Þegar talað er um einelti dettur flestum í hug einelti í skólum sem mikið hefur verið til umræðu á unanförnum misserum. Minna hefur hins vegar verið rætt um einelti í fyrirtækjum sem Sæmundur telur þó að gæti verið algengara. „Fullorðnir bregðast við einelti á allt annan hátt en börn,“ segir hann.
„Börn sýna oft sterk einkenni þegar þau verða fyrir einelti, þannig að aðrir grípa inn í, þá að auðvitað sé margt líkt með einelti fullorðinna og barna. Fórnarlömb eineltis skammast sín og eru hrædd um að verða fyrir enn frekara einelti ef þau reyna að verja sig, reyna jafnvel að þrífast í hlutverkinu sem einhvers konar sjálfskipaðir trúðar eða blórabögglar.“
Allir geta orðið fyrir einelti og afleiðingarnar geta verið alvarlegar. Þolendur forðast vinnustaðinn, einbeiting þeirra minnkar, áhugaleysi eykst og fjarvistum frá vinnu vegna veikinda fjölgar. Þeir sýna spennueinkenni, þreytu, viðkvæmni og sækja jafnvel í einangrun. Þeir kvíða fyrir að fara í vinnuna, streita eykst og sumir verða þunglyndir.
„Gerendur í eineltismálum eiga sjálfir oft við mjög erfið persónuleg mál að stríða,“ segir Sæmundur. „Þeir verða árásargjarnir og finna eigin vanlíðan útrás með því að berja á öðru fólki. Gerendur eru óöruggir og hafa þörf fyrir að stjórna öllu í kringum sig, annars verða þeir skelkaðir. Þannig nálgast þá enginn því að öllum má vera ljóst hvernig þeir „meðhöndla óvini sína.“ Þessi framkoma þeirra bitnar ekki aðeins á þolandanum heldur einnig atriðum eins og starfsanda og vellíðan á vinnustaðnum. Aðrir á vinnustaðnum verða þvingaðir, reiðir inni í sér, hikandi eða hræddir. Þeir vilja ekki gera nokkurn skapaðan hlut af ótta við að verða sjálfir þolendur.
„Þegar maður talar við gerendur, spyr þá kannski af hverju þeir hagi sér svona, eða ber upp á þá eitthvað sem þeir hafa sagt, bregðast þeir yfirleitt alltaf eins við og svara: Þetta er bara aumingi. Af hverju má ég ekki tala við hann eins og konuna mína? Þetta er bara djók. Svona svör megum við ekki „kaupa“, viðmiðið um það sem sagt er á vinnustaðnum er ekki hið óþroskaða viðhorf geranda. Við hljótum að miða við þolendur eða þá sem í kringum okkur eru. Ef einhver þolir illa það sem við segjum, þá ber okkur að gæta orða okkar.“
En hvernig á fyrirtæki að bregðast við þegar einelti kemur upp? „Það sem skiptir mestu máli er hugarfar starfsmanna, stefna fyrirtækisins og hugmyndir manna um hvernig þeir vilja hafa fyrirtækið,“ segir Sæmundur. „Það er mikilvægt að fólk velti því meðvitað fyrir sér hvers vegna það er mikilvægt að starfsandinn sé góður.“ „Í stórum fyrirtækjum mætti t.d. koma á fót „eineltisteymi“ sem starfsmenn geta leitað til. Slíkur hópur fengi m.a. þjálfun í að taka á erfiðum samskiptamálum innan fyrirtækisins. Þar er farvegurinn skilgreindur. Hins vegar eru mörg íslensk fyrirtæki smá og mannfá og vandséð að þau geti sett á laggirnar slík teymi í sjálfu sér, en þá verður að leysa málið á annan hátt. Þá hljóta stjórnendur eða leiðtogar að afla sér þjálfunar og taka á málunum, annað hvort einir eða í samvinnu við aðra lykilpersónu. Mikilvægast er að starfsfólk finni að á vinnustaðnum sé tekið á málunum og að það sé gert af fagmennsku.“
Ekki er vitað hversu algengt einelti er á Íslandi. Sæmundur bendir á að nokkrir þættir á vinnustaðnum geti stuðlað að samskiptavandamálum eða einelti. „Við mikið álag, streitu og mótlæti koma bæði kostir okkar og brestir í ljós. Því þarf að huga vel að hvíld og álagi á vinnustöðum. Þá getur hugarfar fólks á vinnustaðnum, óskráðar samskiptareglur, óöryggi og lélegt upplýsingaflæði átt hlut að máli. Það er mikilvægt að huga að þessum málum á markvissan hátt innan fyrirtækja. Þegar öllu er á botninn hvolft snýst árangur okkar í starfi og líðan á vinnustað um þætti eins og hugarfar, vilja og skilning. Þar verður hver og einn að axla sína ábyrgð, starfsfólk og stjórnendur. Auðvitað geta fyrirtæki mótað sér stefnu á því sviði eins og öðrum, og ég held að það muni verða æ algengara á 21. öldinni. Fólk sem ræður sig til ákveðinna starfa skuldbindur sig jafnframt til að virða ákveðnar reglur, varðveita góðan starfsanda og bera ábyrgð á eigin hegðun og framkomu við samstarfsfólk.“
Viðtal VR við Sæmund Hafsteinsson, sálfræðing og forstöðumann Félagsþjónustunnar í Hafnarfirði.
Af vef doktor.is