Einmanaleiki er tilfinningin að vera einn og afskiptur og vera dapur yfir því. Mörgum líður vel að vera einum og með sjálfum sér og finna sjaldnast til einmanaleika á meðan aðrir eru einmana jafnvel innan um vinnufélaga,fjölskyldu og vini.
Við höfum öll mismunandi félagslegar þarfir en flestir þurfa einhver félagsleg tengsl eða umgengni við aðrar manneskjur til að halda góðri geðheilsu. Sumum nægja einn eða fáir vinir en aðrir þurfa stóran hóp í kringum sig til að fullnægja félagsþörf sinni.
Mikilvægt er að gera sér grein fyrir hvaðan einmanaleikinn sprettur. Er hann vegna þess að við eigum fáa vini,erum feimin,litið tengslanet,eru allir í kringum mann eru uppteknir af öðru eða er þetta sjálfsprottin angist þó við séum umlukin fólki?
Víða í samfélaginu er einmana fólk, það er bara ekki sýnilegt enda fólk ekki að ræða það á kaffistofunni að það sé einmana. Einmanleikinn getur læðst aftan að manni t.d. þegar vinirinir hverfa og stofna fjölskyldu,eftir sambandsslit eða fráfall maka. Til að sigrast á félagslegum einmanaleika verður að stíga skrefið og leita markvisst að félagsskap eða hópi sem maður hefur gaman af. Ekki sitja heima og bíða eftir að vera boðinn með. Fjölmargt er í gangi þar sem fólk hittist reglulega og getur eignast félaga s.s. kórar,gönguhópar,sjálfboðasamtök,ýmis námskeið,safnaðarstarf o.s.frv.
Við erum stöðugt að bera okkur saman við aðra bæði meðvitað og ómeðvitað og draga upp glansmynd af lífi annarra. Samtíminn kallar á það að við fyllum daginn af vinnu eða tilbúinni afþreyingu. Það getur ýtt undir einmanaleika þegar við sjáum hvað aðrir lifa skemmtilegu og ríkulegu lífi en maður sjálfur fábrotnu lífi. Við eigum að muna að líf fólks er sjaldnast eins og sú mynd sem við,facebook eða fjölmiðlar draga upp. Fólk sem hefur allt til að bera og á allt til alls finnur ekki síður fyrir tómleika og einmanaleika. Það eru ófáar stjörnurnar sem hafa farið illa eftir að hafa notað efni eða áfengi til að deyfa sig og draga úr sársauka einmanaleikans. Sama hversu mikið við fyllum líf okkar af ytri viðurkenningum eða verkefnum þá verður það innantómt ef við erum ekki sátt við okkur sjálf og þykir ekki vænt um okkur. Það er dýrmæt kúnst að líða vel einn með sjálfum sér og felst hún í því að vera sinn eigin besti vinur og öðlast hugarró. Þykja vænt um sig með öllum sínum mannlegu göllum,fyrirgefa sjálfum sér og ef maður vill breyta sér eða bæta að gera það þá út frá sjálfum sér en ekki til að líkjast öðrum. Eins eigum við að gleðjast yfir því að vera ein,fá næði frá kröfunni að vera alltaf að gera eitthvað,njóta augnablikana og gera eitthvað sem veitir okkur raunverulega ánægju hvort sem það er að hnýta flugur,lesa eða hvílast og gera ekki neitt
Í grunninn erum við öll ein með sjálfum okkur og því er svo mikilvægt að umvefja sig hlýju og væntumþykju. Öll þráum við að vera hamingjusöm og vera elskuð eins og við erum og byrjum þá með því að elska okkur sjálf.
af vef doktor.is