Framleiðendur, flutningafyrirtæki og verslanir eru með kæla og geta þannig tryggt að kælikeðjan rofni ekki. Ýmislegt getur þó farið úrskeiðis þegar hitastigið utandyra fer vel yfir tveggja stafa tölu og sólin skín. Við viljum sjá sólina og þegar hitnar viljum við fá goluna inn. Í svona veðri er freistandi að hafa opið út en ef kælivara stendur óvarin fyrir sól inni á gólfi hjá framleiðendum, flutningsaðilum eða í verslunum, er voðinn vís.
Það sama á við sé kælivara flutt í ókældum bíl um langan veg. Það getur verið áskorun fyrir neytendur að koma viðkvæmum matvælum öruggum heim þegar sólin skín og heitt er í veðri. Ef það er fyrirséð að vörunar komast ekki í kælinn fyrr en eftir 3 -5 klukkustundir, er rétt að gera ráðstafanir til að tryggja að kælivara hitni ekki um of. Það má t.d. gera með notkun kæliboxa eða pakka matvælum vel inn og koma þannig í veg fyrir að sólin nái að hita þau.
Þegar haldið er af stað í ferðalag í leit að hita og sól er mikilvægt að gera ráðstafanir svo kælivara haldist köld á leiðinni og á ákvörðunarstað. Mikilvægt er að kæla viðkvæm matvæli vel niður áður en lagt er af stað. Einnig er hægt er að að frysta kjöt sem ekki á nota strax, nota frosin kælielement og pakka matvælum þannig í kæliboxin þannig að ekki þurfi að opna þau oft.
Vissulega er það oft svo, að ekki fer milli mál hvort matvælin eru orðin skemmd en því miður er ekki alltaf hægt að treysta á skynfærin við mat á öryggi þeirra. Fái matvælin ekki rétta meðferð geta þau verið orðið hættuleg neytendum áður en þau fara að skemmast.