Góð heilsa er verðmæti sem þarf að hlúa að á hverjum degi. Ýmsir þættir ógna heilsu eins og fram hefur komið í fyrri pistlum Heilsueflandi Breiðholts.
Góð heilsa er verðmæti sem þarf að hlúa að á hverjum degi. Ýmsir þættir ógna heilsu eins og fram hefur komið í fyrri pistlum Heilsueflandi Breiðholts.
Einn þáttur sem hefur áhrif á líðan og heilsu er streita.
Í desembermánuði heyrist oft minnst á orðið stress, fólk er að farast úr „jólastressi“, það „stressar sig“ yfir öllu sem þarf að gera fyrir jólin og verkefnin hrannast upp sem þarf að sinna aukalega miðað við aðra mánuði ársins. En streita þarf ekki alltaf að vera slæm, streita er bara eðlileg viðbrögð líkamans við álagi eða hættu.
Streita er því á margan hátt afskaplega eðlileg og raunar lífsnauðsynleg.
Útbreiddur misskilningur er að streita sé nútímafyrirbæri sem sé bundin borgarmenningunni. Streita er hvorki jákvæð né neikvæð í sjálfu sér, aðalatriðið er að streitustig okkar sé eðlilegt miðað við aðstæður, sé hvorki of hátt né of lágt. Íþróttamenn þekkja það vel hve nauðsynlegt er að halda streitustigi réttu í keppni til að ná árangri. Of mikil streita dregur úr árangri en að sama skapi næst ekki árangur ef hún er of lítil. Sama á við um daglegt líf fólks, að halda streitustiginu réttu á réttum augnablikum svo að afköstin verði sem mest í daglegu lífi. Í okkur er alltaf einhver streita, við höfum alltaf einhvern blóðþrýsting og einhverja vöðvaspennu.
Í desember er mikilvægt að hafa þetta í huga, að við séum kannski ekki að „drepast úr stressi“ eins og oft er sagt, heldur þurfum við að glíma við viðbótarverkefni sem þarf að leysa. Það er viðhorf okkar til verkefnanna sem skiptir höfuðmáli og hvernig við glímum við þessi streitu varðandi verkefni sem bíða allra í desember. Streitustig sveiflast upp og niður yfir daginn eftir þeim kröfum sem umhverfið eða við sjálf gerum til okkar. Það er þegar streitan er orðin viðvarandi og við náum ekki að ná tökum á þeim aðstæðum sem valda henni að hún verður skaðleg heilsu okkar og geti m.a. haft slæm áhrif á æðakerfið og valdið háum blóðþrýstingi, vöðvabólgu, höfuðverk, meltingarfærasjúkdómum og húðsjúkdómum.
Áhrif streitu á fólk eru einstaklingsbundin. Það sem veldur einum manni streitu hefur lítil áhrif á næsta. Rannsóknir hafa sýnt fram á að þeir einstaklingar sem eru í góðu líkamlegu formi þola streitu betur en þeir sem eru í lélegu líkamlegu formi, þeir verða sjaldnar yfir stressaðir og eru fljótari að jafna sig en þeir sem eru illa á sig komnir. Einnig er athyglisvert að viðhorf fólks til umhverfisins hefur mikla þýðingu þegar kemur að því hvernig það höndlar stress. Þeir einstaklingar sem taka alla hluti alvarlega, leita stöðugt að neikvæðu hliðunum á öllu hlutum, láta allt fara í taugarnar á sér og mikla hlutina fyrir sér eiga erfiðara með að glíma við streitu en þeir sem eru lausnamiðaðir og jákvæðir. Mikilvægt er að enginn er fæddur með þessa eiginleika. Flestir geta þjálfað upp ný viðbrögð og venjur ef þeir kæra sig um það.
Hvernig höldum við streitunni í skefjum?
Hvernig brugðist er við umhverfisþáttum og verkefnum sem valda streitu er aðalmálið í streitustjórnun einstaklingins. Öll hreyfing og líkamsæfingar er eitt besta meðalið við streitu. Eins og áður sagði þá höndlar fólk í góðu líkamlegu ástandi streitu betur og hreyfing losar um uppsafnaða spennu sem streitan veldur einstaklingum, enda henni ætlað að búa líkamann undir átök. Slökun og hugrækt eru góðar leiðir í streitustjórnun svo og hollt mataræði.
Lærðu að þekkja einkenni sem gefa til kynna of mikla streitu hjá þér og finndu leið til að klára verkefni sem valda streitu. Hér eru þrjár leiðir sem hægt er að nýta sér til þess að glíma við streituvaldandi verkefni.
Þau hafa verið sett fram á ensku undir „The three D´s“:
- Deal With It
- Delegate It
- Dump It
Í lauslegri íslenskri þýðingu mætti segja:
- Höndlaðu það,
- Fáðu hjálp - úthlutaðu til annarra
- Hættu við það.
Höfum hugfast í desember að streita er hvorki jákvæð né neikvæð, en það heyrist alltof oft í þessum mánuði að einhver sé að „farast úr jólastressi“ og allir tengja það við neikvætt atferli. Það þarf bara alls ekki að vera neikvætt að finna fyrir jólastressi, það getur gefið auka kraft til athafna og til að ná árangri í að leysa verkefni. Nýtum þessi viðbótarverkefni í desember sem valda streitu til að æfa okkur í streitustjórnun, notumst við „The three D´s“, ef þú höndlar ekki verkefnið hættu þá við það. Það þarf ekki að gera allt fyrir jólin heldur velja þau verkefni sem þú þarft nauðsynlega að gera og munu valda vellíðan fyrir þig og fjölskyldu þína um jólin.
Látum okkur finnast vænt um jólastressið og lítum á það sem jákvætt stress sem eykur afköst en á sama tíma verðum á varðbergi að jóla undirbúningurinn leiði ekki til ofstreitu sem dregur úr árangri.
Streitustjórnun mun hafa jákvæð áhrif á líðan.
Gleðileg jól! Þórdís Lilja Gísladóttir, verkefnastjóri Heilsueflandi Breiðholts