Á miðvikudagsmorgninum vaknaði ég með hita, meltingaróþægindi, þétting og óþægindi í brjóstinu og leið bölvanlega.
Þetta hafði byrjað seinnipart á mánudegi og hafði farið versnandi og það sem ágerðis hratt var mikil og vaxandi mæði sem lýsti sér í því að ég varð móður við það eitt að snúa mér við í rúminu.
Þrátt fyrir áralanga reynslu mína af því að lifa með hjartasjúkdómi datt mér ekki í hug það sem seinna átti eftir að koma í ljós.
Mjöllin mín hvatti mig til þess að fara niður á Hjartagátt en engu að síður fannst mér nú rétt að hringja þangað áður en ég færi nú að fara þangað í einhverju óðagoti. Þar á bæ var mælt með því að ég myndi koma þangað sem fyrst.
Ég sá samt ástæðu til þess að fara í góða sturtu áður en ég fékk fóstursoninn til að keyra mig niðureftir. Sturtan var góð en hún var mér erfið og margoft þurfti ég að gera hlé vegna mæði.
Fljótlega eftir komu á Hjartagátt var ákveðið að leggja mig inn á hjartadeild til frekari rannsókna og þar á meðal hjartaþræðingu sem framkvæma átti á fimmtudag.
Ég fann þegar búið var að leggja mig í rúm á Hjartagátt hvað ég var illa staddur, algjörlega búinn og örmagna en í góðum höndum, ég var öruggur. Nóttin á hjartadeild var erfið, svefninn slitróttur, ég í svitakófi með meltingaróþægindi, niðurgang, brjóstverki og verk milli herðablaðana.
Í hjartaþræðingunni kom í ljós að í hægri kransæð voru tvær þrengingar. Önnur um 80% og hin 90%.
Æðin var opnuð og komið fyrir tveim stoðnetum og ég slapp fyrir horn.
Þetta kom mér á óvart og þetta kom læknunum á óvart og þarna munaði mjóu að illa færi en ég var einstaklega lánsamur.
Ég kom heim á föstudaginn, hef verið þreyttur og þurft að hvíla mig mikið en léttirinn er mikill og ég sáttur. Að mörgu leiti upplifi ég þetta eins og ég hafi fengið nýtt tækifæri, framlengingu á lífinu mínu.
Næst held ég að ég fylgi ráðum Mjallar þegar hún mælir með því að ég drífi mig niður á Hjartagátt í stað þess að þrjóskast áfram eins og mér hættir til.
Ég kom með flugi frá Skotlandi á sunnudaginn síðasta og ég býð ekki í það ef æðin hefði lokast á því ferðalagi, ég veit ekki hvernig mér hefði vegnað hefði ég fengið hjartaáfall, eða hvort ég hefði átt afturkvænt.
En svona eru mörg efin í lífinu sem við fáum aldrei svör við og það eina sem ég get gert er að þakka fyrir að hafa fengið lífið að láni enn um stund.
Takk fyrir mig.
Björn Ófeigs.
Heimild: hjartalif.is