Ómissandi fylgifiskur þess að vilja grennast eru hinar óteljandi auglýsingar úr heimi fæðubótarefna og það er einmitt þangað sem við ætlum að beina sjónum okkar í dag.
Margir halda því fram að til að byggja upp vöðva sé nauðsynlegt að borða mikið af prótínum strax eftir æfingu. Þessi staðhæfing byggir á vel þekktum vísindum, vöðvar eru nefnilega að mjög stórum hluta prótín, byggð úr amínósýrum sem við fáum úr fæðunni. Í hvert skipti sem við borðum prótín, eins og til dæmis kjöt, brjótum við prótínin niður og tökum þau síðan upp í líkamann á formi amínósýra. Þessi staðhæfing er því ekki að öllu leiti röng, prótín er nauðsynlegt til að byggja upp vöðva. Það sem hins vegar er rangt er að halda því fram að magn prótínsins sem við innbyrðum sé takmarkandi þáttur í því hversu hratt okkur tekst að byggja upp vöðvana.
Í daglegu lífi hins venjulega Íslendings er varla sú máltíð borðuð sem ekki inniheldur prótín. Margir halda því fram að ekki sé um máltíð að ræða nema hún innihaldi kjöt. Þau viðmið sem gefin eru út um prótín-inntöku íþróttamanna eru um eða undir því magni sem flestir neyta af prótíni á dag. Það sem takmarkar uppbyggingu vöðvanna er því ekki prótínskortur heldur fjöldi æfinga, þörf líkamans á uppbyggingu vöðva og geta hans til að framleiða þau tilteknu prótín sem til þarf í vöðvana.
Prótínin sem hægt er að kaupa í sérstökum drykkjum, stykkjum eða duftformi eru ekki betri prótín en það sem við fáum úr fæðinnu. Algengt er að í fæðubótarefni séu notuð mjólkurprótín, það er af þeirri einföldu ástæðu að mjólkurprótín eru auðfáanleg, framleidd í miklu magni og falla oft til sem aukaafurð þegar mjólkurafurðir eins og ostur verða. Í stað þess að drekka prótínsjeik eftir æfingu væri því bara tilvalið að drekka eitt mjólkurglas.
Grein af vef hvatinn.is