Erfitt að meta geðheilsuna fyrstu dagana á Vogi
„Það kemur mikið af fólki með geðræn einkenni inn á Vog og það er afar mikilvægt að greina hvort það eigi sér eðlilegar skýringar vegna neyslu eða hvort um sé að ræða undirliggjandi geðsjúkdóm. Á hefðbundnum vinnudegi er leitað til mín af öðrum læknum og starfsfólki SÁÁ varðandi ráðgjöf og oft er ég beðinn um að tala sérstaklega við sjúklinga sem við höfum grun um að þurfi meiri geðræna meðferð. Stundum er erfitt að meta geðheilsuna fyrstu dagana því fólk sem er að koma úr mikilli neyslu er í slæmu ástandi. Oft er líka einhver aðsteðjandi vandi eða krísa sem verður til þess að það kemur inn á Vog.“
Umhverfi og erfðir spila alltaf saman
„Fíkn hagar sér eins og aðrir sjúkdómar. Við sjáum að mynstrið er mjög líkt mynstri annarra sjúkdóma, eins og sykursýki eða gigtarsjúkdómum. Við sjáum líka að það er sama fjölskyldumynstur og erfðalægni. Löngu áður en við vorum farin að geta tekið myndgreiningar af heilanum vorum við orðin þess fullviss að fíkn væri sjúkdómur og sú vissa hefur styrkst eftir því sem tíminn líður. Erfðarannsóknir hafa sýnt að það er ákveðinn erfðagangur í fíkn sem er mjög líkur öðrum sjúkdómum og við erum líka komin með myndgreiningar af heilanum sem sýna hvernig ákveðnar stöðvar breytast hjá þeim sem eru með fíknsjúkdóm. En það er með fíknsjúkdóminn, eins og aðra sjúkdóma, t.d. gigtsjúkdóma, sykursýki og geðsjúkdóma, að umhverfi og erfðir spila alltaf saman. Hjá sumum er erfðaþátturinn mjög sterkur og lítið þarf til þess að einstaklingur verði mjög veikur. Svo eru það hinir sem ekki eru með eins sterkar erfðir og þá þarf meira til þess að einstaklingurinn veikist. Fólk þarf þá að drekka lengur og aðrir hlutir í umhverfinu fara að skipta meira máli, eins og álag í vinnu, áföll í lífinu, hjónaskilnaðir, að missa vinnuna, eða einfaldlega missa rammann sem heldur utan um líf manns. Þessir atburðir geta valdið því að einstaklingur, sem ekki er með eins sterka tilhneigingu erfðafræðilega til þess að fá fíknsjúkdóm, veikist vegna þess að það koma saman umhverfi og erfðir. Við sjáum líka að fíknsjúkdómurinn er misalvarlegur hjá fólki. Sumir fá mjög brátt, gríðarlega alvarlegan sjúkdóm og bregðast illa við meðferð, þurfa að koma oft og ná stundum bara stuttum bata inn á milli. Þessir einstaklingar fá þá í raun líknandi meðferð allan sinn sjúkdómsgang. Aðrir fá sjúkdóm sem er mjög viðráðanlegur, bregðast vel við fyrstu meðferð og ná bata.“
„Það er sterk vísbending um að fólk sé búið að þróa með sér fíknsjúkdóm þegar það reynir að hætta neyslu, reynir að ná stjórn en nær því ekki.“
Sterk vísbending um fíknsjúkdóm að reyna að hætta neyslu
„Það þekkist að fólk neyti meiri vímugjafa á ákveðnum tímabilum í lífi sínu, t.d. á háskólaárum, eftir skilnað og sumir lenda í einhverjum vandamálum meðan á þessu tímabili stendur en svo gengur það yfir. Fíknsjúkdómur er krónískur og þegar einstaklingur er kominn með fíknsjúkdóm þá verður ekki aftur snúið. Vímugjafar munu alltaf hafa neikvæð áhrif á líf hans og hann mun ekki geta stjórnað neyslunni. Það er sterk vísbending um að fólk sé búið að þróa með sér fíknsjúkdóm þegar það reynir að hætta neyslu, reynir að ná stjórn en nær því ekki. Til að greina fíknsjúkdóminn notar SÁÁ greiningartæki alþjóða heilbrigðisstofnunarinnar, DSM 5, sem mælir neysluna, stjórnina og þolmyndunina. Sjúklingar sem greinast með 2-3 einkenni teljast hafa vægan vanda, hjá þeim sem hafa 4-5 einkenni telst vandinn í meðallagi. Ef sjúklingur greinist með sex einkenni eða fleiri af þessum ellefu telst hann eiga við mikinn vanda að stríða. Yfir 95% sem koma á Vog eru með fleiri en 6 einkenni og alvarlegan fíknsjúkdóm.“
Fíknsjúkdómurinn misalvarlegur
„Fíknsjúkdómar eru, eins og aðrir sjúkdómar, misalvarlegir. Sumir bregðast vel við einfaldri meðferð en svo eru til einstaklingar sem þurfa meira. Við þekkjum það alls staðar úr læknisfræðinni að stundum dugar eitt lyf, stundum dugar að gefa meðferð án lyfja og stundum þurfa menn mörg lyf og mikla meðferð. Það að fólk komi aftur og aftur til meðferðar er merki um alvarlegan sjúkdóm og þá þarf að koma inn með sérhæfðari meðferð og ítarlegri. Auk almennrar meðferðar erum við með meðferð fyrir endurkomumenn, eldri menn og rekum úrræðið Vin, í samstarfi við Reykjavíkurborg. Vin er fyrir karla sem eru búnir að koma oft í meðferð vegna alvarlegrar vímuefnaneyslu. Þeir eru með miklar afleiðingar af neyslunni á taugakerfið og heilann og allt þeirra félagslega umhverfi hefur orðið fyrir áhrifum.“
„Við höfum langtímastuðning fyrir karlana á sambýlinu Vin en við höfum ekki sambærilega endurhæfingu fyrir okkar veikustu konur, sem þær svo nauðsynlega eru í þörf fyrir.“
Færri úrræði fyrir konur
„Ímyndaðu þér að þú værir kona og færir inn á spítala með lungnabólgu og þér væri sagt að þér stæðu bara tvö sýklalyf til boða, af því það væru svo fáar konur með lungnabólgu, en körlum stæðu til boða tíu af því að þeir eru svo margir með lungnabólgu. Það má segja að þetta sé staðan í fíknimeðferð núna. Konur fá minni meðferð vegna þess að þær eru færri. En konur eru með alveg jafn alvarlegan fíknsjúkdóm og margar þeirra eru mjög illa staddar. Við erum í bráðri þörf fyrir sambærileg úrræði fyrir konur eins og við höfum fyrir karla. Margar konur sem fara í eftirmeðferð á Vík eru mjög veikar og í miklum félagslegum vanda. Þetta eru oft konur með börn og mun flóknari vanda en karlarnir, þær eru jafnvel . . . LESA