Bara 3 kílómetra í dag sannfærir Bára sig um um leið og hún treður sér í joggingbuxurnar og gerir sig klára í skokkið í hádeginu, en endar í staðinn með hamborgara og franskar í poka – og risavaxið samviskubit það sem eftir lifir dags.
Síðasta sígarettan tilkynnir Tómas með stolti og kveikir í henni úti á afmörkuðu reykingasvæðinu. Honum er þó ljóst, eftir að hafa útskrifast fimm sinnum áður af “Hættu að reykja” námskeiðum, að hann getur ekki treyst sínum eigin orðum.
Það er fátt sem dregur sjálfsímynd okkar meira niður en þegar okkur bregst viljastyrkurinn og við stöndumst ekki okkar eigin markmið. Ef okkur aðeins tækist að vera nógu ákveðin tækist okkur að losna við slæma ávanann eða þessi 10 kíló til að komas loksins í gott form. Þegar okkur mistekst fellur sjálfstraustið hratt niður og okkur finnst við aumingjar sem ekkert geta.
Því miður er staðreyndin sú að við höfum sjaldan eða aldrei haft meiri þörf á viljastyrk. Freistingar eru alls staðar. Ódýr fituríkur og hitaeiningaríkur matur er hvarvetna innan seilingar og þjóðin fitnar , ekki aðeins við fullorðna fólkið heldur hafa íslensk börn aldrei verið feitari. Aðeins hluti þjóðarinnar stundar einhverja hreyfingu og færri stunda hana reglulega. Þegar kemur að því að bæta okkar eigin heilsu virðist gamli góði viljastyrkurinn duga skammt.
Að treysta í blindni á að við losnum undan slæmum ávana með viljastyrkinn einan að vopni er eins og að trúa því að peningarnir vaxi á trjánum. Til að gera varanlegar breytingar á lífsstíl þurfa breytingarnar að verða að vana. Að nota viljastyrkinn og segja nei er ekki langtíma lausn. Við þurfum að tileinka okkur smám saman nýjar venjur sem við erum sátt við, að öðrum kosti eru þær ekki komnar til að vera.
Flestir sem hyggjast taka sig á varðandi heilsuna byrja of geyst. Svelta sig í heilan dag, hamast á hlaupabrettinu í fleiri klukkustundir eða taka með trukki nýja “tískukúrinn”. Þetta fólk hefur sannað að það býr yfir viljastyrk en hvernig er staðan eftir 10 daga – líklegt er að þá hafi þau snúið hratt og vel aftur til sinna fyrri venja. Viljastyrkur virkar ekki nógu vel því hann er of líkur refsingu. Það er mannlegt eðli að þrá það sem við ekki getum fengið.
Ákvörðunin um að hugsa vel um heilsuna er ákveðin binding. Þú hefur skyldum að gegna gagnvart sjálfri/um þér, að standa við ákvörðun þína. Þegar þú hefur tekið ákvörðunina getur þú byrjað að skilgreina hvað það er sem stendur í vegi fyrir því að þú náir árangri og í framhaldi af því unnið að því að yfirstíga hindranirnar.
Byrjaðu á þvi að fylgjast með því sem þú ert að gera nú þegar svo þú hafir eitthvað til að miða við þegar þú berð saman við árangur þinn. Því næst geturðu sett þér markmið en þau verða að vera raunsæ, skammtímamarkmið sem auðvelt er að ná. Því fleiri markmiðum sem þú nærð því ánægðari ertu með sjálfan þig og ferð að líta á þig sem einstakling sem gengur vel og nær árangri.
Ef markmið þitt er að lækka kólesteról í blóði gætirðu byrjað á einföldum markmiðum svo sem að sleppa öllu rauðu kjöti tvo daga í viku. Fylgstu með hvernig það gengur. Gastu staðist freistingarnar þessa tvo daga? Ef ekki, þá afhverju? Gerðir þú e.t.v. þau mistök að fara á uppáhalds hamborgarastaðinn og panta þér salat? Lykilinn að árangri er að finna leiðir sem virka fyrir þig. Reyndu að koma í veg fyrir að freistingarnar séu beint fyrir framan nefið á þér. Árangurinn sem þú nærð veitir þér svo hvatningu um að ná enn frekari árangri. Eftir dálítinn tíma þarftu svo ekki lengur að hugsa um þínar nýju betri venjur. Þegar þú ert búin/n að skokka í hádeginu 3x í viku í 3 mánuði hættir þú að hugsa um hvort þú getir það eða ekki. Þú gerir það einfaldlega. Þá hugsa hinir, hvílíkur viljastyrkur.
Heimild: doktor.is