Eins og gefur að skilja hafa menn á þessu ólíkar skoðanir, hvað svo sem rannsóknir segja og sjálfsagt er hægt að finna rannsóknir í báðar áttir. Hvað sem þeirri umræðu líður þá rakst ég á skemmtilega grein þar sem egg eru dásömuð og nútíma lýðheilsusérfræðingar og verksmiðjuframleiddum matvælum fundið flest til foráttu.
Enn og aftur hafa leiðbeiningar þeirra sem stýra lýðheilsu um hvað sé gott og hollt fyrir okkur að borða, reynst óáreiðanlegar. Enn einu sinni hefur komið í ljós að ráðleggingar þeirra til almennings um margra ára skeið, reynast þegar á hólminn er komið í meira lagi misvísandi.
Í mörg ár hafa sumir þessara sérfræðinga varað við því að við borðuðum of mikið af eggjum, þrátt fyrir að forfeður okkar hafi neytt þessarar náttúruafurðar af mikilli ánægju í gegnum aldirnar.
Fyrir ekki svo löngu héldu þessir lýðheilsusérfræðingar fingri á lofti og fullyrtu að egg væru óvinur almennings númer eitt.
Eggjum var kennt um að valda hjartaáföllum, stífla æðar, valda háum blóðþrýstingi og þyngdaraukningu. Þessir sömu aðilar hváðu upp úr með það að við ættum alls ekki að neita fleiri en tveggja til þriggja eggja að hámarki á viku.
Nú hefur komið í ljós að fullyrðingar þeirra um egg virðast rangar, rétt eins og fullyrðingar þeirra um skaðsemi þess að borða rautt kjöt, osta, mjólk og smjör.
Margt hefur verið skrifað um egg á síðustu misserum en að undanförnu hafa vísindamenn lýst því yfir að egg séu í rauninni heilsufæði, full af næringarefnum og próteinum. Því fleiri egg sem við borðum því heilbrigðara.
Þessar nýju rannsóknir hafa hreinlega tætt niður fullyrðingar þeirra sem hafa haldið því fram að egg væru vond fyrir hjartað og blóðrásarkerfið. Staðreyndir sýna að þessu er þveröfugt farið.
Vísindamenn við Jilin Háskóla í Kína hafa fundið út að lykil innihaldsefni eggjahvítu geti verið jafn öflug í baráttunni við háþrýsting eins og sérhæfð lyf sem notuð hafa verið til að lækka blóðþrýsting.
Þetta efni er peptíð – eitt af byggingarefnum próteins – sem virðist hafa áhrif á þá þætti í blóðinu sem hækka blóðþrýsting.
„Rannsóknir okkar benda til að það geti verið enn önnur ástæða til að kalla egg ótrúlega ofurfæðu“ segir Dr. Zhipeng Yu sem stýrir rannsóknunum. Niðurstöður hans renna stoðum undir rannsóknir frá Háskólanum í Alberta í Kanada sem leiddu í ljós að prótein í eggjum getur komið í veg fyrir æðaþrengsli í líkamanum og á sama tíma uppgötvuðu vísindamenn við Háskólann í Missouri að egg væru besta leiðin til að hafa stjórn á matarlyst.
Í áraraðir hafa yfirvöld og heilsuspekúlantar haldið því fram að egg væru skaðleg af því þau innihéldu kólesteról og hátt kólesteról gæti verið hættulegt og valdið skaða á hjartanu.
Þessi fullyrðing virðist nú vera í meira lagi vafasöm vísindi eins og svo margar þeirra kenninga sem hefur verið hamrað á í gegnum tíðina.
Hvað varðar kólesterólið þá er það langt frá því að vera hættulegt efni, heldur mikilvægt náttúrulegt efni sem er afar mikilvægt fyrir heilbrigða starfsemi líkama okkar. Kólesteról er mikilvægt við framleiðslu á hormónum, byggingarefni frumuhimna og til að melta fitu, Það er þess vegna sem það er að finna í miklu magni í brjóstamjólk.
Ef kólesteról væri virkilega svona vont fyrir okkur, af hverju gerði náttúran það að óaðskiljanlegum hluta af líffræðilegri samsetningu okkar í upphafi ?
Þessi lykil spurning er kjarni málsins þegar rætt er um hvað er rangt við lýðheilsu og heilsueflingarumræðu nútímans. Í hreinskilni sagt hefur verið rekin óvísindalegur áróður gegn eggjum sem endurspeglar þær endalausu misvísandi upplýsingar sem hafðar eru uppi um hvað við eigum að borða.
Okkur hefur verið talin trú um að við eigum að skera niður kjötneyslu og neyslu á mjólkurvörum á sama tíma og við eigum að auka neyslu á kolvetnum. Í leiðbeiningum yfirvalda lýðheilsu um æskilega samsetningu fæðutegunda á disknum okkar eru það skilboð þeirra að meirihluti disksins skuli vera kolvetni þ.e. brauð, hrísgrjón, pasta og önnur sterkjurík fæða.
Á sama tíma hljóða ráðleggingarnar um að hlutfall kjöts, fisks, eggja og bauna sé innan við helmingur þessara fyrrtöldu tegunda. Það sem er svo jafnvel ennþá meira undrunarefni er áhersla yfirvalda á fitusnauðar vörur eins og fituskertar mjólkurvörur í stað náttúrulegra ófituskertra afurða.
Slík ráðgjöf gæti varla verið öfugsnúnari og beinir sjónum fólks í ranga átt. Það er í rauninni ekki furða að við sjáum vaxandi offituvandamál og væri nær að tala um faraldur í þessu sambandi.
Yfirvöld og talsmenn þeirra hafa með málflutningi sínum um kjöt og mjólkurvörur, auk áherslu þeirra á kolvetni og fituskertar vörur, raunverulega verið að beina fólki að neyslu unninnar, óhollrar, sykraðrar matvöru með hörmulegum afleiðingum sem við sjáum allt í kringum okkur.
Að borða hollt er ekki vandasamt. Aðalskilaboðin eru að allur náttúrulegur matur, þar með talið egg af frjálsum hænum, ófituskert mjólk og lífrænt kjöt er gott fyrir okkur, því nær náttúrunni því betra.
Á hinni hliðinni er matur sem er iðnaðarvara sem framleidd er í hátæknivæddum verksmiðjubúum þar sem umhyggjan og hinu náttúrulega er kastað fyrir róða og kemísk efni og hagnaðarsjónamið látin koma í staðinn.
Að sjálfsögðu henta þessi náttúruvænu skilaboð ekki þessum stóru verksmiðjuframleiðendum og söluaðilum þeirra, sem græða sína fjármuni á því að sýsla með unnar kjötvörur.
Drifnir áfram af fjárhagslegum ávinningi láta þeir í veðri vaka að allur náttúrulegur matur sé uppfullur af hættulegum efnum, sem ógna hjartaheilsu okkar eins og fitu og kólesteróli sem þeir hafi fjarlægt af stórum hluta eða þynnt út.
Þannig endum við neytendur í fáránlegri stöðu þar sem við erum hvött til að neyta mikið hreinsað brauðmetis sem gerir í rauninni ekkert gott fyrir heilsu okkar og við eigum að vera spör með eggin sem eru kannski næringarríkasta fæða sem finnst.
Í rauninni og jafnvel í ennþá meira mæli en í kjöti, eru egg full af amínósýrum, steinefnum og hágæða próteinum sem eru afar mikilvæg fyrir líkama okkar og stuðlar að stöðugu ferli endurnýjunar.
Það eru því engar ýkjur að segja að hvert egg er í rauninni eins og lampi Alladíns þegar kemur að næringarefnum. Reyndar, að undanskildu C-vítamíni, innihalda þau öll vítamín sem við þurfum. Þau eru sérlega rík af D-vítamíni sem við höfum mikla þörf fyrir hér á Íslandi vegna sólarleysis í skammdeginu.
D-Vítamín getum við líka fengið úr feitum fiski eins og laxi, síld og sardínum, en sumir eru ekki hrifnir af þessum tegundum þannig að egg eru aðlaðandi kostur. Einnig innihalda egg nokkur mikilvæg andoxunarefni sem eru mikilvæg til að fyrirbyggja sjúkdóma ásamt hinu mikilvæga næringarefni kólín sem er gott fyrir heilann.
Ein af mörgum röngum fullyrðingum ýmissa talsmanna heilsueflingar og lýðheilsu er að rauðan í eggjunum sé óholl. Þetta er fullyrðing sem hefur orðið til þess að það hefur komist í tísku að borða eingöngu eggjahvítuna. Sem dæmi má nefna að eggjahvítu-eggjakakan var aðalsmerki þeirra sem borðuðu hollt í Hollywood. En þetta er bull. Rauðan er besti parturinn af egginu, ekki bara að rauðan sé girnileg og góð heldur full af góðum, heilsugefandi innihaldsefnum.
Það má því segja að engin matur jafnast á við egg í næringu, verði og möguleikum til notkunar. Þau eru ótrúlega ódýr. Askja með 10 eggjum af frjálsum hænum kostar um 600 krónur, sem er minna en margir tilbúnir örbylgjuréttir sem eru fullir af sykri.
Framleiðendur og seljendur skyndibita keppast við að telja okkur trú um að þeirra vara sé þægilegust og best í amstri og hraða dagsins, en í rauninni hefur aldrei verið til betri skyndibiti en að fá sér egg.
Í sannleika sagt er varla hægt að finna nokkurn mat sem hefur jafn óendanlega möguleika í framreiðslu allt frá hinum fágaða egg Benedikt niður í einfalt spælt egg á pönnu með tilheyrandi, sem er klárlega mikið hollara en snakkpoki.
Það eina sem þú þarft að hafa áhyggjur af þegar þú kaupir egg er að þau séu af frjálsum, frítt gangandi hænum. Rétt eins og lífrænar afurðir af frítt gangandi grasbítandi búpeningi er mikið betri en afurðir af stórum verksmiðjubúum, það sama má segja um eggin. Egg frá hænum sem búa í þröngum búrum jafnast ekki á við egg frjálsu hænsnanna.
Ef talsmenn lýðheilsu og heilsueflingar væru ekki svona blindaðir af gömlum gildum gamalla fræða og auglýsingamennsku myndu þeir viðurkenna að egg gætu verið mikilvægt vopn í baráttunni við offitu.
Eins og ég veit af minni eigin reynslu getur egg í morgunverð haldið hungurverkjum í skefjum fram að hádegi, nokkuð sem er óhugsandi með tveim ristuðum brauðsneiðum eða skál af músli.
Hvaða lýðheilsustofnun sem raunverulega léti sér annt um heilsu þjóðar sinnar ætti að fagna neyslu á eggjum í stað þess að gagnrýna, vegna þess að eins og við öll vissum áður en lýðheilsufræðingar og talsmenn heilsueflingar urðu til, þá eru egg gott og hollt veganesti inn í daginn.
Heimild: daily mail
Hjartalíf.is
Tengt efni: