Hafir þú ekki heyrt fuglana syngja undanfarið getur það stafað af heyrnarskerðingu. Þú getur að sjálfsögðu tekið þá afstöðu að af því þurfi ekki að hafa áhyggjur. Óháð því hversu mikil heyrnarskerðingin er mun koma í ljós að lífsgæði þín batna verulega ef þú gerir eitthvað strax við því.
Þú heyrir ekki í dyrabjöllunni, missir af mikilvægum upplýsingum á fundum, tapar þræði í samræðum o.fl. Það getur þýtt að mörg hljóð hafa horfið – þytur í laufi, fuglasöngur, barnshjal – hljóð sem gefa lífinu gildi. En hjálpin er ekki langt undan. Á örfáum árum hafa heyrnartæki þróast og batnað mjög mikið. Nútímaheyrnartæki búa yfir fjölmörgum eiginleikum sem gera þér kleift að greina betur talmál. Helen Adams Keller (1880-1968), bandarískur rithöfundur og fyrirlesari, var bæði heyrnarlaus og blind frá því hún var eins árs gömul. Þrátt fyrir það lærði hún bæði að tala og skrifa. Hún sagði: „Við að missa sjónina tapast samband við hluti en við að missa heyrnina missir maður samband við fólk.“
Hafirðu svarað játandi einhverjum af þessum spurningum þá getur ástæða þess verið heyrnarskerðing. Til að fá úr því skorið er mælt með því að þú farir í greiningu hjá heyrnarfræðingi eða háls-, nef- og eyrnalækni.
Heyrnarskerðing er af nokkrum gerðum en henni er oftast skipt í tvo flokka: leiðni- og skynheyrnarskerðingu (leiðslutap og skyntaugatap). Þegar um er að ræða leiðniskerðingu þá ná hljóðbylgjur ekki að berast inn í innra eyrað. Vandinn stafar af meini í hlust eða miðeyra þar sem þrjú smábein leiða hljóðið inn í innra eyrað. Tappi af eyrnamerg, gat á hljóðhimnu, bólga í miðeyra, brotin beinakeðja í miðeyra eða galli í gerð beina miðeyrans geta valdið leiðniheyrnarskerðingu. Oftast má ráða bót á leiðniheyrnarskerðingu með lyfjum eða skurðaðgerð. Í 90% tilvika er um skynheyrnarskerðingu að ræða. Orsakir hennar eru oftast þær að hin örfínu skynhár í innra eyranu hafa annaðhvort brotnað eða skaddast. Skynhárin nema hljóðbylgjur og breyta þeim í rafboð sem berast til heilans um heyrnartaugina en heilinn túlkar rafboðin sem hljóð. Skynheyrnarskerðing er oftast tengd öldrun en getur einnig stafað af hávaðaálagi, höfuðáverkum, sýkingum, aukaverkun lyfja eða verið arfgeng. Hvorki er unnt að lækna skynheyrnarskerðingu með lyfjum né læknisaðgerðum. Sumir geta verið bæði skyn- og leiðniheyrnarskertir en slík flokkast sem blönduð heyrnarskerðing. Menn geta heyrt þrátt fyrir skynheyrnarskerðingu en þeir heyra ekki allt hljóðrófið. Oft dofna eða hverfa veikir hátíðnitónar svo sem fuglasöngur. Skerðing á hátíðnihljóðum talmáls svo sem /s/ rýrir talskilning. Ekki bætir það úr skák að hávær hljóð, t.d. frá viðmælanda sem hrópar, hljóma jafnhávær í eyrum þess heyrnarskerta og þess sem hefur fulla heyrn. Sem betur fer geta heyrnartæki í flestum tilvikum hjálpað heyrnarskertum og gera þeim kleift að heyra hljóð sem annars væru þeim glötuð. Það leiðir einnig til þess að sú þrúgandi einangrun, sem oft er afleiðing heyrnarskerðingar, hverfur. Rannsóknir sýna að fullorðnir, sem nota heyrnartæki, njóta lífsins á margan hátt betur, sjálfsmat þeirra vex og þeir eiga auðveldar með að umgangast annað fólk.
Mikil framför hefur orðið í gerð heyrnartækja, allt önnur hljóðvinnsla en fyrir nokkrum árum. Nútímaheyrnartæki, sem eru afar fullkomin, geta verið smágerð og lítið áberandi. Þökk sé stafrænni tækni en með henni má sníða virkni þeirra fullkomlega að þörfum notandans. Sum heyrnartæki eru meira að segja það fyrirferðarlítil að þau hverfa á bak við eyra eða inn í hlust. Bætt lífsgæði geta verið á næstu grösum. Og með því að leita hjálpar gefurðu þér, fjölskyldu þinni og starfsfélögum veglega gjöf þegar þeim finnst ekki lengur erfitt að tala við þig.
ellisif@heyrn.is