Fóstureyðingar hér á landi fara eftir lögum nr. 25 frá 1975. Þar er fóstureyðing heimil af tilgreindum félagslegum og læknisfræðilegum ástæðum og eftir nauðgun. Fóstureyðingu á helst aðgerainnan 12 vikna, reiknað frá fyrsta degi síðustu blæðinga, eða eftir niðurstöðu ómskoðunar (sónar).
Læknir og félagsráðgjafi eða tveir læknar verða að hafa samþykkt að góðar ástæður séu fyrir hendi af hálfu konunnar. Lengd meðgöngu er ekki reiknuð frá þeim degi þegar GETNAÐUR átti sér stað – sé það vitað – heldur 2 vikum FYRR. Því fyrr sem aðgerðin er gerð, því auðveldari er hún. Milli 12 og 16 vikna er erfiðara aðgeraaðgerðina, og þótt heimild sé fyrir aðgerð upp að þeim tíma í lögunum, þá er slíkum málum oftast vísað til sérstakrar eftirlitsnefndar (í henni sitja læknir, félagsráðgjafi og lögfræðingur), sem og öllum beiðnum um slíka aðgerð eftir 16 vikur.
Aðgerðir eru ekki gerðar eftir 16 vikur nema við alvarleg veikindi móður eða sambærilegar aðstæður og ef alvarlegur sköpulagsgalli eða erfðagalli fósturs finnst eftir legvatnsástungu eða 18-19 vikna ómskoðun (sónar). Aðeins er hægt aðgeraaðgerðirnar á nokkrum sjúkrahúsa landsins.
Hvert á að leita?
Konum sem íhuga fóstureyðingu er bent á að hafa strax samband við lækni (heimilislækni eða sérfræðing t.d. í kvensjúkdómum) eða félagsráðgjafa. Ekki skal tefja tímann. Því fyrr sem komið er því betra. Læknirinn eða félagsráðgjafinn mun ræða við viðkomandi um aðstæður hennar og úrræði, fræða hana um aðgerðina og hvaða áhætta fylgir henni. Fylla þarf út sérstaka umsókn um fóstureyðingu.
Hvað gerist hjá lækninum?
Konan fer í viðtal, almenna líkamsskoðun og blóðtöku (blóðflokkun, blóðmagn, próf vegna alnæmis og eftir atvikum lifrarbólgu). Læknirinn framkvæmir kvenskoðun til að kanna stærð legsins og taka sýni til að ganga úr skugga um að konan sé laus við sýkingu í leghálsi (klamýdía og lekandi). Ef sýking er til staðar fær hún sýklalyf áður en eða um leið og aðgerðin er framkvæmd, til að fyrirbyggja fylgikvilla. Ef vafi er á því hve langt konan er komin þarf aðgeraómskoðun.
Við hvern er hægt að tala?
Það ert KONAN og AÐEINS KONAN sem tekur endanlega ákvörðun um fóstureyðingu. Ef þú ert undir 16 ára aldri á forráðamaður þinn að skrifa undir beiðnina með þér.
Það getur vafist fyrir sumum ungum konum hvern er best að tala við. Ef þú ert ung, þá áttu ef til vill í vandræðum með að tala við foreldra þína um slíka ákvörðun, eða þau eru á móti fóstureyðingum. Líka er til í dæminu að þau leggi hart að þér að fara í fóstureyðingu. Ef svo er, verðurðu að biðja lækni eða félagsráðgjafa að hjálpa þér og hugsanlega tala við foreldra þína. Oft er líka gott að ræða málið við systkini eða trúnaðarvini sína. Eitt er víst, það má ekki þvinga þig, hvorki í fóstureyðingu né til að eiga barn sem þú telur sjálf að þú getir ekki alið önn fyrir. Mundu að fóstureyðing er neyðarúrræði fyrir allar konur, en stundum þarf að nota neyðarúrræðin. Að sjálfsögðu áttu svo að tala ítarlega um aðstæður þínar við félagsráðgjafann og lækninn, og það á alltaf að vera í algjörum trúnaði við þig.
Þegar búið er að ganga frá umsókn, skoðun og öðrum athugunum, þá hefur læknirinn samband við sjúkrahúsið, og viðkomandi kemst að eins fljótt og auðið er. Einnig má leita beint á sjúkrahúsið til læknis eða félagsráðgjafa (sími hjá félagsráðgjöfum á Kvennadeild Landspítalans er 543-1000. Ef farin er sú leið, þá er konan oftast fyrst bókuð í viðtal hjá félagsráðgjafa og þaðan fer hún í læknisskoðun og viðtal þar sem gengið er frá innlögn í fóstureyðingaraðgerð. Ef heimilislæknir eða annar læknir sem konan hefur leitað til hefur gengið frá formsatriðum og skoðun, þá þarf aðeins eitt viðtal á sjúkrahúsinu.
Hafa skal í huga að því fyrr sem aðgerðin er gerð, því auðveldari er ákvörðunin fyrir konuna, því auðveldari er aðgerðin sjálf og því minni eru líkur á fylgikvillum. Fyrir 12 vikur er aðgerðin gerð í svæfingu og tekur stuttan tíma, en þegar konan er lengra komin getur þurft að framkalla fósturlát.
Heimildir: doktor.is