En hvað er beinþynning og hvers vegna getur hún verið alvarlegt heilsufarsvandamál? Beinþynning er sjúkdómur í beinum sem veldur því að beinmassinn minnkar og misröðun verður í innri byggingu beinsins sem leiðir til aukinnar hættu á beinbrotum. Hún á sér stað þegar beinmagnið minnkar hraðar en líkaminn endurnýjar það. Flest brot af völdum beinþynningar verða á framhandlegg, hryggjarliðum, rifjum og mjöðm og valda þau miklum verkjum og verulegri hreyfi- og færniskerðingu.
Svokölluð mjaðmarbrot, eða brot í lærleggshálsi eru alvarlegust. Þau leiða ekki eingöngu til langrar sjúkrahúsvistar heldur minnka þau einnig lífslíkur til muna. Á heimsvísu er talið að beinbrot af völdum beinþynningar verði á þriggja sekúndna fresti. Hér á landi verða um 1500 beinbrot á ári vegna beinþynningar eða um þrjú til fjögur á dag. Þar af eru um 250 mjaðmarbrot, eða eitt slíkt brot alla virka daga ársins! Áhættan eykst með auknum aldri og eftir miðjan aldur mun nærri önnur hver kona og einn af hverjum fimm körlum brotna af völdum beinþynningar síðar á ævinni.
Brot af völdum beinþynningar eru að mörgu leyti sérstök. Þau verða oftar en ekki við litla sem enga áverka og miklar líkur eru á því að eitt slíkt brot leiði af sér mörg önnur af sama toga. Þessi beinbrot eru bæði algeng og kostnaðarsöm. Unnt er að draga úr áhættu á endurteknum brotum með réttum læknisfræðilegum aðgerðum og forvörnum. Nauðsynlegt er að greina hvort um beinþynningarbrot er að ræða, bjóða upp á fræðslu um hreyfingu og mataræði og jafnvel gefa lyf sem hafa áhrif á beinþéttni og styrk. Ekki má gleyma að eftirfylgd getur skipt sköpum til að koma í veg fyrir endurtekin brot. Stefna stjórnvalda í heilbrigðismálum skiptir verulegu máli en það er þeirra að gera áætlanir um að fækka beinbrotum af völdum beinþynningar og stuðla að því að ákvarðanir sem teknar eru byggi á vel upplýstum grunni. Vitað er að beinþynningarbrot kosta samfélagið mikið og það eitt og sér ætti að vera hvati til að draga úr fjölda þeirra.
Margt hefur áhrif á beinþéttnina s.s. aldur, erfðir og sjúkdómar, en við höfum hins vegar sterk vopn í hendi, sem eru gott mataræði og hreyfing. Með þessum vopnum má viðhalda vöðvastyrk og beinþéttni og minnka líkur á byltum og beinbrotum. Gætum sérstaklega að því að fá nægilegt kalk og D-vítamín og daglega hreyfingu, og verum þess minnug, að hvert skref skiptir máli.
Halldóra Björnsdóttir,
framkvæmdastjóri Beinverndar.