„Ég vinn mikið með fólki sem vill léttast. Margir kannast við að hafa farið í megrunarkúr, misst fjölda kílóa og bætt þeim svo á sig aftur. Mig langar að fjalla um af hverju þetta gerist,“ segir Erla Gerður en að hennar mati er það manninum óeðlislægt að halda megrunarkúra út. „Mig langar að vekja fólk til umhugsunar um hvernig við getum unnið með líkamanum en ekki á móti og náð þar með varanlegum árangri, haldið góði heilsu og notið lífsins.“
Eftir að hafa unnið með fólki sem vill léttast í áratug telur Erla sig vera komna með uppskriftina. „Hún er ansi ólík því sem fer mest fyrir í fjölmiðlum og heilsutengdri markaðssetningu.“
Í upphafi þarf fólk, að sögn Erlu Gerðar, að gera sér grein fyrir því að það er ekki til ein leið fyrir alla. „Við erum svo svakalega ólík og vinnum ólíkt úr sama mataræði. Þetta snýst heldur ekki aðeins um mataræði og hreyfingu eins og svo oft er talað um heldur miklu meira um matarvenjur, hugarfar og aðstæður. Allt þetta þarf að skoða og taka með í reikninginn. Í kjölfarið er hægt að fara að skoða leiðir til úrbóta sem eru líklegar til að virka fyrir hvern og einn, en í öllum tilfellum þarf fólk að geta hugsað sér að halda þær út lífið,“ útskýrir Erla Gerður.
Hún segir þetta ekki snúast um að fara í átak, sleppa fæðutegundum og ströggla heldur að semja sátt við líkama og sál. „Skjólstæðingar mínir eiga það margir sameiginlegt að um leið og þeir taka ákvörðun um að huga betur að heilsunni byrja þeir að sleppa hinu og þessu og fara mjög gjarnan í þennan megrunar- og skortsfasa. Ég mæli alls ekki með því. Ég mæli með því að fólk byrji á því að setja inn meira af þessu góða og einblíni á góðu þættina og það sem það getur gert. Hægt og sígandi setur fólk inn meira og meira af góðu fæði. Að endingu er mataræðið að stærstum hluta hluta orðið gott og um leið fjarar óhollustan út.“ Erla Gerður segir hins vegar ekkert bannað. „Ekki nema fólk hafi hreinlega líkamlegt ofnæmi fyrir einhverju. Sé eitthvað tekið út á það að vera af heilsufarsástæðum en ekki til þess gert að léttast.“
Erla Gerður segir marga þurfa aðstoð við að koma sér af stað og halda sér við efnið. “Við höfum stöðugt verið að þróa okkar nálgun og vinnum markvisst með okkar fólki og er árangurinn eftir því.”
Erla segir bæði þurfa að huga að líkama og sál. „Árangurinn kemur ekki á einni nóttu. Fólk þarf að leyfa sér að þykja vænt um sig og hugsa breytingarnar til langs tíma. Þá kemur þetta hægt og rólega og þannig verður árangurinn varanlegri. Þá er að mínu mati mikilvægt að horfa ekki bara á árangurinn í kílóum. Þau eiga bara að vera aukaverkefni og fara hægt og rólega um leið og fólk einbeitir sér að því að verða hraust og koma jafnvægi á hugann og líkamsstarfsemina, blóðsykurinn og þarmaflóruna“
Að mati Erlu Gerðar virka megrunarkúrar alls ekki. „Ég held að það geti ekki verið að svona mörgum sé alltaf að mistakast. Það er bara ógerlegt að halda megrun út til langs tíma. Það gerist líka ýmislegt í líkamanum þegar við erum stöðugt að berjast við okkur sjálf. Þetta er hreinlega spurning um efnaskipti en megrunarstreitan breytir því hvernig heilinn vinnur og getur meðal annars haft áhrif á efnaskipti og hormón sem stýra svengd og seddu. Við erum því að gera okkur mjög erfitt fyrir með því að fara í megrun. Líkaminn er sömuleiðis hannaður til að bjarga okkur úr hungursneyð. Ef við borðum ekki í lengri tíma virkjar hann þau kerfi og bregst öðruvísi við matnum sem að lokum kemur. Hann setur mun stærri hluta í geymslu í stað þess að brenna hann eins og hann myndi gera ef maturinn kæmi í reglulegum skömmtum. Við það hleðst fitan upp. Þetta snýst því ekki bara um kaloríur heldur hreinlega um það hvernig við umgöngumst mat og borðum.
Höfundur greinar: Erla Gerður Sveinsdóttir, læknir hjá Heilsuborg
Vera Einarsdóttir, Blaðamaður á sérblöðum Fréttablaðsins