Og má þá reikna með á hverjum tíma að það séu 15.000 til 45.000 Íslendingar. Alvarlegt þunglyndi leggst á a.m.k. 25% kvenna og 12% karla á einhverjum tímapunkti í lífi þeirra.
Á hverjum tíma glímir einn af hverjum fjórum við geðheilsuvanda af einhverjum toga og það gera 25% af öllum Íslendingum. Á Íslandi missum við þrjá til fjóra einstaklinga á mánuði sem falla fyrir eigin hendi. Það eru 500-600 sem reyna sjálfsvíg á hverju ári og eru í aukinni hættu á eftir.
Mikla viðhorfsbreytingu þarf í kerfinu
Það er með ólíkindum að sé ekki niðurgreidd sálfræðiþjónusta þar sem hausinn er hluti af líkama. Að sjálfsögðu eiga að vera fagmenn í grunn- og framhaldsskólum landsins svo sé hægt að byggja upp börn og ungmenni og gefa þeim jöfn tækifæri til náms. Mikið væri gott að ríki og sveitarfélög nýti sér meiri reynslu fólks sem hefur gengið í gegnum andlega erfileika. Nú er verið að tala um mikla örorku út af andlegum veikindum og starfsgetumat. Hvernig væri þá að nýta reynslu fólksins í skólum í hlutastarfi? Hvernig getur staðið á því að við viljum alltaf vera að taka á afleiðingum í stað þess að byrja á rótini? Það þarf mikla viðhorfsbreytingu í kerfinu til að við getum byggt upp í stað þess að taka á afleiðingum!
Sagan aldrei of oft sögð
Þegar ég byrjaði í grunnskóla í fyrsta bekk 7 ára 1974 leið mér strax illa og var lítill í mér. Ég átti erfitt með að læra og fór í sérkennslu í lestri. Það sem hjálpaði mér var að ég var þokkalegur í íþróttum og var þá tekinn í hópinn. Lærdómur sat hins vegar á hakanum af því að mér leið svo illa í skólanum. Ég var hræddur um að ef ég segði frá hvernig mér liði yrði ég skammaður. Það yrði þá sagt við mig að ég ætti bara að rífa mig upp og hætta þessu væli. Fólk vissi náttúrulega ekki frekar en ég hvað geðraskanir voru á þeim tíma. Ef ég hefði fengið þessi svör er ólíklegt að ég væri á lífi í dag.
Frá 12 ára aldri var kvíðinn orðinn að mikilli fælni. Ég kveið orðið fyrir að mæta á æfingar eða spila leiki. Ég fór aldrei á opið hús í skólanum og reyndi að forðast samskipti utan við íþróttir sem héldu mér gangandi.
Sjálfsvígshugsanir og vonleysi og skammaðist mín fyrir sjálfan mig. Vissi ekki af hverju ég svitnaði, roðnaði, klökknaði og var með brothætt taugakerfi, ekkert sjálfstraust eða sjálfsvirðingu. Ég var viss um að allir skömmuðust sín fyrir mig og sjálfsmyndin sagði ég væri asnalegur og ljótur.
Ég leyfði öðrum að gera grín að mér og tók þátt í því með að setja upp grímu svo enginn myndi sjá mína vanlíðan. Ég náði samt að klára grunnskóla en þorði ekki í útskriftarferðina.
Ekki möguleiki á framhaldsskólanámi
Ég prófaði framhaldsskóla en entist í tvo mánuði þar sem ég gat ekki verið innan um aðra. Hættur að fara með félögum í bíó eða hanga í bænum.
Ég var hræddur um allir væru að horfa á mig og myndu sjá hvernig mér liði og myndu hlæja að mér. Ég fór að vinna 16 ára og vann á sama vinnustað í 20 ár en fór ekki í kaffi- eða matartíma. Ég gat fengið léttari vinnu öll þessi ár á miklum hærri launum en þorði ekki úr syndrominu sem ég var orðinn vanur að vera í. Ég vann í gosverksmiðju sem varð svo að bjórverksmiðju Víking á Akureyri.
Um 17 ára aldur fór ég að drekka til að flýja raunveruleikann og deyfa mína vanlíðan, þegar félagarnir voru að drekka þá gat ég komið, og var oftast búinn að drekka í mig kjark til að komast til þeirra. Þessari aðferð mæli ég alls ekki með.
Úr Þór Akureyri í Magna Grenivík
Þótt skrítið sé var ég alltaf virkur í fótboltanum en þar fékk ég vissa útrás en gat samt aldrei einbeitt mér nógu vel. Það fór svo mikil orka hjá mér í að fylgjast með umhverfinu í kringum mig. Ég varð að hætta í Þór þegar ég var búinn með annan flokkinn þá 19 ára 1986. Ég treysti mér ekki að spila með meistaraflokknum hjá Þór og fór frekar í Magna Grenivík.
Ég fór frekar í Magna Grenivík þar sem það var minna félag og færri áhorfendur. Ég kveið samt alltaf öllum æfingum og leikjum. Ég náði greinilega að fela innri vanlíðan mjög vel þar sem engum sem ég hef verið með í boltanum datt til hugar að mér hafi liðið svona illa. Ég sem var alltaf svo hress sögðu félagarnir en undir grímunni var lítil sál sem þorði ekki opna sig.
Þótt menn hafi stigið fram og opnað á umræðuna þarf stefnumótun og miklu meiri fræðslu til að auka þekkingu. Gefa íþróttamönnum tækifæri á að opna sig og fá skilning og stuðning sem bæði gerir þeim gott í daglegu lífi og gerir þá að sterkari íþróttamönnum.
Ég spilaði með Magna þangað til ég var 27 ára gamall en þurfti þá að hætta út af slitgigt.
Mjaðmaliðaskipti
Ég þurfti að fara í mjaðmaliðaskipti 1998 þá 31 árs gamall. Ég þurfti að fara aftur 2004 og þá orðinn 37 ára gamall.
Ég varð óvinnufær eftir seinni aðgerðina en það er það besta sem hefur gerst í mínu lífi. Svolítið skrítið að segja þetta, orðinn verkjasjúklingur, en það varð til þess að ég eignaðist það líf sem ég á i dag eftir mikla vinnu í sjálfum mér.
Ég var í verkjaskóla á Kristnesi árið 2005 þar sem ég sá í fyrsta skipti hvað ég hafði glímt við síðan ég var barn. Ég fékk þá bæklinga um kvíða, félagsfælni og þunglyndi.
Ég las þessa bæklinga og óhætt að segja að mörg tár hafi runnið niður kinnar, þetta reyndust vera bæklingar um mig. Öll þessi skömm sem ég var búinn að bera öll mín ár breyttist í þakklæti fyrir að hafa lifað af.
Það voru raunverulegar ástæður fyrir minni vanlíðan og það var von. En til þess þurfti ég að taka grímuna af og fá hjálp. Ég hafði tækifæri til að byggja mig upp og öðlast sjálfstraust og sjálfsvirðingu. Ég þurfti að vinna fyrir því að taka niður grímuna og nýta mér hjálpina með opnum huga.
Ég fékk hjálp strax hjá sálfræðingi á Kristnesi þar sem mörg tár runnu niður í fyrsta tímanum. Í framhaldi af því fór ég til míns heimilislæknis sem spurði hvort ég vildi fá hjálp uppi á geðdeild eða fara í samtalsmeðferð með sér. Ég valdi samtalsmeðferð og fór á lyf sem heitir seroxat. Ég hélt nefnilega að geðdeild væri eins og sýnt er í bíómyndum eins og Englum alheimsins eða Gaukshreiðrinu.
Í byrjun árs 2006 fór ég að drekka ofan í lyfið og ákvað að fá hjálp við áfenginu til að geta haldið áfram að vinna í sjálfum mér. Ég fór í 40 daga meðferð hjá SÁÁ í lok janúar. Ég var byrjaður að sjá árangur og ákvað að 2006 yrði árið mitt. Ég stóð við það og endaði á Heilsustofnun Hveragerðis um haustið þar sem líkamlegi hlutinn var tekinn. Hef farið þangað reglulega síðan til að halda mér gangandi andlega og líkamlega.
Ég fór svo í Starfsendurhæfingu Norðurlands í byrjun árs 2007 sem var sambland af framhaldsskólanámi þá og hópefli. Ég, sem hafði hætt 24 árum áður eftir tvo mánuði.
En snemma árs 2008 varð ég mjög veikur og lagðist inn á geðdeild á Akureyri. Það var erfitt skref að stíga og hugsaði ég að nú myndu allir halda að ég væri endanlega orðinn geðveikur en náði því að það skiptir ekki máli hvað aðrir halda heldur hvað ég er að gera til að öðlast betra líf. Þurfti ég fyrst og fremst að losa mig við eigin fordóma.
Það var heldur enginn í spennitreyju, út úr heiminum eða hættulegur eins og ég hélt. Þarna var fólk úr ólíkum stéttum samfélagsins að leita sér hjálpar eins og aðrir gera við sínum veikindum. En það eru þessar ranghugmyndir sem bíómyndir og oft á tíðum óvönduð fjölmiðlaumfjöllun búa til, en sem betur fer er það að skána.
Eftir hálfan mánuð á geðdeildinni var mér farið að líða betur og ég hafði fengið ný lyf sem virkuðu betur fyrir mig. Minn læknir var að mennta sig í hugrænni atferlismeðferð og fékk að nota mig sem tilraunadýr í því námi.
Um sumarið fór ég í félagskvíðahóp á göngudeild geðdeildar og í framhaldi af því í sex vikur á geðsvið Reykjalundar í hugræna atferlismeðferð.
Ég kláraði starfsendurhæfinguna vorið 2009, ári á eftir áætlun, og var mér bent á möguleikann að fara suður í Ráðgjafaskóla Íslands því það var talið henta mér. Það gerði ég og þá kynntist ég Hugarafli. Ég man eftir því þegar ég var á leiðinni þangað í fyrsta sinn og hugsaði: „Ég er nú ekki svona geðveikur.“
Þrátt fyrir allt þetta ferli og alla þessa vinnu með minn sjúkdóm voru fordómarnir enn þá þetta miklir hjá mér. En svo kom í ljós að í Hugarafli var bara fólk eins og ég sem var að vinna í sínum málum og þar var mér mjög vel tekið.
Ég mætti í Hugarafl á hverjum degi í þá þrjá mánuði sem ég var í Ráðgjafaskólanum. Mér leist svo vel á þessa hugmyndafræði um valdeflingu og ég fann hvernig hún gaf mér von um bata.
Þegar náminu í Ráðgjafaskólanum lauk, eftir þrjá mánuði, flutti ég aftur norður. En á Akureyri var ekkert. Það var allt í einu enginn tilgangur með því að fara á fætur á morgnana. Svo ég fór suður í Hugarafl og fann aftur tilgang með lífinu með að vinna í sjálfum mér og taka ábyrgð á mínum bata.
Í Hugarafli náði að ég að eflast með að takast á við áskoranir. Ég náði að minnka við mig lyf úr níu töflum í tvær með því að vinna í sjálfum mér.
Ég fór að fara með geðfræðslu í skóla og sú fyrsta var í Fjölbrautaskólanum á Suðurnesjum. Þar stóð ég fyrir framan 100 unglinga til að miðla af minni reynslu til að auka þekkingu og mikilvægi þess að leita sér hjálpar sem fyrst.
Grófin, geðverndarmiðstöð á Akureyri
Ég var í þrjú ár í Reykjavík og flutti til Akureyrar í desember 2012. Ég kom þar inn í grasrótarhóp fagmanna og notenda sem voru búnir að hittast einu sinni í viku frá 2011. Grasrótin hafði áhuga á að stofna geðverndarmiðstöð eftir að dagdeild geðdeildar var lokað eftir hrun. Fengum við Auði Axelsdóttur iðjuþjálfa og forstöðumann Geðheilsueftirfylgdar á höfuðborgarsvæðinu og Hugarafls með okkur í lið.
Grófin, geðverndarmiðstöð, var svo stofnuð 10. október 2013 og hefur sýnt sitt forvarnargildi og hjálpað mörgum að stíga skrefið til að vinna í sjálfum sér á jafningjagrunni. Árið 2015 fékk Grófin hvatningarverðlaun frá forvarna- og fræðslusjóðnum ,,Þú getur“ fyrir forvarnarstarf og námsmenn hlutu námstyrki. Grófin hefur átt í góðu samstarfi við Háskólann á Akureyri á ýmsum sviðum og útlit fyrir framhald þar á. Grófin er komin í nánara samstarf við geðdeild á Sjúkrahúsi Akureyrar og vonandi mun heilsugæslan koma í samstarf en henni hefur verið kynnt okkar starf.
Geðfræðsla og mikilvægi þess að auka þekkingu
Grófin hefur stuðlað að aukinni þekkingu í samfélaginu með geðfræðslu í skólum sem og sveitarfélögum og fengið mikið lof fyrir. „Það er svo skrítið að við erum alltaf að taka á afleiðingum í staðinn fyrir að byrja á grunninum og gefa ungmennum tækifæri til að byggja sig upp í staðinn fyrir að bíða þangað til í óefni er komið sem getur orðið of seint. Við læknum ekki allt með lyfjum heldur vantar skilning og stuðning frá samfélaginu sem og ráðamönnum til þess að þessi börn og ungmenni fái strax hjálp. Það sparar að taka á vandanum strax, en kostar tvöfalt meira ef menn ætla alltaf að fresta vandanum.“
Ég hef líka verið að fræða á málþingum og hjá íþróttafélögum. Síðast á aðalfundi hjá mínu gamla félagi Þór Akureyri í vorið 2016. Þar voru mínir gömlu félagar og vinir að hlusta og fannst erfitt að vita að mér hafi liðið svona illa en ánægðir með að ég hafði lifað af. Þeir áttuðu sig nú á afhverju ég forðaðist að fara með þeim á mannamót nema vín væri notað og afhverju ég fór í Magna í stað þess að spila með þeim í Þór. Ég hef opnað mig mikið í fjölmiðlum og skrifað greinar. Það er ekki óskastaða fyrir mann sem hefur glímt við félagsfælni að opna sig í litlu samfélagi.
Ég hefði verið eigingjarn ef ég hefði ekki gefið áfram þá hjálp sem ég hef fengið og gera samfélaginu grein fyrir myrkrinu og alvarleika geðraskana en um leið benda á bjargráð og hvetja einstaklinga til að leita sér hjálpar. Ég væri ekki á þessum stað í lífinu ef ég hefði ekki verið hreinskilinn og opinn fyrir hjálpinni til að takast á við óttann og innri vanlíðan.
Ég hef nýtt mér allan þann stuðning sem var í boði með jákvæðni að leiðarljósi til að takast á við mínar geðraskanir.
Ég kláraði félagsliðanám vorið 2016. Ég fer reglulega á heilsustofnun í Hveragerði og var líka á Reykjalundi vorið 2009 og 2012. Ég er þakklátur öllu því flotta fólki fagmanna og notenda sem hafa hjálpað mér að vinna í sjálfum mér.
Að lokum
Ég vona að ég hafi gefið innsýn í hvernig börnum, ungmennum sem fullorðnum getur liðið sem glíma við félagsfælni og mikilvægi þess að börn fái hjálp strax í æsku. Ég vona, hvort sem fólk er í íþróttum eða ekki og líður illa andlega dagsdaglega, leiti sér hjálpar. Ég vona að íþróttafélög styðji vel við bakið á einstaklingum sem líður illa andlega eins og líkamlega. Ég vona að íþróttasambönd og íþróttafélög leiti eftir meiri fræðslu um geðraskanir. Íþróttahreyfinginn á að setja þar gott fordæmi með því að sýna virðingu í verki og án fordóma. Þetta er lífsins alvara sem rænir lífi manna og lífsgæðum sem ekki er hægt að gera lítið úr.
Höfundur greinar:
Eymundur Eymundsson, félagsliði og ráðgjafi úr Ráðgjafaskóla Ísland