Kvef er vegna vírussýkingar og er svo kallaður Rhinovírus algengastur. Kvefvírusar eru lífsseigir. Þeir geta lifað lengi utan líkamans, s.s. á hurðarhúnum, peningum og ýmsum áhöldum. Í kjölfar kvefsýkingar myndast að öllu jöfnu ævilangt ónæmi fyrir viðkomandi veiru en gallinn er bara sá að afbrigði kvefveirunnar eru svo mörg að ævin endist ekki til þess að mynda ónæmi gegn þeim öllum. Og það er líka ástæðan fyrir því að ekki hefur enn verið hægt að framleiða bóluefni sem virkar á allar kvefveirur.
Við fáum venjulegt kvef kannski einu sinni til tvisvar á ári, börn miklu oftar, og eru vor og haust algengustu tímabilin. Kvef berst mjög auðveldlega á milli manna og líður stuttur tími frá sýkingu og þar til kvefið gerir vart við sig.
Einkenni kvefs ættu allir að þekkja: Algengast er að það byrji hægt með óþægindum, kláða og særindum í hálsi. Hnerri, nefrennsli og jafnvel rennvot augu koma fljótlega og ef einhver hitahækkun er, þá er hún væg. Venjulegt kvef gengur yfir á fáeinum dögum og oftast innan viku.
Ef einkenni vara lengur en viku og fylgikvillar eins og eyrnaverkur, langvarandi hósti, verkur í andliti eða enni koma fram getur það verið merki um að bakteríusýking hafi komið í kjölfar kvefsins. Þá þarf leita læknis og fá viðeigandi meðferð.
Meðferð við kvefi miðast við að draga úr einkennum og vanlíðan en bein lækning er ekki til. Mikilvægt er að hvílast vel og draga úr álagi meðan kvefið líður hjá. Gömul húsráð eru í góðu gildi eins og að drekka heitt sítrónuvatn eða hunangsmjólk og hálstöflur og hóstasaft getur dregið úr ertingu í hálsi. Ýmis náttúrulyf eru líka til sem sum hver geta vafalaust eitthvað bætt líðan en ekkert virðist þó enn hafa sannað sig vísindalega í að stytta gang kvefpestarinnar. Og svo er að setja á sig uppáhalds hálsklútinn og fullt, fullt af húðvænum snýtipappír!
Sjaldnast er ástæða til að vera heima frá vinnu eða skóla nema einkenni séu því meiri eða að eðli vinnunnar krefjist þess.
Forvarnir eru aðallega fólgnar í almennu hreinlæti og heilbrigðum lífsstíl (hafið þið heyrt þennan áður?)
Handþvottur er hreinlætisaðgerð sem skilar sér og á hann þá bæði við þann sem er kvefaður (smitberinn) og þann sem vill forðast smit. Sjálfsögð kurteisi er að halda olnbogabót að vitum við hnerra og hósta því kvefveiran berst auðveldlega í andrúmslofti manna á milli.
Streita og mikið álag, bæði andlegt og líkamlegt, getur dregið úr mótsöðuafli líkamans og því getur fylgt aukið næmi fyrir kvefi. Líkamsþjálfun í hæfilegu magni og hollt fæði bætir ónæmiskerfið.
Inflúensa hins vegar hellist yfirleitt snöggt yfir mann – eins og þruma úr heiðskýru lofti. Hitinn, sem fer oft í 39-40°C, hrollur, beinverkir og höfuðverkur og sár, djúpur hósti einkenna inflúensuna sem er landlæg á hverju ári, oftast um vetrartímann. Veikindi við flensu vara lengur en við venjulegt kvef og eru mun erfiðari. Gera má ráð fyrir að hún standi í 5-8 daga. Slappleiki og hósti getur þó varað lengur sem og alvarlegri fylgikvillar eins og lungnabólga geta fylgt í kjölfarið.
Meðferð inflúensu miðast að því að draga úr einkennum og vanlíðan með hitalækkandi lyfjum (t.d. Parartabs), hóstastillandi og öðrum almennum ráðum til að minnka vanlíðan.
Einnig eru til lyf sem geta stytt flensuna um nokkra sólarhringa ef þau eru tekin strax í upphafi veikinda, en þau eru einungis hægt að fá gegn lyfseðli.
Árleg bólusetning er besta vörnin gegn inflúensu. Hún er þó ekki alveg örugg, en líkur eru minni á alvarlegum fylgikvillum hjá þeim sem veikjast þrátt fyrir að hafa verið bólusettir. En því miður virkar inflúensubólusetning ekki gegn öðrum umgangskvillum eins og kvefi eða hálsbólgu! Stöðugar breytingar á inlúensuveirunni gerir það að verkum að endurbólusetningar með nýju bóluefni er þörf á hverju ári til að vörnin sé sem best.
Aðrar forvarnir gegn inflúensusýkingu eru þær sömu og varðandi kvefið: Almennt hreinlæti og heilbrigður lífsstíll.
Heimild: doktor.is