Handþvottur er þýðingarmesta sýkingarvörnin sem hægt er að beita, því bein og óbein snerting er algengasta smitleið sýkinga.
Það skiptir miklu máli að þvo hendur og þá sérstaklega þegar flensutímabilið stendur yfir.
Handþvottur er þýðingarmesta sýkingarvörnin sem hægt er að beita, því bein og óbein snerting er algengasta smitleið sýkinga. Kvef, flensa og alvarlegar meltingarfærasýkingar geta borist með höndum milli manna. Við notum hendurnar allan daginn og með þeim snertum við allt umhverfi okkar og getum þannig borið sýkla frá öðrum inn í slímhúðir í munni, nefi, augum og kynfærum. Á sama hátt getum við borið sýkingu beint eða óbeint frá okkur sjálfum yfir í aðra.
Eðlilegur bakteríugróður á höndum er öllum nauðsynlegur og er hluti af varnarkerfi okkar. Venjulegur sápuvatnsþvottur þvær slíkan bakteríugróður ekki af höndum.
Rannsóknir hafa leitt í ljós að margir virðast ekki þvo sér nægilega oft og vel um hendurnar og fæstir hugsa um hvernig þeir þvo sér.
Hvers vegna þvoum við hendur?
Með góðum handþvotti fjarlægjum við bakteríur sem við fáum á okkur með beinni eða óbeinni snertingu við sýkta einstaklinga og menguð svæði. Einnig forðumst við að bera hugsanlega sýkingu frá okkur sjálfum, beint eða óbeint yfir í aðra einstaklinga.
Hvenær á að þvo hendur?
- Áður en maður byrjar að meðhöndla matvæli
- Milli meðhöndlunar mismunandi, hrárra matvæla t.d. kjöts, grænmetis og matar sem er tilbúinn
- Fyrir máltíðir
- Eftir salernisferðir
- Eftir hósta, hnerr eða snertingu við nef
- Eftir meðhöndlun sára
- Eftir frágang á rusli eða óhreinindum
- Eftir bleyjuskipti
- Eftir snertingu við dýr
Hvernig þvær maður hendur?
- Taka hringa og aðra skartgripi af
- Skola hendur undir rennandi, volgu vatni
- Setja fljótandi sápu á hendur, dreifa og nudda hendur í a.m.k. 15 sekúndur og passa vel að þvo fingurgóma, naglasvæði, á milli fingra og ekki gleyma þumalfingri. Einnig getur verið nauðsynlegt að þvo handleggi.
- Skola alla sápu af höndum með rennandi vatni.
- Þurrka hendurnar vel með pappírsþurrku eða hreinu handklæði. Handklæði verða mjög fljótt menguð af bakteríum og því þarf að þvo þau mjög oft.
- Muna að kranar á almenninssalernum geta verið óhreinir og því er gott að skrúfa fyrir þá með pappírsþurrkunni
Heimild: doktor.is