Á nýfæddum drengjum er forhúðin alltaf þétt upp að kóngnum. Einungis er lítið op fyrir þvagrennsli. Fyrstu mánuðina er forhúðin límd niður á slímhúð reðurhöfuðsins og það á ekki að reyna að draga hana aftur.
Um eins árs aldur fer forhúðin að losna frá slímhúðinni og eftir það er yfirleitt hægt að draga forhúðina aftur án vandkvæða.
Þó er ekki ráðlegt að draga forhúðina afturhjá svona ungum drengjum því hætta er á að smá sár myndist sem gróa með örvefsmyndun og þar með aukinhætta á forhúðarþrengslum.
Ef forhúðarþrengsli lagast ekki á fyrstu árunum er hætta á vandamálum. Rétt er að ræða við hjúkrunarfræðing eða lækni í ungbarnaeftirlitinu sem geta ráðlagt þér. Ef það gerist oft að fram kemur bólga undir forhúðinni er rétt að ræða við lækni. Oft er hægt að koma í veg fyrir sýkingar með því að læra að skola reglulega með volgu vatni undir forhúðina, t.d. með sprautu.
Ef forhúðin er mjög þröng og ekki útlit fyrir breytingu eða sýkingar tíðar og ekki gengur að skola getur verið nauðsynlegt að gera aðgerð.
Forhúðarþrengsli (Phimosis) geta verið til staðar án nokkurra vandkvæða. Það er hverjum og einum í sjálfsvald sett hvort hann vill aðgerð. Vandamál byrja aðallega eftir kynþroska.
Við stinningu getnaðarlims með of þrönga forhúð er hætt við verkjum ef reynt er að draga forhúðina aftur og jafnvel rifur komið í hana. Stundum er jafnvel ekki hægt að ná henni til baka fyrr en limurinn er orðin linur. Ef svo er komið er rétt að ræða við lækni.
Það þarf að draga forhúðina reglulega aftur t.d. alltaf þegar farið er í bað. Það hjálpar til að víkka forhúðina ef hún er þröng. Tvær meðferðir eru við forhúðarþrengslum, annars vegar kremmeðferð og hins vegar skurðaðgerð. Yfirleitt er byrjað með kremmeðferð þar sem borið er sterakrem á þrengslin í 2-3 vikur samfara því að draga forhúðina aftur, Oftast dugar það en ef ekki þá þarf að víkka forhúðina í aðgerð sem annað hvort er gerð í staðdeyfingu eða í léttri svæfingu. Þá er gerður lítill langskurð sem víkkar forhúðina nægjanlega til að hægt sé að draga hana upp. Ef það gengur ekki án vandkvæða er getur í einstaka tilfellum þurft að fjarlægja forhúðina (umskera).