Þegar sem unglæknir var Felix einn þeirra sem stofnaði læknavakt á björgunarþyrlum, fyrst í sjálfboðavinnu, þar til vaktin hafði sannað gildi sitt og var viðurkennd sem nauðsyn.
Þá átti hann stóran þátt í undirbúningi alþjóðlegrar ráðstefnu evrópska endurlífgunarráðsins sem haldin var hér á landi 2016. 920 sérfræðingar frá öllum heimshornum sóttu ráðstefnuna. Felix var útnefndur heiðursambassador Meet in Reykjavík 2017 vegna þessara starfa.
Ritstjóri Velferðar átti fróðlegt spjall við Felix um endurlífgun, fyrstu viðbrögð við hjartastoppi, hjartastuðtæki og fleira sem þetta varðar.
Þátttaka almennings er gífurlega mikilvæg í endurlífgunarferlinu. Það byrjar allt þar. Þegar hjartastopp verður þá eru sérfræðingar sjaldnast á staðnum. Hafi þeir sem þar eru staddir hins vegar réttar upplýsingar þá geta þeir veitt dýrmæta fyrstu hjálp og jafnvel bjargað mannslífi.
Þegar einhver verður meðvitundarlaus og hættir að anda þá er yfirleitt reiknað með því að um sé að ræða hjartastopp þar til annað hefur komið í ljós. Mikilvægt er að kalla strax á hjálp, að hringja í 112 ef það er unnt. Strax þegar hefur verið kallað eftir hjálp er nauðsynlegt að byrja hjartahnoð. Það er ótrúlega mikilvægt atriði, því með því fer blóðið á hreyfingu um líkamann, þar með talið til heila. Rétt hnoð skiptir miklu máli, maður setur báðar hendur á miðhluta bringubeinsins og þrýstir mjög fast, helst svo bringubeinið gangi inn, ca 5 6 cm, og hnoðar svo 100–120 sinnum á mínútu. Ef maður treystir sér til, eftir hver 30 hnoð, gefur maður tvo blástra munn við munn, eða gegn um sérhannaða maska ef þeir eru á staðnum. Ef sá sem er að hnoða treystir sér ekki til að blása, af einhverjum ástæðum, þá er samt mjög mikilvægt að halda stöðugt áfram að hnoða. Þetta er grunnendurlífgun og það skiptir gífurlega miklu máli að almenningur þekki þessar aðferðir og geti beitt þeim, því það er yfirleitt fólk úr þeirra röðum sem verður vitni að hjartastoppi og getur þá lagt lið. Ísland stendur sig afar vel í samanburði við aðrar þjóðir hvað þetta varðar og við þurfum að halda þeirri stöðu með stöðugri fræðslu.
Það má hiklaust mæla með því að sem flestir sæki námskeið í endurlífgun og kunni þessi grunnhandtök. Það hefur margoft sýnt sig að þeir sem hafa sótt námskeiðin vita hvað gera skuli, jafnvel þó nokkuð sé um liðið. Námskeiðin eru í boði víðs vegar, oft á vegum vinnuveitenda. Með því að sækja slík námskeið getum við bjargað fleiri mannslífum. Sömuleiðis þurfa sem flestir að kynna sér notkun sjálfvirkra og hálfsjálfvirkra hjartastuðtækja sem eru núna komin mjög víða. Má nefna líkamsræktarstöðvar, sumarbústaðabyggðir og ýmsa vinnustaði. Þá eru komin hjartastuðtæki í stóran hluta íslenska fiskiskipaflotans. Mikilvægt er að fólk kynni sér hvar tækin er að finna, því það getur skipt sköpum um björgun. Um það vitna fjölmörg dæmi sem ég þekki sjálfur og ég hef tekið á móti ótrúlega mörgum sjúklingum sem hafa fengið lífgjöf vegna réttra viðbragða og oft hafa hjartastuðtækin líklega gert gæfumuninn.
Þessi tæki eru reyndar ótrúlega auðveld í notkun. Þegar þau hafa verið opnuð og sett í gang byrja þau yfirleitt að tala og leiða fólk með öryggi í gegnum ferlið. Venjulega eru tveir límpúðar með tækinu, sem eru settir á sjúklinginn og alltaf á bera húð. Á þeim sést með myndum hvar á að setja þá og tækið gefur fyrirmæli um þetta. Jafnframt því sem farið er að leiðbeiningum þarf stöðugt að halda áfram að hnoða. Best er, ef tveir eru saman, að annar hnoði áfram meðan hinn sinnir tækinu. Tækið ákveður hvort það telur að sjúklingurinn sé í „stuðandlegum takti“. Ef tækið metur að svo sé, biður það nærstadda að færa sig fjær og gefur rafstuð. Sum tæki biðja reyndar um að ýtt sé á takka til að virkja stuðið. Það er þá rauður blikkandi takki og tækið segir hátt og skýrt: „Ýtið á takkann“. Flest stuðtæki hér tala íslensku, nema t.d. þau sem eru í flugvélum og öðrum stöðum sem telja má alþjóðlega, þar er tungumálið yfirleitt enska. Tækin veita einnig leiðbeiningar með hnoð og blástur og . . . LESA MEIRA