Í nýlegum tilraunum á músum var t.d. sýnt fram á að hægt væri að örva heila þeirra og hamla gegn heilabilun með sérstökum ljósum og hljóðum. Þess vegna veltum við upp spurningunni, „Getum við stjórnað heilastarfseminni í meiri mæli en talið hefur verið fram að þessu?“ Spurningin var lögð fyrir dr. Gunnar Hrafn Birgisson, sérfræðing í klínískri sálfræði, sem lengi hefur unnið með hugarstarf fólks. Hann var fáanlegur í spjall um þetta brennandi málefni á þann hátt sem leikmenn gætu skilið.
Gunnar segir að rannsóknin, sem vísað er til, hafi sýnt að sérstök sjónræn áreiti leiddu til minnkunar á efni í heila músa sem tengist heilabilun af Alzheimergerð. Taugavísindamaðurin Li-Huei Tsai við Massachusetts Institute of Technology fann þetta út árið 2015. Hún setti upp „smádiskó“ fyrir mýsnar með lýsingu frá blikkandi ljósi og suðandi hljóði. Allar mýsnar höfðu verið sýktar til myndunar peptíð mýildis-𝛽 í heilanum, sem er eitt helsta viðmið til greiningar á Alzheimersjúkdómi. Mýildi er útfelling prótína, sem þá hlaðast upp á óeðlilegan hátt í vefjum líkamans.
Músunum var skipt í tilraunahóp og samanburðarhóp sem var í hljóðu dimmu umhverfi. Þegar Tsai skoðaði mýsnar síðar fann hún að diskóhópurinn sýndi marktækt minni vefjasýkingu en samanburðarhópurinn. Niðurstöður gáfu vísbendingu um að út frá skynjun gætu heilabylgjur mögulega breytt taugafrumum, en það kom rannsakendum mjög á óvart. Gunnar segir líklegt að vísindin þrói þessar tilraunir áfram í leit að lækningu á hinum grimma Alzheimer sjúkdómi. Við honum sé ekki til nein lækning þótt hægt sé að tefja fyrir með sérstökum lyfjum og verið sé að rannsaka fleira, s.s. áhrif tjáskipta, hollrar hreyfingar og annarrar örvunar á skynjun og hugsun.
Gunnar segir að um flókin sálræn og lífeðlisleg ferli sé að ræða og engin einföld svör til. Því hafi einfaldlega ekki tekist með sömu aðferðum að fá fram sömu áhrif í heila manna og músa, en nú sé verið að leita að útfærslum sem gætu virkað. Niðurstöðurnar hafi glætt áhuga og vonir um að væg inngrip í taugakerfi manna muni finnast sem gætu leitt til bata við fleiri kvillum en alzheimersjúkdómnum, svo sem svefnleysi, fyrirtíðaspennu, parkinson og geðklofa. “Athygli manna beinist nú að því hvort stýra megi skynáreitum þannig að þau leiði af sér heilabylgjur sem auki heilbrigði taugakerfisins. Ef svo reynist vera þá er það geysilega mikilvæg uppgötvun sem mun hafa mikil áhrif,“ segir Gunnar.
“Skyntaugar liggja frá augum, eyrum og öðrum skynfærum upp í heila. Ljós ferðast með taugum til sjónstöðvar heilans og hljóð til heyrnarstöðvar,” úrtskýrir Gunnar. „En nýlegar rannsóknir sýna að málið er enn flóknara. Fundist hafa vísbendingar um að hjá blindum bregðist sjónstöð heilans við hljóðáreitum og hjá heyrnarlausum bregðist heyrnarstöðin við sjónáreitum. Þetta hafi komið verulega á óvart og skýri að einhverju leyti hvers vegna blindir og sjónskertir taki stundum betur eftir eða muni sumt betur en aðrir. Þetta sé enn ein vísbendingin um mikilvægi þjálfunar hugans.”
„Lengi var talið að efnislegi heilinn eða boðefni hans stjórni hegðun okkar, tilfinningum og hugsunum. En rannsóknir sýna að það sé ofureinföldun og nú séu vísbendingar um að áhrifin séu á báða vegu. Niðurstöður benda til þess að hægt sé að hafa áhrif á starfsemi heilans og breyta uppbyggingu hans út frá skynjun og hugsun,” segir Gunnar. Það sem við skynjum og hvernig við hugsum virðist hafa áhrif bæði á það hvernig heilinn virkar og hvernig hann byggist upp.” Gunnar vísar til bókarvísindamannsins Sharon Begley: Train your mind, Change your Brain: How a New Science Reveals Our Extraordinary Potential to Transform Ourselves, til að lesa nánar um þetta en Begley hefurskrifað mjög fróðlegar greinar í Newsweek.
„Við vitum að ef við notum ekki tiltekna vöðva þá rýrna þeir og að á líka við um heilann. Miklu skiptir að veita honum ný viðfangsefni og reglulega þjálfun til langframa,” segir Gunnar. “Ný verkefni og áhugamál halda heilanum virkum og það er aldrei of seint að byrja að þjálfa heilann.” Gunnar samsinnir fullyrðingunni sem segir „búum öldruðum erilsamt ævikvöld, ekki bara áhyggjulaust.”
Gunnar segir að miklu skipti að festast ekki í . . . LESA MEIRA