Rannsóknir sýna að 25% barna og unglinga drekka minna vatn en þau þurfa. Neysla landans á sykruðum drykkjum slær hinsvegar vafasöm met. Þannig að ekki virðist þetta vera svo auðvelt.
Það er mismunandi milli einstaklinga. Það er mjög háð því hvað við annars erum að gera. Þeir sem hreyfa sig mikið þurfa meira vatn, þeir sem borða saltríka fæðu, drekka mikið kaffi eða gosdrykki þurfa meira vatn. Einfalda svarið er að ef þvagið er ljósgult og lyktar lítið, þá ertu að drekka hæfilega mikið vatn.
Evrópusamtök fagfólks um offitu stóðu fyrir degi offitunnar 21. maí síðastliðinn. Markmið með slíkum degi er að vekja athygli á vaxandi tíðni offitu sem í dag er um 60% meðal fullorðinna í Evrópu. Alþjóða heilbrigðisstofnunin spáir að hlutfallið í sumum löndum verði um 90% árið 2030 ef fer sem horfir. Félag fagfólks um offitu ásamt fleirum sem láta sér annt um heilsu landans hvetja nú til aukinnar vatnsdrykkju og hvetja um leið til minni neyslu á viðbættum sykri sem að miklu leyti kemur úr drykkjum. Verkefnið er samstarfsverkefni samtakanna á Íslandi og í Evrópu ásamt Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, Reykjalundar, SÍBS, HNLFÍ og Heilsuborgar. Þessi breyting gæti dregið úr offitu og margskonar heilsufarsvanda sem henni getur fylgt. Veggspjald með hvatningu um aukna vatnsdrykkju hefur verið dreift víða til að minna okkur á þetta einfalda en mikilvæga skref til betri heilsu.
Munum eftir vatninu. Drekkum alltaf vatn við þorsta. Drekkum vatn reglubundið yfir daginn áður en við finnum fyrir þorsta. Gerum vatnið aðgengilegt og girnilegt. Höfum flösku með köldu vatni tilbúna í ísskápnum. Höfum vatn við höndina yfir daginn í bílnum, á náttborðinu, á skrifborðinu. Setjum klaka, kreistum nokkra dropa af sítrónu eða setjum sneið af appelsínu út í til að fá smá bragð. Drekkum meira vatn og minni sykur.
Erla Gerður Sveinsdóttir heimilislæknir og lýðheilsufræðingur Heilsuborg.
Formaður Félags fagfólks um offitu.