Í ársbyrjun 2004 voru gerðar gagngerar breytingar á matseðli og manneldisteymi stofnað. Meginmarkmið þess hefur alltaf verið skýrt: að marka skýra stefnu í manneldis- og næringarmálum Reykjalundar. Lögð hefur verið áhersla á að halda vörð um þá stefnu sem er í fullu samræmi við opinberar ráðleggingar.
Þrátt fyrir metnaðarfulla stefnu starfar einungis einn næringarfræðingur í 100% starfi. Mikilvægt er að marka sér framtíðarsýn og hafa undirrituð lagt áherslu á að auka veg næringarfræðinnar innan stofnunarinnar. Samstarf Reykjalundar og Næringarstofu Lsh og RÍN, (rannsóknarstofa í næringarfræði) er liður í þeirri framtíðarsýn. Eins og áður hefur komið fram er mataræðið mjög mikilvægur þáttur í endurhæfingu. Skortur á næringar- og orkuefnum dregur verulega úr hæfni líkamans til að ná bata eftir erfið veikindi, áföll og slys af ýmsum toga. Í ljósi þess að skjólstæðingar Reykjalundar eru í auknum mæli ungt fólk og fólk í ofþyngd er gríðarlega mikilvægt að huga að mataræðinu hjá þessum hópi. Einnig er mikilvægt að huga að næringarástandi fólks þrátt fyrir ofþyngd. Sýnt hefur verið fram á vannæringu meðal fólks í ofþyngd og því mikilvægt að hafa í huga að þyngdin segir ekki allt um næringarástand fólks.
Í matsal Reykjalundar er alltaf viðmiðunardiskur sem skjólstæðingar geta haft til hliðsjónar þegar þeir skammta sér mat. Einnig eru upplýsingar um hitaeiningainnihald máltíðarinnar sem auðvelda skjólstæðingum að gera matarskráningu. Slíkar skráningar eru mjög gagnlegar og hjálpa til við að fá yfirsýn yfir hvað borðað er yfir daginn. Síðastliðið sumar var gerð ný úttekt á mötuneyti Reykjalundar. Um var að ræða sérverkefni til BS gráðu unnið af Áróru Rós Ingadóttur. Leiðbeinendur voru Ingibjörg Gunnarsdóttir, prófessor við Háskóla Íslands og Guðrún Jóna Bragadóttir, næringarfræðingur Reykjalundar. Helsta niðurstaða höfundar var að upplýsingar frá viðmiðunarblaði væru í góðu samræmi við það sem var viktað á viðmiðunardiskana.
Reykjalundur mun áfram leggja áherslu á að vera til fyrirmyndar og bjóða upp á næringarríkan og hollan mat. Skjólstæðingar staðarins hafa nægan og góðan aðgang að slíku fæði meðan á dvöl þeirra stendur. Almenn ánægja ríkir um matinn sem í boði er, bæði meðal skjólstæðinga og starfsmanna. Gera verður ráð fyrir að einhugur ríki meðal stjórnenda og starfsfólks Reykjalundar að fylgja áðurnefndri stefnu. Að starfsfólk Reykjalundar sé vel upplýst um mikilvægi hollrar og næringarríkrar fæðu og komi þeim skilaboðum til skjólstæðinga Reykjalundar. Framtíðarsýnin er björt og um leið spennandi.
Ludvig Guðmundsson, yfirlæknir og Guðrún Jóna Bragadóttir, næringarfræðingur
Grein birt með leyfi úr blaði SÍBS.