Gallsöltin koma inn í meltingarveginn í skeifugörninni rétt neðan við maga og blandast þar fæðunni. Þau leysa upp fitu sem fer út í sogæðar og þaðan út í blóðið. Þegar gallsöltin hafa lokið þessu hlutverki sínu frásogast þau neðst úr görninni og fara aftur til lifrarinnar. Gallsöltin eru því endurnýtt og áðurnefnd hringrás margendurtekin. Minna en 5% þeirra glatast við hverja hringferð, en lifrin á auðvelt með að bæta það upp. Aðstreymi gallsalta til lifrarinnar er fyrst og fremst 3-5 klukkustundum eftir máltíð, eða þegar fæðan er melt og komin í gegnum mjógirni og niður í ristil. Hlutverk gallblöðrunnar er því í stuttu máli það að geyma gallsöltin milli áðurnefndra hringferða.
Þegar gallblaðran er tekin flæðir gallið inn í görnina þegar ekki er þörf fyrir það og ennfremur getur vantað gall þegar þegar þess er þörf þar sem engar varabirgðir eru til. Afleiðingar gallblöðrutöku geta verið þær að maðurinn þolir illa fituríkan mat og er því yfirleitt ráðlegt að neyta feitmetis í hófi. Einstaka sjúklingar þola illa að gall seytli inn í görnina þegar þess er ekki þörf og fá jafnvel þrálátan niðurgang. Við því er hægt að gefa sérstaka meðferð til að binda gallsýrurnar og verkar hún oftast vel, þannig að niðurgangur verður sjaldan alvarlegt vandamál. Ástæður gallblöðrutöku eru yfirleitt gallsteinar eða bólga í gallblöðru og er gallblaðran þá að mestu hætt að sinna hlutverki sínu. Einstaklingar með þessa sjúkdóma eru betur settir án gallblöðru.
Grein af vef doktor.is