemmt er að segja til um hvort lyfin hafi raunverulega hjálpað. Helsta vandamálið með þessi lyf nú er að nánast ekkert er til af þeim og verður ekki fyrr en eftir nokkra mánuði.
Þeir sem lifa sjúkdóminn af jafna sig yfirleitt fljótt og ná flestir fullum bata þó svo að langvarandi vandamál frá húð og stoðkerfi þekkist.
Nær faraldurinn til Íslands?
Lítil ástæða er til að óttast að þessi faraldur berist út fyrir Afríku. Nokkrir sjúklingar sem smituðust í Vestur-Afríku hafa farið til annarra landa, m.a. Evrópulanda, og verið meðhöndlaðir þar en ekki er vitað til þess að nokkur hafi smitast af ebólu-veiru fyrir utan Afríku. Allir fyrri faraldrar hafa einnig einskorðast við Afríku. Það eru þess vegna ákaflega litlar líkur á því að þessi faraldur berist til Evrópu nema sem einstakir ferðamenn. Ef ebólu-smitaður einstaklingur greinist á Íslandi er heilbrigðiskerfið ágætlega í stakk búið til að veita honum góða umönnun og meðferð án þess að nokkur annar smitaðist.
Ferðamenn
Löndin þar sem faraldurinn geisar eru meira eða minna lokuð fyrir ferðamenn. Það hlýtur að teljast óskynsamlegt að ferðast til annarra landa í Vestur-Afríku meðan faraldurinn geysar og heldur áfram að breiðast út.
Magnús Jóhannsson 1. sept. 2014