Offituvandamálið er margslungið, m.a. er það ákaflega menningarlegt en það sem við vitum fyrir víst er að vandinn er í það minnsta tvíþættur, annars vegar aukið hreyfingarleysi og hins vegar fæðan sem við neytum. Sykur og kolvetni eru alls ráðandi í okkar daglegu fæðu og í öllu nánasta matarumverfi.
Til að berjast á móti þeirri þróun að fylla alla skápa og hillur af kolvetni og sykri er tilvalið að hafa það að markmiði að eiga alltaf grænmeti og ávexti og helst að geyma þá í skál á eldhúsborðinu.
Með því að hafa eitthvað grænt í skál fyrir framan sig, aukast líkurnar á því að þú nartir í hollustuna. Það er líka tilvalið að útbúa sér grænmetisbakka til að geyma í ísskápnum þannig að fyrirhöfnin verði minni þegar hungurtilfinningin gerir vart við sig.
Matarræði er félagslegur þáttur en hefur líka gríðarlega mikilvæg uppeldisleg áhrif. Með því að vera góðar fyrirmyndir varðandi neyslu ávaxta og grænmetis og gæta þess að slíkt sé ávallt á borðum, aukast líkurnar á að börnin á heimilinu velji hollustuna fram yfir sykurinn þegar fram í sækir.
Þannig getum við sem foreldrar í dag orðið góðar fyrirmyndir og snúið þyngdarþróuninni við í gegnum næstu kynslóðir.
Margrét V. Helgadóttir
Heimild: islenskt.is