Hettusótt er mjög smitandi veirusýking sem leggst oftar á börn en fullorðna. Sýkingin er yfirleitt hættulaus og gengur fljótt yfir en hún er þekkt fyrir að valda alvarlegum fylgikvillum sérstaklega hjá unglingum og fullorðnum.
Eftir að farið var að bólusetja gegn hettusótt á árinu 1989 hefur sjúkdómnum nánast verið útrýmt á Íslandi en þó kom hér upp faraldur 2005 – 2006 þar sem 113 einstaklingar greindust, flestir óbólusettir. Síðast greindist hér eitt tilfelli á árinu 2013.
Engin meðferð er til við hettusótt en besta fyrirbyggjandi meðferðin er með bólusetningu. Hér á landi er bólusett gegn hettusótt við 18 mánaða og 12 ára aldur með bóluefni sem inniheldur auk þess bóluefni gegn mislingum og rauðum hundum (MMR).
Litlir faraldrar eins og þessi minna á mikilvægi bólusetninga og minna jafnframt á þá staðreynd að hér geta brotist út litlir faraldrar gegn ýmsum bólusetningasjúkdómum ef þátttakan er undir væntingum.
Fengið af vef landlæknis.