Hver á sér ekki þann draum að fá og upplifa draumastarfið? Hvert „draumastarfið“ er, er auðvitað jafn misjafnt og fólkið er margt. Starfsferillinn þroskast og þróast á mismunandi hraða og metnaður manna er misjafn ekki síður en aðstæður. Aldur, áhugi og ástríða spila stórt hlutverk sem betur fer því fjölbreytnin er samfélaginu nauðsynleg. Draumastarf sama manns getur því verið eitt í dag og annað á morgun. Störf sem fyrir nokkrum árum voru ekki einu sinni til og engan gat dreymt um, verða eftir að þau hafa litið dagsins ljós draumastörf svo ótal margra.
Hvað á ég að gera næst?
Hvað svo, hvað ætti ég nú að fara að gera? Hvernig nýtast kraftar mínir best? Kannast ekki flestir við að spurningar og vangaveltur sem þessar hafi skotið reglulega upp í kollinum hjá þeim af mismunandi tilefnum? Nú er almennt af sem áður var, að fólk starfi á sama vinnustað alla starfsævina. Gatnamót koma víða við á starfsferlinum og æ oftar birtast krossgötur þar sem taka þarf stærri ákvarðanir um hvert skal haldið. Ástæðurnar geta verið margar, það getur verið af brýnni nauðsyn enda er enginn öruggur um starf sitt um þessar mundir og enginn gengur að vísu starfi í dag þrátt fyrir reynslu og menntun heldur þarf mikið að hafa fyrir hlutunum. Önnur ástæða getur verið að óvænt tækifæri hafi skapast og við viljum grípa boltann áður en tækifærið rennur okkur úr greipum. Stundum þarf maður svo einfaldlega að sýna hugrekki og taka af skarið vegna þess að eitthvað hefur verið að gerjast innra með manni um lengri eða skemmri tíma, hvort sem það er að fara úr aðstæðum sem maður er ósáttur við eða til að láta draum rætast.
Það er ekkert alltaf auðvelt að taka skrefið í átt til breytinga enda skapast eðlilega óvissa og óöryggi um hið óþekkta. Alltof margir sitja því fastir á sama stað, kannski dálítið fúlir og ófullnægðir, í aðstæðum sem eru ekki lengur krefjandi eða skemmtilegar. Á meðan ekkert er gert til að stíga út fyrir þægindahringinn er hins vegar hætta á að árin fljúgi framhjá eitt af öðru og skiltið „Ef ég hefði bara ... “ birtist æ oftar í baksýnisspeglinum. Í hvaða sporum stendur þú? Ertu á þeim stað sem þú vilt vera? Ef ekki, hvað ertu þá að gera í málunum?
Sjálfskoðun hjálpar
Við berum sjálf ábyrgð á okkar eigin starfsþróun, það er í okkar höndum að skapa tækifærin og láta draumana rætast hverjir sem þeir kunna að vera hverju sinni. Það er því gagnlegt að staldra öðru hverju við og gefa okkur tímann til finna út hvað við raunverulega viljum. Það er nefnilega svo skemmtilegt að við „megum“ vilja, velja og líka gera. Við eigum valið um að halda áfram á þeirri braut sem við erum og við getum valið að gera eitthvað allt annað.
Það að vera á krossgötum getur því þrátt fyrir ástæðuna eða óvissuna sem þeim stað fylgir, verið kærkomið tækifæri til að kafa inn á við og spyrja sig markvissra spurninga. Spurningar sem ýmist veita manni staðfestingu á því sem maður er að hugsa og gera eða opna manni jafnvel alveg nýja sýn. Svör við spurningum eins og nýt ég mín í starfi eða blundar í mér að gera breytingar og takast á við nýjar áskoranir opna til að mynda á enn aðrar spurningar eins og:
Reynsla okkar og þátttakenda í Nýttu kraftinn af því að vinna markvisst með spurningar til að finna út næstu skref hefur verið mjög jákvæð og árangursrík og í Nýttu kraftinn bókinni er að finna nokkuð ítarlega spurningalista sem eru hjálplegir í sjálfskoðuninni. Sífellt fleiri spurningar færa okkur smám saman nær kjarnanum í því sem við virkilega viljum gera og þegar þangað er komið þarf bara að taka ákvörðunina um að þora að taka af skarið og gera það markvisst ef sú er niðurstaðan. Við getum nefnilega yfirleitt allt sem við viljum eins og við segjum felst við börnin okkar en það krefst áskorunar, tíma og vinnu. Það er mikilvægt að vera óhræddur við að opna nýjar dyr því það getur leitt til þess að maður blómstri sem aldrei fyrr. Velji maður einhverra hluta vegna rangar dyr þá opnar maður bara þær næstu eða snýr við reynslunni ríkari, engin geimvísindi þar á ferð!
Hikaðu ekki við að prófa þig áfram þegar þú kemur að krossgötum og njóttu vegferðarinnar í leit þinni að nýjum tækifærum. Speglaðu hugsanir þínar meðal þeirra sem þú treystir og fáðu fleiri hugmyndir og hvatningu á réttum stöðum en umfram allt NÝTTU KRAFTINN því hann býr innra með þér.
Höf: María Björk Óskarsdóttir, viðskiptafræðingur og ráðgjafi
Hugmyndir, ráð og hvatning fyrir atvinnuleitendur og alla þá sem leita sér að nýjum tækifærum. www.nyttukraftinn.is