Umfjöllun upplýst hópsins á þessum síðum fjallar að miklu leyti um það sem kalla má gervifræði (e. pseudotheories) og gervilækningar (e. pseudomedicine). Gervifræðin eru stundum „studd“ af gervivísindum (e. pseudoscience).
Heilsutengd gervifræði (HEIG) eru hugmyndir eða kerfi hugmynda sem tengjast innbyrðis á einhvern máta, stundum bara fagurfræðilega (fallegar samhverfur eða líkingar) og vísa til sjúkdóma eða heilsufarsþátta sem á að lækna eða bæta, en skortir raunverulega orsakatengingu við viðfangsefnið. Þessar hugmyndir skortir bjargfestu (sbr. foundationalism) við hlutlægan raunveruleika. Sömuleiðis skortir gervifræði tengingu og samhengi við þá sannreyndu þekkingu sem í kringum þau liggja, t.d. sú hugmynd að einhver svæði undir ilinni samsvari einhverjum innri líffærum í gömlum kínverskum gervifræðum. Það passar engan veginn inn í þau fræði sem við þekkjum í dag um líffærafræði líkamans og hvernig líffæri tengjast hvert öðru. Það vantar allan rökstuðning og sönnunargögn til að sýna fram á slíkt. Það skortir þekkingarlegt samhengi eða samræmi (coherintism).
Gervilækningar (GL) byggja á HEIG eða einhverri einfaldri hugmynd sem engar áreiðanlegar athuganir eða rannsóknir styðja. Þær geta haft óbeinan (fjárútlát, tafir á greiningu og meðferð) eða beinan skaða (eitraðar jurtir).
Í fyrri skrifum hér hefur orðið kukl verið notað yfir gervilækningar en það hefur á sér fornan blæ tengdum hjátrú og göldrum, þannig að merking þess er ekki eins skýr og gervilækningar. Orðið kukl verður því frekar notað yfir gervilækningar sem tengjast slíkum fyrirbærum.
Gervifög eru skipulagðir hópar fólks sem hefur lært HEIG og GL og telur ávinning af því að viðhalda þeim, breiða út og iðka. Fulltrúum/iðkendum gervifaga finnst þeim ekki vera með neitt gervi í höndunum, heldur alvöru úrræði sem þau telja að alls kyns málsvarnir sýni fram á. Á Íslandi eru starfandi ýmis félög gervifaga sem samkvæmd lögum um græðara frá 2005, bindast í hagsmunasamtökum sem kallast Bandalag íslenskra græðara (BÍG). Í þeim lögum eru iðkendurnir sagðir vera í „heilsutengdri starfsemi“ en ekki skilgreindir sem heilbrigðisstarfsfólk. Lögin fela ekki í sér neina faglega viðurkenningu en setja ákveðinn ramma utan um starfsemi græðara.
Hugtökin hjálækningar (alternative medicine) og óhefðbundnar lækningar eru lýsandi hugtök sem segja ekkert um áreiðanleika, sanngildi, gagn eða gæði þessara úrræða. Hjálækningar eru ekki sannreyndar lækningar því að annars væru þær orðnar einfaldlega lækningar. Þessi hugtök segja ekkert til um eðli þessarar heilsutengdu starfsemi sem um ræðir, heldur bara að hún sé „hjá“ eða „óhefðbundin“ miðað við lækningar. Þau má nota þegar ekki er ljóst að um heilsutengd gervifræði (HEIG) er að ræða og/eða þegar mælandinn vill ekki innifela dóm um úrræðin. Þetta er þó umdeilanlegt því að ef að hjálækningar hafa samskonar merkingu og hjátrú, þ.e. trú á óraunverulega hluti, gæti orðið merkt; óraunverulegar lækningar.
Annað svipað hugtak á ensku er complementary medicine, sem hefur svipaða merkingu og alternative medicine (hjálækningar) en gæti merkt viðbótarlækningar eða jafnvel lækningaábót. Þessi hugtök segja ekkert um gæði þeirra úrræða sem undir þau eru felld.
Það er ruglingslegt að á ensku er til hugtakið traditional medicine sem er notað yfir gamalkunn heilsuúrræði samkvæmt menningarlegri hefð þjóða eða þjóðflokka. Þetta hefur verið kallað alþýðulækningar á íslensku.
Á hinn bóginn er á íslensku hugtakið hefðbundnar lækningar (conventional medicine) notað yfir þau heilsuúrræði sem vísindaleg hefð hefur skapast um frá því að vísindi frekar en menningarhefðir fóru að stýra því sem venjubundið varð í boði.
Enn ruglingslegra er enska hugtakið integrative medicine sem virðist lýsa þeirri ósk þeirra sem iðka fornar lækningar eins og grasalækningar, til að sameinast eða vera innifalin í heilbrigðiskerfum þeirra þjóða sem hafa tekið hefðbundnar vísindalegar lækningar sem sitt eina áreiðanlega viðmið og hið niðurgreidda úrræði. Integrative medicine mætti þýða sem samþættar lækningar (eða samtvinnaðar lækningar). (þýtt sem innlimun hjálækninga á síðu hér).
Fram hefur komið orðið undralækningar (sjá m.a. í siðareglum lækna), en það vísar ef til vill til „undurs“ sem kraftaverks, sbr. kraftaverkalækningar. Þessi orð mætti nota í vissum tilvikum, t.d. um það þegar miðlar eða predikarar þykjast hafa læknað einhvern.
Orðið skottulækningar á frekar við um ólöglegar lækningar, gerðar í leyni, eða eru á einhvern hátt óvandaðar og gerðar við óhepplegar aðstæður. Í íslenskri orðabók er þar einnig nefnt orðið lækningakák, sem nær þessari merkingu vel, sbr. hálfkák. Þessu tengt er orðið kvakl nefnt sem virðist tengjast orðinu kvakönd og vísar til enska orðsins „a quack“ yfir skottulækni. Þessi orð henta því ekki í almennri orðræðu hér um það sem gervilækningar ná mun betur utanum. Lækningafúsk er óljóst hugtak sem gæti átt við hvaða aðila sem er, sem reynir einhver úrræði til lækninga á óvandaðan og kæruleysislegan máta.
Erfitt er að finna nafn yfir þá sem iðka hin ýmsu gervifræði eða ástunda gervilækningar. Stór hluti þeirra á Íslandi vill láta kalla sig græðara (sem heildarhóp, e. healers), og gengur það eftir þeirra forsendu að þeir græði (líkt og að græða sár) eitthvað sem aflaga fer. Hins vegar ef að lækningin er í raun engin önnur en það sem lyfleysa getur skilað á skammvinnan máta, þá má segja að hér merki „græðari“; sá sem græðir fé á gervifræðum eða gervilækningum. Frekar kaldhæðið og orðið er ekki til í þeirri merkingu. Það má eflaust nota orðið græðari en oft á tíðum eru til orð eins og hómeópati, höfuðbeina- og spjaldhryggjafnari, o.s.frv. þ.e. eftir því hvaða gervifag um ræðir.
Það má nota orðin heilsusvindl og svikalækningar um vísvitandi sölu á „heilsudrasli“ eða gerviúrræðum, gervilækningum og „undratækjum“ eða „undrameðulum“ til fólks. Orðin heilsufals og falslækningar hafa svipaða merkingu og heilsusvindl en á ef til vill meira við um það sem er fölsk eftirlíking einhvers læknisúrrræðis eða fer meira leynt og er á einhverju duldu formi. Brotaviljinn er nokkuð ljós í svikalækningum og falslækningum en síður ílækningafúski, sem eru óvandaðar lækningar en ekki endilega ætlaðar til svika.
Kuklarar er þeir aðilar sem iðka (kukla með) gervilækningar með „hjálp“ anda, galdra, hjátrúar eða fornra tákna og því um líku.
Venslamynd óvitrænna hugmynda og gervilækninga
Hindurvitni er orð sem stundum er notað í tengslum við gervilækningar og þá sérstaklega ef að það tengist hjátrú eða göldrum, þ.e. kukli. Hjátrú er trú á óraunverulega hluti. Í íslenskri samheitaorðabók eru nefnd í þessu sambandi orð eins og bábilja, bull, hégilja, hjátrú, kredda, fordómar og sleggjudómar. Einnig eru nefnd orðin kerlingabók og kerlingavilla, sem bera vitni um kynjafordóma fyrri tíma. Í grein Þorsteins Vilhjálmssonar, prófessor emeritus, um hindurvitni á Vísindavef HÍ, koma einnig til sögunnar orðin dulspeki og hjáfræði.
Gagnrýni upplýst-hópsins á gervifög stýrist ekki af andúð við fólkið sem iðkar þau heldur áhyggjum af því að gervifræði nái að fanga hugi fleira fólks og að mikil vinna og tími iðkenda fari í að læra og ástunda gagnslausa hluti. Af sjálfsögðu lítur það ekki þannig út í augum hins sannfærða græðara og gagnrýni okkar túlkast þá sem óvelkomin árás á vinnu þeirra.
Þegar fólk er gjörsamlega sannfært um að nýju fötin keisarans séu í raun hin fallegustu og nytsamlegustu föt, þá hljómar sannleikurinn um að það standi í raun nakið, ákaflega særandi. Það er ekki ætlun Upplýst-hópsins að særa þá sem telja gervilækningar góðar og gildar, heldur koma á framfæri málefnalegri gagnrýni á þær.
– Svanur Sigurbjörnsson. (28.02.2017).
Af vef upplyst.org